Ein einfaldasta hreyfing sem hægt er að stunda

Það getur haft betri áhrif á heilsu þín að fara í reglulegar gönguferðir en þér hefur dottið í hug. Skemmtilegast er að ganga með öðrum og því ekki að stofna gönguklúbb.  Nýlega birtist grein í British Journal of Sport Medicine, en í henni kom fram að fólk sem komið er á eða yfir, miðjan aldur og er í gönguhópum bætir heilsu sína og á  síður á hættu að meiða sig.  Í greininni voru teknar saman niðurstöður 42 rannsókna sem gerðar höfðu verið víðs vegar um heiminn á fólki sem var í gönguhópum og gekk reglulega. Nánast allir þátttakendurnir í þessum rannsóknum áttu það sameiginlegt að hafa verið með einhvern heilsubrest, svo sem heilabilun, liðagigt, sykursýki, of hátt kólesteról, of þungir og svo framvegis.  Flestir þátttakendurnir bættu heilsu sína á meðan rannsóknunum stóð.

  1. Göngur er hægt að stunda alls staðar og þær kosta ekkert.  Eldra fólki er oft ráðlagt að stunda margskonar hreyfingu, svo sem jóga, pilates, hjólreiðar og jafnvel hlaup. Það kostar peninga að stunda margt af því sem boðið er upp á. Það er líka hætta á að fólk meiðist ef ekki er varlega farið og æfingarnar eru flóknar. Göngur er ein einfaldasta hreyfing sem hægt er að stunda. Það er líka gaman að ganga með öðrum og  minnkar hættuna á að fólk einangrist félagslega.
  2. Við lifum á tímum þar sem auðvelt er að nálgast alla hluti og krefst þess ekki að við hreyfum okkur mikið. Við förum á bíl til vinnu, við sitjum í vinnunni, fyrir framan sjónvarpið og á meðan við borðum og svo framvegis. Kyrrsetur koma niður á heilsunni, við þyngjumst um of og þróum með okkur allskonar lífsstílstengda sjúkdóma. Að ganga í hálftíma á dag getur stórbætt heilsu fólks. Það léttist, úthaldið verður betra og blóðþrýstingur lækkar og svo mætti halda áfram að telja.
  3. Göngur bæta jafnvægið. Það eru nokkrar æfingar sem bæta jafnvægisskynið en það minnkar með aldrinum. Ganga er ein auðveldasta leiðin til að bæta það. Hún styrkir vöðvana í fótleggjum, baki og kvið. Styrkari vöðvar gera fók stöðugra.
  4. Þegar vöðvamassinn minnkar þarf fólk oft að fara að nota staf til vera stöðugra. Göngur minnka líkurnar á því að fólk verði upp á slík hjálpartæki komið eða þurfi að fá hjálp frá öðrum til að komast á milli staða.
  5. Margar rannsóknir renna stoðum undir þá fullyrðingu að þeir sem hreyfa sig reglulega séu hamingjusamari en þeir sem kjósa kyrrsetulífsstíl. Þegar fólk gengur með öðrum eða í hópi nýtur það félagsskapar við aðra. Ef fólk getur hreyft sig verður það síður háð aðstoð frá öðrum, en það að finnast maður stöðugt háður öðrum getur leitt til þess að fólk verður þunglynt og einmana.
Ritstjórn janúar 3, 2023 07:00