Ríkið hefur framfærsluskyldu

Lifðu núna ákvað að fá nefndarmenn velferðarnefndar alþingis til að svara fjórum spurningum um skerðingarnar og málssókn Gráa hersins. Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins í norðvesturkjördæmi og fulltrúi flokksins í velferðarnefnd svarar hér spurningunum. Svör nefndarmanna birtast í stafrófsröð og áður hefur verið rætt við Önnu Kolbrúnu Árnadóttur Miðflokki og Ásmund Friðriksson Sjálfstæðisflokki.

Hvað finnst þér um skerðingar á ellilífeyri í almannatryggingakerfinu og málssókn Gráa hersins?

Eins og segir í 1. gr. almannatryggingalaga tekur ellilífeyri til þeirra sem þurfa bætur og markmið laganna er að tryggja framfærslu til að fólk geti framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lifi. Þetta er eitt af grunngildum okkar í velferðarkerfinu og viðurkenning á því að ríkið hafi framfærsluskyldu gagnvart okkar fólki.

Skerðingar á ellilífeyri hjá þeim sem hafa aðrar tekjur eða framfærslu eru því ekki óeðlilegar en okkur getur greint á um hvernig þeim er beitt og hvað þær eigi að vera miklar. Málsókn Gráa hersins leiðir væntanlega til niðurstöðu sem verður okkur tækifæri og efni til að vinna með í þeirri endurskoðun sem alltaf er í gangi með almannatryggingakerfið okkar.

Finnst þér eðlilegt að tekjur eldri borgara hækki einu sinni á ári og þá í samræmi við neysluvísitölu en ekki launavísitölu einsog staðreyndin er?

Persónulega er ég á þeirri skoðun að það þurfi að hækka grunnframfærslu ellilauna.

Ert þú þeirrar skoðunar að það eigi að afnema skerðingarnar?

Ég vísa í svörin við fyrstu spurningunni hér að ofan.

Hvað með skerðingar vegna atvinnutekna?

Skerðingar vegna atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum eru núna 100.000,- krónur á mánuði eða 1.200.000,-á ári en atvinnutekjur umfram það mark skerða ellilífeyrir um 45%. En almennt frítekjumark er 25.000,-.

Það var með fyrstu verkum þessarar ríkistjórnar að frítekjumörk atvinnutekna aldraða  voru hækkaðar upp í 100.000 á mánuði auk þess sem gjaldskrár vegna tannlækninga aldraða var uppfærð til að lækka kostnað þeirra. Kostnaðarmark við heilbrigðisþjónustu hefur einnig hefur verið unnið að því að lækka greiðsluþáttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og munar það miklu fyrir þá sem nota það mikið. En almannatryggingakerfið hefur verið í endurskoðun og er því verki ekki lokið. Það er nauðsynlegt og þarf reglulega að fara í gegnum það til þess að á hverjum tíma sé það að tryggja það markmið og takmark að tryggja framfærslu aldraðra í þjóðfélaginu.

Til upprifjunar. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði LEB.

Þegar tekjur þeirra sem hafa ellilífeyri frá Tryggingastofnun eru bornar saman við lágmarkslaun, kemur fram að tekjur þeirra hafa á síðustu þremur árum lækkað um fimm prósent sem hlutfall af lágmarkslaunum. Laun þeirra allra lægstu hjá TR hafa lækkað enn meira eða um 6,7 prósent og voru heildartekjur þeirra 11,8 prósent undir lágmarkslaunum. Með breytingum á almannatryggingalögum 2017 tókst að bæta kjör eldri borgara en ekkert framhald hefur orðið síðan þá.

Ef ellilífeyrir er borinn saman við launaþróun þá kemur í ljós að vísitala neysluverðs hækkaði aðeins um 32,7% á meðan launavísitalan hækkaði um 91%. Ellilífeyrir án heimilisuppbótar samanborið við heildarlaun á vinnumarkaði hækkaði um 58% 2010-2019 en heildarlaun á vinnumarkaði hækkuðu um 71% og lágmarkslaun um 92%. Þingfararkaup hækkaði á þessu tímabili um 112%. Það kemur því berlega í ljós að eldri borgarar sitja eftir.

Grái herinn hefur ákveðið að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort það samræmist stjórnarskrá að skerða lögbundin eftirlaun frá almannatryggingum. Þrír einstaklingar höfða málið gegn skerðingunum fyrir hönd Gráa hersins og hefur það egar verið þingfest. Málið er einkum reist á þeim forsendum að skerðingarnar stangist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ákvæði um mismunun.

Ritstjórn ágúst 25, 2020 05:16