„Hættu að gráta svona“

Skáldsagan Í landi annarra er áhrifamikil saga eftir Leilu Slimani sem ólst upp í Marokkó en býr í Frkklandi. Þetta er fyrsta bókin í þríleik sem er byggður á ættarsögu höfundarins, en þýðandi bókarinnar er Friðrik Rafnsson.   Í landi annarra, segir frá ungri franskri konu Mathilde, sem fellur fyrir myndarlegum liðsforingja frá Marokkó í lok síðari heimsstyrjaldarinnar og flytur með honum til heimalands hans. Þar þarf hún að takast á við framandi samfélag í hrjóstrugu landi og ungu hjónin mæta erfiðleikum og fordómum. Við grípum niður í bókina þar sem þau eru að hefja búskap sinn í Marokkó.

Amin hugsað ekki um annað en búskapinn og vinnuna. Aldrei um að hlæja, dansa, gera ekki neitt í smástund, tala. Þau töluðu ekki saman hérna. Maðurinn var jafn strangur og kvekari. Hann ávarpaði hana eins og hún væri smástelpa sem þyrfti að uppfræða. Hún lærði góða siði um leið og Aisha og hún átti að kinka kolli þegar Anmin útskýrði „Svona er ekki gert“ eða „Við höfum ekki efni á þessu“. Þegar hún kom til Marokkó leit hún enn út eins og smástelpa. Hún þurfi á nokkrum mánuðum að læra að þola einsemdina og að vera heimavinnandi, láta sig hafa harðneskju manns og framandi land. Hún hafði flutt út úr húsi föður síns og inn í hús mannsins síns, en fannst hún samt hvorki vera sjálfstæðari eða hafa meira vald en áður. Það var varla að hún fengi einu sinni að ráða yfir Tamo, ungu þernunni. En Ito, móðir hennar, fylgdist með henni og Mathilde þorði aldrei að byrsta sig fyrir framan hana. Hún kunni heldur ekki að vera þolinmóð og leiðbeinandi við barnið sitt. Hún sveiflaðist á svipstundu úr mestu gælum yfir í algera móðursýki. Stundum horfði hún á dóttur sína og fannst þá móðurhlutverkið vera hroðalegt, grimmilegt og ómanneskjulegt. Hvernig gat stúlkubarn eins og hún alið upp önnur stúlkubörn? Hinn ungi líkami hennar hafði verið rifinn í sundur og út úr honum hafði verið dregið saklaust fórnarlamb sem hún kunni ekki að verja.

Þegar Amin giftist Mathilde var hún rétt innan við tvígugt og hann hafði engar áhyggjur af því á þeim tíma. Honum fannst það jafnvel enn meira heillandi að konan hans væri svona ung, úr stórum augum hennar skein undrun og hrifning yfir öllu, rödd hennar var enn brothætt, tunga hennar volg og mjúk eins og í smástelpu. Hann var tuttugu og átta ára, sem þýddi að hann var ekkkert mikið eldri en hún, en seinna varð hann að viðurkenna að aldurinn hafði ekkert að gera með þau óþægindi sem konan hans olli honum stundum. Hann var karlmaður og hann hafði barist í stríði. Hann var frá landi þar sem guð og heiður renna saman í eitt og auk þess var faðir hans dáinn en það þýddi að hann varð að vera nokkuð alvarlegur. Það sem honum fannst heillandi þegar hann var enn í Evrópu fór að íþyngja honum og loks að fara í taugarnar á honum. Mathilde var kenjótt og frjálsleg. Amin lá henni á hálsi fyrir að  geta ekki verið hjarðari af sér, vera ekki með þykkari skráp. Hann hafði engan tíma, enga hæfileika til að hugga hana. Tár hennar! Hversu mörg tár hafði hún ekki fellt frá því hún kom til Marokkó! Hún fór að gráta af minnsta tilefni, hún brast stöðugt í grát og hann átti erfitt með að þola það. „Hættu að gráta svona. Móðir mín sem hefur misst börn, sem varð ekkja um fertugt hefur grátið minna á ævinni en þú síðustu vikuna. Hættu þessu, hættu þessu!“. Hann hugsaði með sér að evrópskar konur hefðu tilhneigingu til að neita að horfast í augu við raunveruleikann.

Ritstjórn júní 16, 2022 16:30