Paradís hippanna frá sjónarhóli Marókkóbúa

Nú er komið út annað bindið í þrileik Leïlu Slimani  um fjölskyldu sína. Amma hennar, Anne Dhobb er fyrirmynd, Mathilde Belhaj, franskar konu sem giftist marrakóskum manni í seinni heimstyrjöld og flytur með honum á bóndabæ hans í Marokkó að stríði loknu. Sjáið okkur dansa heitir nýja bókin en  Í landi annarra, sú fyrri.  Þar er sagt frá fyrstu kynnum Amin og Mathilde, samskiptum hans við systur sína, Selmu og bróður sinn Omar, baráttunni við fátæktina og uppbygginu bóndabæjarins. En með dugnaði og hörku hefur Amin náð að gera búskapinn arðbæran og nú ætti að vera kominn tími uppskerunnar í mörgum skilningi en svo er ekki eins og við komumst að í þessari nýju bók.

Sjáið okkur dansa, hefst árið 1968, Marokkó er orðið sjálfstætt ríki með eigin kóng Hassan II. Hann virðist hliðhollur bændum, einkum þeim sem vel gengur og Amin hengir upp mynd af honum á skrifstofu sinni. Aisha, dóttir hans er í læknanámi og Selim, sonurinn, að klára stúdentspróf. Amin byggir sundlaug til þess að ganga í augun á dóttur sinni, sýna henni hversu vel honum hefur gengið. En ekkert fer eins og hann væntir og enginn reynist sú persóna sem hann ætlar að hún sé. Amin bregst við á þann eina hátt sem hann kann, með ofbeldi og yfirgangi. Tilraunir hins stjórnsama fjölskylduföður til að móta alla í þeirri mynd sem hann hefur skapað þeim í huganum og hans tilburðir í þá átt endurspeglast í valdabrölti kóngsins og báðum mistekst hrapllega að koma áformum sínum í framkvæmd.

Hér er tekið á stórum málum, viðleitni innflytjandans til að koma sér fyrir, finna hlutverk og passa inn í samfélagið. Mótun annarrar kynslóðar frá innflytjandanum og því hvernig þau börn eru alltaf ofurlítið á skjön við ríkjandi viðhorf, útlit og skipan samfélagsins. Unga fólkið í fjölskyldunni, Selim og Aisha, reikul og í leit að sjálfi. Þau vita hvorugt hvað þau vilja, hafa látið leiðast fram að þessu en þurfa að taka afstöðu til stórra mála og á endanum ákveða hvað þau vilja.

Litlar byltingar

Mathilde er óskaplega áhugaverð persóna. Sterk kona, greind og hæfileikarík en þarf að beygja sig undir kúgun samfélagsins sem hún hefur flust til þótt hún geri einnig uppreisn á sinn hátt og nái að skapa sér vettvang. Hjónaband hennar er ekki gott. Eiginmaðurinn heldur stöðugt framhjá og ber litla virðingu fyrir konu sinni. Hún nær heldur ekki fyllilega sambandi við börn sín. Finnst dóttirin komin mun lengra en hún sjálf og sonurinn fjarlægur. Hún veltir fyrir sér hvort hún hafi sóað lífi sínu í umhyggju fyrir fólki sem ekki kann að meta hana.

Aisha og Selim dragast hins vegar hvort á sinn hátt inn í uppreisnaranda hippaáranna, enda Marokkó um tíma fyrirheitna landið hjá ungu frelsiselskandi fólki frá Vesturlöndum. Selim endar í Essaouira innan um hassreykjandi hippa að neyta hugbreytandi efna. Marokkó var á þessum árum paradís hippanna. Ungir menn á flótta undan herskyldu í Bandaríkjunum og Evrópubúar í mussum og sandölum í leit að hassi og frelsi flæddu yfir þetta nýfrjálsa land. Ekki allir Marokkóbúar kunnu að meta gestina og ekki alveg víst að skilningur hafi ríkt milli menningarheimanna tveggja. Þetta er frábærlega vel skrifuð bók og þótt hoppað sé frá einum fjölskyldumeðlim til annars og sagan sögð frá þeirra sjónarhóli nær Leïla að draga upp heildstæða og áhugaverða mynd af fjölskyldu og landi í ímyndarkreppu, fólki í leit að sjálfi og tilgangi og stjórnvöldum sem vita ekki hvernig á að ríkja, ráða og byggja upp þjóðfélag. Það verður spennandi að sjá hvernig sagan endar þegar þriðja bókin kemur.

Ritstjórn maí 10, 2023 07:00