Guðmundur Bjarnason fyrrverandi ráðherra og alþingismaður

Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, var áberandi í íslenskri pólitík seint á síðustu öld, en um aldamótin söðlaði hann um, hætti beinum afskiptum af stjórnmálum og varð framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs í 11 ár, eða til ársins 2010. Þá var hann orðinn 66 ára. „Síðustu tvö árin eftir  hrun tóku á og þar sem ég var kominn með góð eftirlaunaréttindi ákvað ég að þarna væri nóg komið“, segir hann og segist hafa verið mjög sáttur við að hætta, enda hafi það algerlega verið hans eigin ákvörðun. Eiginkona Guðmundar er Vigdís Gunnarsdóttir. En hvað hefur Guðmundur haft fyrir stafni síðan hann fór á eftirlaun?

„Fyrstu árin vorum við hjónin nokkuð dugleg að ferðast, erum lítið fyrir það að liggja á strönd í sólbaði. Fórum árlega í gönguferðir bæði innan lands og utan, oftast í Alpana, og svo fórum við á skíði til Ítalíu eða Austurríkis á hverjum vetri allt til ársins 2017. Seinni árin tókum við okkur íbúð á leigu í Wagrain í Austurríki og vorum þar jafnvel nokkrar vikur í einu, mest í fimm vikur. Þá er maður afslappaður og nýtur þess þó það sé hríð eða dimmviðri einn og einn dag og er ekkert að streða við að fara í brekkurnar á hverjum degi, hvernig sem viðrar. Þetta var góður tími,“ rifjar hann upp.

Guðmundur hefur átt sæti í fulltrúaráði Sólheima í Grímsnesi og segist hafa notið þess. „Ég fékk áhuga á starfinu þar þegar ég var umhverfisráðherra, það er að segja sjálfbærninni sem þar er í hávegum höfð og öllu því góða og mannbætandi starfi sem þar er unnið,“ segir hann. „Nokkur ár hef ég síðan verið formaður stjórnar húsfélagsins þar sem ég bý og þar er alltaf eitthvað að fást við. En mestu af frítímanum höfum við hjónin varið í sumarbústað sem við eigum í Grímsnesinu, þar er alltaf nóg að fást við, það þekkja þeir sem velja sér slíkan lífsmáta. Fyrstu árin þar gróðursettum við talsvert og hefur umhverfið tekið algjörum stakkaskiptum á 20 árum. Og þar sem við erum bæði Húsvíkingar og eigum þar bæði vini og ættmenni, tókum við þá ákvörðun í samráði við dætur okkar þrjár og fjölskyldur þeirra að koma okkur upp aðstöðu fyrir norðan til að halda við þessum tengslum. Við reistum okkur því einnig sumarhús norður í Aðaldal fyrir nokkrum árum og er það mikill unaðsreitur sem er vel nýttur af stórfjölskyldunni. Það er hvergi fallegra en í „Aðaldalnum“,“ segir Guðmundur.

Covid hefur ekki haft áhrif á líf Guðmundar og Vigdísar umfram það sem gengur og gerist í þjóðfélaginu á þessum ótrúlegu tímum, enda eru þau ekki lengur beinir þátttakendur í atvinnulífinu. „Við hjón höfum sloppið við veiruna en vorum líka mánuðum saman á síðasta ári í sjálfskipaðri sóttkví í Grímsnesinu.“

Guðmundur naut þátttöku í pólitíkinni árum saman. „Fyrir fólk sem er félagslega sinnað, hefur gaman af mannlegum samskiptum, áhuga á að taka þátt í uppbyggingu þjóðfélagsins og vill reyna að láta gott af sér leiða, er pólitíkin kjörinn vettvangur. En 20 ár þar, fimm kjörtímabil, er líka meira en góður tími. Ég ákvað sjálfur að komið væri nóg og sakna þess svo sem ekki. Held líka að stjórnmálin hafi breyst talsvert síðan og umhverfið, til dæmis nútíma fjölmiðlaumfjöllun og samfélagsmiðlar, hafi breytt pólitíkinni mikið og ekki endilega allt til góðs,“ segir hann.

En hvað finnst honum um Framsóknarflokkinn í dag? „Allt tekur breytingum, og á að gera það, ekki síst stjórnmálin. Þau þurfa að fylgja breytingum í þjóðfélaginu þó stefna og meginmarkmið séu áfram hin sömu eða lítt breytt. Ég hef ekki tekið mikinn þátt í stjórnmálunum undanfarin ár, taldi það ekki viðeigandi meðan ég var framkvæmdastjóri opinberrar stofnunar, en er mjög sáttur við flokkinn minn í dag og forystufólkið. Tel núverandi ríkisstjórn hafa að mestu staðið sig vel og ekki síst ráðherrar Framsóknarflokksins, er ánægður með þá og tel þá eiga fullt erindi í stjórnmálin áfram. Og nú er ég sjálfur kominn í framboð aftur — að vísu ekki í baráttusæti — en er tilbúinn til að leggja lið eftir því sem ég get,“ segir hann. Guðmundur er í 21. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík norður í þessum kosningum.

Síðastliðið vor fóru þau hjónin í „endurhæfingu“ í Hveragerði og hittu þar fyrir tvo fyrrverandi ráðherra, þau Sigrúnu Magnúsdóttur og Jón Bjarnason. Þau voru ekki samtímis í ríkisstjórn, en Guðmundur og Sigrún hafa þekkst lengi og starfað saman í Framsóknarflokknum. Jón var aftur á móti skólastjóri á Hólum þegar Guðmundur var landbúnaðarráðherra. Þannig að þeir eru góðir kunningjar. „Við spjölluðum að sjálfsögðu talsvert um pólitíkina eins og við mátti búast. En svo þótti sjálfsagt að reyna að nýta okkur eitthvað og dubba okkur upp sem „skemmtikrafta“. Enda hafa sumir fyrrverandi stjórnmálamenn talsvert reynt fyrir sér á því sviði með góðum árangri. Ég held að þetta kvöld hafi bara tekist nokkuð vel og þeir sem á hlýddu hafi notið stundarinnar, á þó ekki von á að þessi atburður verði endurtekinn eða að eftirspurn eftir okkur sem skemmtikröftum verði óviðráðanleg,“ segir Guðmundur og hlær. „Þarna voru bæði rifjaðar upp eftirminnilegar stundir úr þinginu, af framboðsfundum og úr leik og starfi, og svo reyndum við einnig að rifja upp eitthvað af „afrekum“ okkar, en það verður ekki gert hér.“

Ritstjórn ágúst 11, 2021 07:09