Aldursfordómar mikið þjóðfélagsmein

Annar hver jarðarbúi kvað vera haldinn aldursfordómum, með neikvæðum afleiðingum fyrir líkamlega og andlega heilsu eldra fólks og milljarðakostnaði fyrir samfélög ríkja heims. Þetta er meðal helstu niðurstaðna skýrslu sem birt var á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, og fleiri stofnana Sameinuðu þjóðanna fyrr á árinu.

Í skýrslunni er hvatt til tafarlausra aðgerða til að stemma stigu við aldursfordómum og betri mælingum og gagnaöflun til að beina sjónum að því sem aldursfordómar eru – mikið samfélagsmein.

Aldursfordóma er að finna út um allt samfélagið og stofnanir þess, þar með taldar heilbrigðisstofnanir, á vinnustöðum, í fjölmiðlum og réttarkerfinu. Skömmtun heilbrigðisþjónustu á grunni aldurs eingöngu er mjög útbreidd. Bæði eldri og yngri hópar fullorðinna verða fyrir fordómum á vinnumarkaði, og aðgengi að sérhæfðri starfsþjálfun og menntun minnkar tilfinnanlega með aldri. Aldursfordómar gegn yngra fólki birtast líka víða, s.s. á vinnumarkaði, í heilbrigðis- og húsnæðismálum og stjórnmálum þar sem raddir yngra fólks eru oft léttvægar fundnar eða komast ekki að, segir í niðurstöðum skýrslunnar.

Aldursfordómar hafa alvarlegar og víðtækar afleiðingar fyrir heilsu fólks og velferð. Á meðal eldra fólks tengjast aldursfordómar verri líkamlegri og andlegri heilsu, aukinni félagslegri einangrun og einmanaleika, aukinni fjárhagslegri óvissu, minni lífsgæðum og ótíbærum dauða. Áætlað er að aldursfordómar séu orsakavaldur um 6,3 milljóna þunglyndistilfella árlega.

Aldursfordómar skaða alla

„Aldursfordómar skaða alla – unga sem aldna. En oft eru þeir svo útbreiddir og viðteknir – í viðhorfum okkar og stefnumálum, lögum og stofnunum – að við áttum okkur ekki einu sinni á hinum skaðlegu áhrifum þeirra á virðingu og réttindi fólks,“ sagði Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi SÞ. „Við verðum að berjast markvisst gegn aldursfordómum, þar sem þeir eru djúpstæð brot á mannréttindum.“

Allar þjóðir heims og hagsmunaaðilar eru hvattir til að móta og beita stefnu í þessum málum sem byggð sé á grunni vandaðrar gagnaöflunar og rannsóknum.  Líka til að vinna saman að því að mynda alþjóðlega hreyfingu til að breyta hugsun okkar, tilfinningum og hegðun gagnvart aldri og öldrun. Og síðast en ekki sízt að vinna að framgangi Áratugar SÞ um farsæla öldrun.

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar

Ritstjórn janúar 4, 2022 07:00