Halldóra Sigurdórsdóttir fjallar um jólabækurnar
Skáldsagan Ein eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur er samtímasaga sem fjallar um einmanaleikann á tímum kórónaveirunnar. Hún gerist föstudaginn langa árið 2020 í blokk fyrir eldriborgara við Aflagranda í Reykjavík. Frásögnin teygir þó anga sína víðar eins og til Ísafjarðar og vestur um haf til New York.
Sagan fjallar um þrjár ólíkar persónur sem tengjast á sinn hátt. Í miðju sögunnar er Sólrún, stjórnmálafræðinemi við HÍ, sem starfar í heimaþjónustu fyrir eldri borgara samhliða námi. Þegar hún mætir til vinnu sinnar föstudaginn langa og kemur inn í íbúð 903 við Aflagranda blasir við henni ófögur sjón. Skjólstæðingur hennar, Elísa Hansen, er látin í baðkarinu. Einhverra hluta vegna heldur hún að hún gæti átt sök á skelfilegri atburðarás sem hefur leitt til dauða Elísu.
Auk Elísu sinnir Sólrún hjónum í íbúð 803 í sömu blokk, þeim Friðriki og Heiðu. Í upphafi sögunnar rennur upp fyrir Friðriki að bíllyklunum hans og veskinu hefur verið stolið.
Á sama tíma í New York berst ungur íslenskur læknir, Klara, við að bjarga fórnarlömbum Covid-19 faraldursins en í borginni ríkir ótti við þennan vágest. Hún er einkadóttir Elísu en lesandinn fær að skyggnast í fortíð Klöru og fjölskyldu hennar sem er einkar áhugaverð.
Skáldsagan Ein er spennandi raunsæissaga sem fjallar um einsemd sem er meinsemd í þjóðfélaginu sem verður afar sýnileg í ástandi eins og Covid. Einsemdin virðist því miður vera böl sem fylgir oft á tíðum nútíma þjóðfélagi og virðist vera vaxandi vandamál
Ein er spennandi og vel skrifuð skáldsaga. Ekkert er eins og það sýnist í upphafi og endir sögunnar óvæntur. Einmanaleiki manneskjunnar er í forgrunni en allar persónur sögunnar glíma við einmannaleika í einni eða annarri mynd og afleiðingin er oft á tímum ömurleg.
Hér á eftir eru þrjú brot úr bókinni Ein.
Sólrún
ÍBÚÐ 903
Sólrún var andstutt og átti erfitt með að kyngja. Skjálfhent reif hún af sér ljósbláu andlistgrímuna sem hún hafði hnýtt vandlega yfir vitin áður en hún gekk inn í íbúðina nokkrum mínútum fyrr.
Örmagna lét hún sig falla niður í La-Z-Boy-stólinn í stofunni. Áklæðið, sem einhver tímann hafði verið dökkbrúnt ullarefni, var orðið svo slitið að inn á milli sást í tættan svamp sem var farinn að gulna og molnaði auðveldlega þegar hún neri hann taugaóstyrk með rökum fingrunum.
Gamla konan hefði aldrei samþykkt að Sólrún sæti í stólnum svona rennandi blaut. En það skipti varla máli núna.
Elísa var dáin.
Á því lék enginn vafi.
Sólrún var tæplega með sjálfri sér en vissi að hún þyrfti að tilkynna strax um andlátið. Hjartað hamaðist, hún fann sláttinn í gagnauganu og hallaði sér aftur í djúpum hægindastólnum.
——–
Friðrik
ÍBÚÐ 803
Veskið var horfið.
Bíllyklarnir líka.
Ekki aftur, hugsaði hann. Átti bágt með að trúa því að þetta hefði gerst enn einu sinni. Vonsvikinn settist hann við borðstofuborðið.
Fyrir framan hann var gamalt blikkbox utan af tveggja hæða Nóa-Síríus-konfektkassa sem hann hafði fengið í jólagjöf frá útgerðinni einhvern tímann á áttunda áratugnum. Umbúðirnar voru eigulegar, þetta box hafði nýst honum undir þær ljósmyndir sem hann hafði sérstakt dálæti á og var orðið löngu yfirfullt. Fyrr um daginn hafði hann sett allar myndirnar á borðið með það að markmiði að grisja þær og raða dýrmætustu minningunum í myndaalbúm fyrir krakkana. Hann hafði ætlað að skjótast út á Eiðistorg til að kaupa það en komst nú hvorki lönd né strönd án bíllyklanna og veskisins.
——–
Klara
NEW YORK
Næturvaktinni á spítalanum átti að ljúka um klukkan átta en Klara festist í verkefnum fram yfir hádegi líkt og ítrekað hafði gerst að undanförnu. Enn hafði hún ekki hringt í móður sína eins og hún gerði nánast daglega, oftast snemma morguns þegar hádegi var á Íslandi. Hún hafði ekki heldur hringt í gær. Ætlaði að bæta úr því en fyrst varð hún að íhuga vandlega atburði næturinnar. Einhvern veginn var allt breytt.