Græn eyja og gufustrókar

Nanna Rögnvaldardóttir rithöfundur skrifar. 

 

Já, þá er það Græna eyjan, Sao Miguel, nánar tiltekið stærsti bærinn þar, Ponta Delgada, miðstöð stjórnsýslu Azoreyja og eini bærinn á eyjunum sem hefur yfir sér einhvern borgarbrag, þótt íbúarnir séu ekki nema tæplega sjötíu þúsund. Hér eru háhýsi og stórir hótelkassar niðri við höfnina og þar eru byggingarkranar því að verið er að byggja fleiri stórhýsi.

Hér blandast saman nýtt og gamalt.

En þar rétt hjá er líka gamli miðbærinn, sem er einstaklega fallegur, með bæði breiðum og mjóum göngugötum og torgum, lögðum með mynstruðum steinhellum; þar eru kaffihús og veitingahús, litlar verslanir, kirkjur og minnismerki og þar iðar allt af lífi, að minnsta kosti þegar veðrið er gott og ekki rignir. Og veðrið er búið að vera nokkuð gott þá daga sem ég hef verið hér, hvað sem verður seinni hluta dvalarinnar. Þetta eru nú einu sinni Azoreyjar og þar rignir vissulega ansi oft, ekki síst á veturna.

En það er ekki kalt, ekki á íslenskan mælikvarða. Ég er ekki viss um að hitinn hafi farið niður fyrir 12°C á neinni eyjanna sem ég hef verið á, hvorki á nóttu né degi, en reyndar heldur ekki upp fyrir 18°C. Venjulega er hann á bilinu 14-17°C, sem Íslendingnum finnst nú nokkuð notalegt.

Ég kom hingað með flugi frá Horta mánudaginn 12. janúar í alveg ágætis veður og er hér í afskaplega góðri íbúð rétt við miðbæinn. 80 fermetrar, stórar suðursvalir sem ég er búin að nota töluvert af því að veðrið hefur boðið upp á það, eldhús með öllum þægindum (þvottavél, uppþvottavél, gaseldavél, örbylgjuofn, nefndu það bara …) og að öllu leyti bara lúxus. Og fyrir þetta er ég að borga 8900 krónur á dag.

Ananas á bændamarkaðnum. Ótrúlega bragðgóður, sætur og safaríkur.

Rétt hjá mér er stór, yfirbyggður bændamarkaður með miklu úrvali af alls konar ótrúlega fersku og góðu grænmeti og ávöxtum, þar á meðal ananas sem er ræktaður hér á eyjunni og er hreint dásamlegur; ávextirnir eru fremur litlir og einstaklega sætir og bragðgóðir. Svo eru líka bananar, sem vaxa mjög víða bæði hér á Sao Miguel og á flestum hinna eyjanna líka. Þið skulið aldrei trúa túristabæklingum eða öðrum sem reyna að segja ykkur að Ísland sé mesti bananaframleiðandi Evrópu af því að bananar eru ræktaðir í gróðurhúsi í Hveragerði. Það er mikið ræktað af banönum bæði hér og á Madeira. Og þeir eru mjög góðir.

Bananaklasi – þessi óx reyndar í Madalena á Pico. Flestir klasarnir sem ég hef séð hér eru pakkaðir inn í blátt plast þar sem þeir hanga á trjánum til að þeir þroskist betur.

Af því að ég er hér í miðbænum og drjúgur spölur út í sveit eða upp á næstu eldfjöll hef ég haldið mig við að ganga hér um nágrennið, um miðbæinn, meðfram höfninni og svona – jú, og svo gekk ég í mallið, það er nefnilega verslunarmiðstöð í göngufjarlægð héðan, Parque Atlántico; ég fór þangað af því að mig vantaði sundbol, gleymdi mínum heima og það er planið að fara í heita laug hér í næstu viku, áður en ég yfirgef eyjarnar.

En á miðvikudaginn fór ég svo í dagsferð með leiðsögumanni. Við vorum bara tvö, ég og roskinn Kanadamaður af portúgölskum ættum. Hann sagðist vera vanur að fara til Florida á veturna en nú dytti sér það ekki í hug út af Trump. Leiðsögumaðurinn var ungur og hress og þetta voru fínir ferðafélagar. Við fórum um austurhluta eyjarinnar – ég hafði reyndar pantað ferð um vesturhlutann því að ég er svo að fara aftur austur á bóginn eftir helgi – en það hafði enginn annar pantað ferð um vesturhlutann þennan dag og ferðaskrifstofan fer ekki með bara einn farþega (já, það getur svo sem verið einn gallinn við að vera ein á ferð) svo að ég ákvað að slá til og fara í austurför. Og sá svosem ekki eftir því, þetta var mjög skemmtilegt. Og veðrið var ágætt; nokkrir litlir rigningarskúrir (í karlkyni, ég er að norðan) og þoka á fjallstoppum sem greiddist þó úr á milli.

Tröppur upp að kapellu á fjallinu fyrir ofan Vila Franca do Campo.

Við spjölluðum mikið saman í ferðinni og leiðsögumaðurinn þreyttist ekki á að segja okkur hvað Evrópusambandið hefði gert mikið fyrir eyjarnar; benti okkur á hina og þessa vegi og brýr og fleira sem sambandið hafði styrkt. Svona rétt eins og öll jarðgöngin á Madeira. Þá kom upp úr dúrnum að Kanadamaðurinn var mikill Evrópusinni líka, einn þeirra sem vilja að Kanada gangi í Evrópusambandið. Mér leist vel á það.

Við byrjuðum á að aka upp á fjall og horfa yfir bæinn Vila Franca do Campo, sem var fyrsti höfuðstaður Sao Miguel, stofnaður á 15. öld. Árið 1522 bjuggu þar um 5000 manns og þetta var langstærsta þéttbýli á eyjunum. En þá reið yfir mikill jarðskjálfti og kom af stað gífurlegri aurskriðu (það höfðu verið miklar rigningar dagana á undan). Þetta var um miðja nótt, nánast hvert hús fór á kaf í skriðuna og flestir íbúar dóu. Ponta Delgada var gerð að höfuðstað en Vila Franca byggðist aftur smám saman og varð miðstöð appelsínu- og ananasræktar.

Gufan rís beint upp úr trjágróðrinum.

Næsti áfangastaður, þorpið Furnas, er ofan í risastórum eldgíg, eða raunar eru þetta tveir samvaxnir gígar. Þarna gaus síðast árið 1630 en frjósemin er mikil og gígurinn er algrænn frá botni til hárra barmanna. Þarna er stöðuvatn og svo margir hverir og heitar lindir, ekki síst í þorpinu sjálfu, sem byggir allmikinn ferðamannaiðnað á jarðhitanum. Þorpið er þó að flestu leyti ólíkt Hveragerði og það er gaman að sjá muninn. Við gengum þarna um, skoðuðum hveri og heita læki, ótrúlega fallega garða og fengum að smakka ölkelduvatn úr mismunandi lindum, og borðuðum svo á veitingahúsi rétt (blöndu af ýmsum kjöttegundum og grænmeti) sem var eldaður yfir nótt í hverahita.

Skrúðgarður ofan í eldgíg.

Ég fer svo aftur til Furnas í næstu viku og gisti þá á hóteli sem er umlukið frægum garði með heitum tjörnum og leirpollum. Segi væntanlega frá því seinna.

Við ókum svo upp á gígbrúnina til að njóta útsýnis yfir gíginn/gígana. Það gekk misjafnlega því að þokan ýmist byrgði sýn niður eftir eða henni létti svo að við sáum þvert yfir gíginn og allan gróðurinn. Þaðan var svo ekið til Ribeira dos Calderoes, sem er hreint ótrúlega fallegt svæði ofan í gili eða dalklofa, með fossum, lækjum, gömlum steinhúsum, vatnsmyllum og fleiru – allt umlukið afar gróskumiklum trjám og alls konar grænum jurtum sem við Íslendingar þekkjum margar hverjar helst sem pottablóm. Ég hefði alveg getað eytt mun lengri tíma þar.

Gömul mylluhús og fleira í Ribeira dos Calderoes.

Við ókum svo um norðurströndina og forum á nokkra útsýnisstaði; gengum meðal annars upp á hæð þar sem var bæði pínulítil kapella og turn eða skýli sem eitt sinn var notaður til að svipast um eftir hvölum í sjónum. Þegar hvalur sást var kveiktur eldur og hvalveiðibátunum beint að bráðinni. Við sáum líka teplantekrur og fleiri áhugaverða staði.

Héðan var skyggnst eftir hvölum.

Það sem mér er þó minnisstæðast er allur gróðurinn og nú skil ég af hverju Sao Miguel kallast græna eyjan – jafnvel þótt sumar hinna séu býsna grænar líka. Nú er hávetur en ég veit að í vor og sumar bætast miklu fleiri litir við þann græna því að þá koma öll blómin. Ég er eiginlega farin að sjá að ég verð að koma í aðra ferð seinna …

Ég mun þá líka eiga eftir að heimsækja fjórar af eyjunum níu. Ég er núna á þeirri fjórðu en þegar þetta birtist verð ég væntanlega komin til þeirrar fimmtu – ég ætla að skreppa til Sao Jorge og vera þar í tvær nætur. Kem svo aftur hingað til Sao Miguel.