Líklegt að mjólkursykursóþol aukist með aldri

Mjólkursykursóþol er afar algengt í veröldinni, talið er að um 70% fólks í heiminum öllum sé með slíkt óþol. Það er algengast í löndum Afríku, Asíu og Suður-Ameríku, þar sem hlutfall fólks með mjólkuróþol er nálægt 100%, en á Vesturlöndum eru það aðeins um 10% sem þola ekki mjólkurvörur. Talið er að mjólkursykursóþol stafi af því að það vanti ensím í meltingarveginn, svokallaðan laktasa, sem brýtur mjólkursykurinn niður.  Afleiðingin er vindgangur, magaverkir og niðurgangur. Meðferðin við þessu er að takmarka eða forðast fæði sem inniheldur mjólkursykur, en það er mjólk og mjólkurvörur, ýmiss konar brauð og kökur, ýmsar unnar kjöt- og fiskvörur, ákveðnar tegundir af súkkulaði og sum lyf. Það er mikiilvægt að lesa vel innihaldslýsingarnar á þessum  vörum, til að ganga úr skugga um hvort þær innihalda laktósa eða ekki.

Á vefnum sykur.is segir að öll börn hafi mikla hæfileika til þess að brjóta niður mjólkursykurinn, sem betur fer, en þessi hæfileiki minnki með árunum. Hjá einstaklingum með mjólkursykursóþol sé þessi hæfileiki skertur. Mismunandi sé milli einstaklinga hversu mikil skerðingin er. Margir hafi eitthvert magn af ensíminu og þoli því smávegis af mjólkursykri á meðan aðra skorti ensímið alveg og þoli engan mjólkursykur.

Í grein á vefnum Futuremedicine.com er fjallað um  um mjólkuróþol meðal eldra fólks. Þar er því haldið fram að um 50% eldra fólks þjáist af mjólkuróþoli, þó einungis lítill hluti þess finni mikið fyrir því. Þetta stafi af því að líkaminn dragi úr framleiðslu laktasa ensímsins með aldrinum, ensímsins sem brýtur niður mjólkursykurinn.

„Það getur svo sannarlega verið að mjólkursykursóþol aukist með aldrinum“, segir Dr. Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur.  Hún segir jafnframt að það sé mjög mikilvægt fyrir eldra fólk að taka inn kalk, sérstaklega ef það dregur úr neyslu mjólkurvara. Hún segir samt um að gera að nota laktósafríar mjólkurvörur, en það sé orðið mikið um þær. Arna hafi byrjað að framleiðslu þeirra en svo hafi Mjólkursamsalan fylgt i kjölfarið.

 

Ritstjórn desember 9, 2020 07:39