Hefði viljað vernda landið en ekki selja

Konan sem elskaði fossinn.

Halldóra Sigurdórsdóttir fjallar um bækur

Konan sem elskaði fossinn er söguleg skáldsaga eftir Eyrúnu Ingadóttur sagnfræðing sem hefur rannsakað ævi og baráttu Sigríðar í Brattholti um árabil. Sigríður er einn kunnasti náttúruverndarsinni Íslands og manneskja sem er virt og dáð í dag fyrir að hafa barist fyrir Gullfossi, fossi sem er ein af ómetanlegu náttúruperlum landsins. Líklega er enginn Íslendingur á lífi sem hefði viljað að þessi gersemi hefði verið seldur og virkjaður eins og allar áætlanir stóðu til.

Saga Sigríðar í Brattholti (1871 – 1957) er baráttusaga merkilegrar konu. Tímarammi skáldsögunnar er frá 1904 til 1975. Sagan hefst þegar Sigríður fer að skipta sér af málum í sveitinni sem misbuðu réttlætiskennd hennar.

Það er nokkuð ljóst af lestri bókarinnar að Sigríður var með ríka réttlætiskennd en hún var jafnframt afar listræn, dugnaðarforkur til vinnu en líka einþykk og félagsfælin. Hún lenti ekki bara í deilum um Gullfoss heldur einnig við bændur í sveitinni sem vildu girða fyrir ofan Brattholt, milli Tungufljóts og Hvítár. Sigríður var mikið á móti gaddavírsgirðingum og taldi þær frá djöflinum komnar.

Þessi stórmerkilega kona gerði það sem fæsta konur gerðu á hennar tíma sem var að rísa upp gegn valdinu, hún ferðaðist langar leiðir einsömul og lagði á sig langar og strangar ferðir til þess að koma í veg fyrir eyðileggingu Gullfoss.

Auk Sigríðar og hennar fólks í Brattholti koma margir við sögu og má þar nefna presthjónin á Torfastöðum, séra Eiríkur Þ. Stefánsson og frú Sigurlaug Erlendsdóttir, en þau stóðu við hlið Sigríðar og hjálpuðu henni allt til dauðadags. Auk þeirra má nefna Svein Björnsson, fyrsta forseta Íslands, sem studdi Sigríði og hjálpaði henni eins og hann gat. Þorsteinn Erlingsson, skáld, kemur við sögu en hann orti frægt ljóð um Gullfoss eftir heimsókn í Brattholt.

Konan sem elskaði fossinn er áhugaverð saga og segir ekki bara frá lífi og störfum bænda í byrjun 20. aldarinnar heldur er þar að finna mikinn fróðleik um þá breytingu sem varð á lifnaðarháttum Íslendinga á þeim tíma. Nýi tíminn var að banka á þar sem menn vildu virkja fossa fyrir rafmagn og slétta tún og setja upp gaddavírsgirðingar til að auðvelda og létta mönnum lífið. Þarna tókust á gamli tíminn og sá nýi.

Sigríður vann þrekvirki sem seint fæst þakkað. Hún barðist fyrir Gullfoss og hélt því alltaf fram að ef fossinn yrði virkjaður og seldur myndi hann skemmast um alla framtíð, sem menn áttuðu sig kannski ekki á í upphafi. Við eigum þessari konu mikið að þakka.

Bókin er skemmtileg aflestrar og það er nokkuð ljós að það er sagnfræðingur sem skrifar þennan texta. Hún er nákvæm um staðreyndir og vill koma meiru en minna að. Eyrún leggur meiri áherslu á staðreyndir málsins frekar en skáldsöguhlutann. Menn geta deild um hvort það sé til bóta eða ekki en sú bók hefði verið öðruvísi bók og alveg örugglega mun lengri. Konan sem elskaði fossinn er kærkomin bók og uppfull af fróðleik. Sigríður og hennar barátta má ekki gleymast og kannski höfum við nútímamenn ekki verið eins einörð og hún þegar við erum að berjast fyrir verndun náttúruauðlinda í dag. Eða kannski trúum við því ekki að enn sé verið að virkja og eyðileggja ómetanleg svæði á Íslandi. Sagnfræðingar framtíðarinnar munu kannski gera okkar sögu skil eins og Eyrún gerir Sigríði og baráttu hennar fyrir Gullfossi skil í Konan sem elskaði fossinn. Við grípum niður í bókina.

1946 – Fjallamenn á ferð

Næsta morgun vöknuðu þeir snemma og fóru að tygja sig til farar. Í eldhúsinu var Einar að hita kaffi en Sigríður var hvergi sjáanleg.

-Sigga skrapp upp að fossi, sagði Einar afsakandi. –Hún byrjar yfirleitt daginn á því, gamla konan, bætti hann svo við.

-Er henni ennþá svo umhugað um hann? Spurði afi Gísla, hlýlega.

-Það ætlar engan endi að taka, hnussaði í Einari um leið og hann hristi höfuðið.

Þeir tóku fram hluta af nestinu sem mamma Gísla hafði útbúið svo vandlega fyrir hvern dag og borðuðu með funheitu kaffinu. Svo riðu þeir af stað. Nálægt Gullfossi sáu þeir til gömlu konunnar sem var á heimleið meðfram Hvítárgljúfri og virtist ekki taka eftir þeim. Hjá fossinum stigu þeir af baki örlitla stund og horfðu á iðandi kraftinn sem Gísla fannst vera eins og blóðið í æðum sér. Hann langaði að mála þennan foss með vatnslitunum sínum, gat hugsað sér að sitja við móbergssteininn, sem var fyrir framan þá, og mála hann aftur og aftur. Hann sneri sér að afa sínum:

-Af hverju sagði Sigríður ekkert við okkur í gær?

-Sigga hefur alla tíð verið nokkuð fámál, svaraði afi hans og horfði upp eftir landinu sem þeir voru um það bil að fara að smala. – Kannski hafa hvassbrýndar Jarlhetturnar og grjótið, jafnvel fossinn sem hún barðist fyrir, greypt sig í huga hennar.

-Myndirnar af fálkanum og hestinum eru vel teiknaðar, sagði Gísli með aðdáun.

-Hún er líka mikil hannyrðakona, svaraði afi hans annars hugar, -en hún er forn í lund og það er erfitt fyrir Einar bónda, því hún vill engar framfarir eða nýjungar.

Og hér fer á eftir annar kafli úr bókinni

Árið 1950 langaði Ólaf Gunnarsson að hitta þá manneskju sem talin var íslenskust allra núlifandi Íslendinga þá og reyndist það vera Sigríður. Hann hafði dvalið í Kaupmannahöfn í tólf ár við nám en kom heim siglandi með Gullfossi. Samtal þeirra lýsir hug Sigríðar vel.

– Ég hef viljað vernda landið en ekki selja, hvorki íslenskum né útlenskum auðmönnum. Föður mínum, blessuðum, bauðst að selja Gullfoss fyrir 50.000 gullpeninga. Hve marir hefðu ekki selt þetta vatn fyrir jafnvel 30 silfurpeninga? Bætti hún við í spurnartón.

– Sjálfsagt hefðu margir gert það, samsinnti Óli rólega.

– En hvað haldið þér að verði í framtíðinni?

– Það er uggur í mér varðandi framtíð þessa glæsta foss míns, ég óttast að einhver öfl, sem eru öllu fegurðarskyni og allri framsýni sterkari, eigi eftir að eyðileggja fossinn minn.

– Ég trúi því trauðla að það séu ennþá til svo andlega volaðir menn á Íslandi að þeir vilja granda Gullfossi, sagði Óli alvarlegur.

– En ungi maður, svaraði Sigríður. – Þegar peningur er í aðra hönd, þá fellur ský á augað. Þér getið ekki gert yður í hugarlund hversu sumt fólk er gersneytt skilningi á fegurð fossa og fjalla. Jafnvel himinninn er sumum dulræð eða algera lokuð bók. Ég hef heyrt suma spyrja sem koma að Gullfossi: ,,Hvað er þetta langa og hvíta sem er yfir manni þegar maður stendur við fossinn?“ Sumt fólk eyðileggur undur jarðar af óvitaskap eða með einhverri vitleysu sem ég skil ekki.

Óli samsinnti þessu af heilum hug og hún hélt áfram:

– Ofan við Gullfoss er móbergssteinn en kringum hann var allt full af eyrarrósum. Nú er fólk búið að rífa hverja einustu rós upp með rótum svo nú eru blómin horfin að fullu og öllu.

Hún þagnaði eitt augnablik og hélt svo áfram: – Mér er svona verknaður óskiljanlegur en því veldur vafalaust að ég nýt mín hvergi almennilega nema úti í náttúrunni.

 

 

 

 

Ritstjórn desember 23, 2020 09:56