Hafði viðurnefnið refurinn en hét í raun Óttar Karlsson

 

Sykur. Katrtín Júlíusdóttir

Halldóra Sigurdórsdóttir segir frá jólabókunum

Í fjörunni austan við Stokkseyri finnst lík af berfættum manni sem lá á bakinu við fjöruorðið klæddur vönduðum fötum – jakkinn lá þó samanbrotinn ofar í fjörunni. Lögreglan ber strax kennsl á þann látna en þetta er þekktur og virtur embættismaður sem hefur viðurnefnið refurinn en hét í raun Óttar Karlsson.

Lögreglan stendur ráðþrota en það er svo fyrir tilstilli ungrar lögreglukonu, Sigurdísar, sem rannsókn málsins tekst á flug og vísbendingarnar byrja að hrannast upp. Rannsóknin er flókin og erfið en á sama tíma og Sigurdís tekst á við flókið morðmál þarf hún að takast á við erfiðleika sem tengjast erfiðri og brotinni æsku. Snemma í rannsókninni finnur Sigurdís öryggishólf í íbúð hins myrta sem bendir til þess að embættismaðurinn í fjármálaráðuneytinu hafi kannski ekki verið allur sem hann var séður. Mál eins og viðskipti í aflandsfélögum og greiðslur til Bandaríkjanna koma við sögu.

Sykur er fyrsta bók Katrínar Júlíusdóttur, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, og hlaut hún spennusagnaverðlaunin Svartfuglinn fyrir hana. Dómnefndin hrósaði ekki bara texta Katrínar heldur sagði auk þess að hún næði að draga upp mynd af sérlega trúverðugum persónum sem standa andspænis skelfilegum glæpum.

Sykur er góð bók og grípandi strax frá fyrstu síðu. Fléttan er vel uppbyggð en höfundur nær að viðhalda spennu strax frá upphafi og allt til enda bókarinnar með því að koma stöðugt með nýjar vísbendingar sem benda í fjölda átta. Samhliða spennusögunni er fjölskyldusaga Sigurdísar sögð, sú saga er átakanleg en umfjöllunarefnið er þarft og á vel heima hér og nú. Persónusköpun bókarinnar er góð og endalokin óvænt og setja söguna í nýtt samhengi sem óneitanlega er aðall góðrar spennusögu.

Hér á eftir fer upphaf fyrsta kafla bókarinnar:

HÖFUÐIÐ Á MÉR ER AÐ springa og líkaminn svo þungur að ég get ekki lyft fingri. Ætli það sé vegna bleytunnar? Öldurnar gusast yfir mig. Saltið svíður. Hnakkinn hvílir á sléttu köldu grjóti. Ég finn varla fyrir líkamanum, hann er allur að dofna upp. Vonandi fer einhver að koma, ég virðist ekki ráða við þetta sjálfur. Get ekki staðið upp. Ég veit ekki hversu lengi ég hef verið hérna. Finnst það vera heil eilífð en kannski er það ekki nema korter. Er ég búinn að vera vakandi allan tímann? Líklega á ég þetta skilið. Hef ekki alltaf verið almennilegur við náunga minn þó vel hafi gengið í lífinu. Mamma! Hún hlýtur að fara að hringja. Hún var vön að tékka á mér fyrir svefninn. Hún hefur alltaf áhyggjur af mér. Af gömlum vana líklega. Stundum er ég ekki viss um hvort hún er að vernda mig fyrir heiminum eða heiminn fyrir mér.

Í niðurlagi kaflans segir:

Hitinn í hnakkanum hlýtur að vera bólga. Nema þetta sé blóð. Höggið var svo þungt. Alveg firnaþungt. Svo komu spörkin. Hvað voru þau eiginlega mörg? Ég verð að komast héðan og laga þetta. Ég hef oft kallað fram reiði annarra. En aldrei svona. Þessi reiði var yfirnáttúruleg. Hatursfull.

Mér finnst birtan á himninum minnka. Hún minnkar ekki vegna þess að það dragi úr sólinni heldur lífinu. Mínu lífi.

Ritstjórn nóvember 26, 2020 08:06