Gott fyrir heilann að dansa

Tanya Dimitrova segir lífsnauðsynlegt fyrir alla að stunda reglulega hreyfingu. Hún fyrirbyggi alls kyns sjúkdóma, geti komið í veg fyrir stoðkerfisvandamál og jafnvel snúið við þróun sjúkdóma á borð við sykursýki tvö, bakvandamál og of háan blóðþrýsting. „Því sterkari sem vöðvarnir eru, því sterkari verða beinin. Aumir vöðvar eftir æfingu eru hamingjusamir vöðvar“, segir hún og bætir við, að til viðbótar við jákvæðu áhrifin á líkamann, bæti hreyfingin geðheilsuna og geti haft mjög jákvæð áhrif á þá sem þjáist af kvíða, depurð og þunglyndi.

Hanna Dóra er einbeitt í æfingunum

Smitar alla af gleði

Tanya hefur kennt eldri borgurum bæði leikfimi og dans. Hún er núna með tíma hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík sem kallast  Zumba Gold, bæði fyrir byrjendur og lengra komna, en það eru ákaflega skemmtilegir danstímar. Svo er hún líka með tíma sem eru sérstaklega ætlaðir þeim sem ekki sækja lengur hreyfingu í líkamsræktarstöðvum. Sterk og liðug kallast þeir og stendur námskeiðið fram að jólum.  Þar hittum við fyrir Hönnu Dóru Þórisdóttur sem er rúmlega sjötug. Hún er gamall jógakennari, hefur alltaf hreyft sig mikið og heldur því áfram. Hún sækir tímana hjá Tanyu ásamt manninum sínum, en hann er orðinn áttræður. „Mér finnst þetta mjög mikilvægt“, segir hún en á móti leikfiminni stundar hún líka vatnsleikfimi í Breiðholtslaug. Hún er mjög ánægð með Tanyu, sem hún segir hafa svo mikla útgeislun að hún smiti alla af gleði.

Jóna Andrésdóttir fremst á myndinni. Eiginmaðurinn er til vinstri fyrir aftan hana

Að prjóna og hlusta á Rás 1

Ef ég væri ekki í þessari hreyfingu myndi ég sitja ennþá meira heima, prjóna og hlusta á Rás 1“, heldur Hanna Dóra áfram. „Þetta kemur mér út úr húsi og drífur mig áfram. Þetta er rosalega gott fyrir okkur bæði, mig og manninn minn. Svo á hann hund sem hann fer með út að ganga á hverjum degi, þannig að það er alltaf eitthvað alla daga sem kallar á mann að hreyfa sig“.  Önnur hjón eru einnig í leikfiminni hjá Tanyu, Jóna Andrésdóttir og Sigurður Ingi Ingólfsson. Jóna segir hreyfinguna nauðsynlega og segist ánægð með að finna hvernig hún breytist og liðkist í leikfiminni. „Við getum verið saman í þessu hjónin, hann vildi fara í eitthvað sem við gætum verið í saman. Þetta hentaði mjög vel. Þetta er mjög góð leikfimi. Tanya smá þyngir æfingarnar“, segir hún.

Þeir sem hafa alltaf hreyft sig

Líkamsræktin breytir ýmsu fyrir þá sem eru farnir að eldast og Tanya segir að það sé sjáanlegur munur á fólki sem er komið yfir sjötugt og hefur hreyft sig reglulega allt sitt líf og þeim sem hafa ekki gert það. „Fólkið sem hefur stundað einhverja hreyfingu alla sína ævi, er með betri líkamsstöðu, hraðari hreyfingar, betri viðbrögð og jafnvel hraðari hugsun. Þetta sést best í danstímunum. Þegar dansaður er ákveðinn dans, þarf að taka snögga ákvörðun um næstu skref þegar takturinn í tónlistinni breytist. Svona danshreyfing þjálfar heilann mjög mikið á sama tíma og hún þjálfar líkamann. Öll hreyfing sem krefst samhæfingar, er líka góð þjálfun fyrir heilann“.

Hér er verið að dansa Zumba – og þjálfa heilann!

Ekki of erfitt – en heldur ekki of létt

En hvað er til ráða þegar fólk er komið á efri ár og hentar ekki lengur hreyfingin í  líkamsræktarstöðvunum? Tanya segir að það eigi að skoða hvaða sérhæfðu námskeið séu í boði fyrir það. „Það er best að velja hreyfingu sem hentar manni og er bæði skemmtileg og gagnleg. Það er nauðsynlegt að þjálfa áfram þrek og þol og stunda styktaræfingar sem þjálfa vöðvana. Fólk verður auðvitað að taka mið af líkamsástandi sínu en til að ná árangri þarf að stunda reglulega hreyfingu að því marki að það taki á – en það má þó ekki vera of erfitt , en ekki heldur of létt. Ef það hentar fólki ekki að mæta í hóptíma, er mögulegt að bóka sig í einkaþjálfun og þá er hægt að sérsníða æfingar fyrir hvern og einn“, segir hún.

Að geta reimað skóna sína

„Það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig og betra er seint en aldrei. Fólk á efri árum ætti að halda áfram að hreyfa sig daglega til þess að missa ekki vöðvamassa og til að geta áfram gert hversdagslega hluti eins og að reima skóna sína, standa upp úr stólnum án þess að nota hendurnar og  geta gengið upp og niður tröppur til að halda góðu jafnvægisskyni. Það er líka vísindalega sannað að dansþjálfun virkar fyrirbyggjandi gegn Alzheimer, en það er málefni sem hefur snert mig persónulega þar sem amma mín lést aðeins 69 ára að aldri úr Alzheimer“, segir þessi lífsglaða kona að lokum.

 

Ritstjórn október 25, 2018 08:15