Hef á tilfinningunni að veðrið verði gott í sumar

“Ég hlakka mikið til sumarsins og hef á tilfinningunni að veðrið verði virkilega gott í sumar, það leggst þannig í mig, að við fáum gott sumar eftir allar þessar innilokanir og Covid  tíma”, sagði Valgerður Sigurðardóttir sagnfræðingur í viðtali við Lifðu núna um sumarið framundan.  “Við erum meira að segja að hugsa um það stórfjölskyldan að fara saman í útilegu en við höfum ekki gert það í mörg ár. Við ætlum að taka fram tjaldvagninn okkar og fara að ferðast og erum öll bjartsýn á veðrið. Ég held að við förum ekkert til útlanda. Það var í deiglunni síðasta sumar, en þá varð ekkert af því vegna Covid. Ég held við látum sprauturnar klárast áður en við förum að huga að því aftur. Það yrði þá frekar í haust, en ég efast samt um það.  Við erum að hugsa um það núna að ferðast hér innanlands og vinna í sumarbústaðnum í sveitinni”, segir Valgerður, en hún og maðurinn hennar Friðbjörn Björnsson eiga sumarbústað í Úthlíð í Biskupstungum.

Stefnir á að heimsækja tvo draumastaði

Valgerður segir að þau hjónin hafi ferðast mikið hér á árum áður, en á því hafi orðið hlé, þegar þau fóru að að byggja bústaðinn í sveitinni. Hún segir að það séu tveir draumastaðir sem hana langi til að heimsækja í sumar. “Við eigum eftir að fara á Melrakkasléttuna og svo langar mig mikið að fara að Langasjó. Ég yrði mjög ánægð ef ég kæmist á þessa tvo staði, en mig hefur langað til að fara þangað í mörg ár. Við stefnum því á norðausturlandið og hálendið við Langasjó. Við höfum líka haft gaman af að veiða og veiddum oft á silungasvæðinu í Laxá á  Ásum”, segir Valgerður. “ Ég tek það skýrt fram að það var á silungasvæðinu. Það var ótrúelga skemmtilegt og við fórum þangað í nokkur sumur. Það væri gaman að komast í veiðina aftur. Þetta er svolítið “back to basics” hjá okkur að fara að nota tjaldvagninn aftur og ferðast til þessara staða. Það er mikil hvíld í því fólgin að vera við árnar úti í náttúrunni, alveg draumur. Svo tökum við sumarfrí í sumarbústaðnum. Það er það besta sem ég veit”.

Stundum mjög kalt á sumardaginn fyrsta

“Þegar börnin voru lítil gerði maður alltaf eitthvað skemmtilegt á sumardaginn fyrsta”, segir Valgerður. “Veðrið gat nú verið alla vega, stundum mjög kalt. Síðasti vetrardagur og sumardagurinn fyrsti, þetta eru tímamót og maður horfir til bjartra daga framundan. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvers vegna sumardagurinn fyrsti var ákveðinn svona snemma vors, því það hefur áreiðanlega oft verið kalt á þessum árstíma í gamla daga.  Það er hins vegar vel þegið í dag að frídagar séu á fimmtudegi, eins og sumardagurinn fyrsti. Það lengir helgina og ég veit um marga sem taka þá frí á föstudaginn og nýta tækifærið og fara út úr bænum”.

Hlakkar til að fara í bólusetningu

Valgerður er ekki búin að fara í bólusetningu ennþá, en maðurinn hennar er búinn að fara í fyrri bólusetninguna. Hún segist hlakka til að fá sínar sprautur.”Ég horfi til þess að maður geti þá farið að vera frjálsari, þó maður virði allar sóttvarnarreglur áfram.  Ég vil trúa því að nú fari þetta allt að ganga eftir, með þessari síðustu ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hertar aðgerðir á landamærunum. Fólk á að virða reglurnar sem eru settar, sýna þolinmæði og láta hlutina klárast svo við getum farið að njóta þess hér innanlands að vera til. Það eina sem ég hef áhyggjur af eru undanþágurnar í þessum samþykktum. Þær fara fyrir brjóstið á sumum, sérstaklega fólki sem fékk ekki að heimsækja ástvini sína á hjúkrunarheimilunum á sínum tíma, þá voru engar undanþágur veittar. Ég vona að þær verði sem fæstar núna og þetta klárist hjá okkur í sumar”, segir Valgerður að lokum.

 

Ritstjórn apríl 22, 2021 13:21