Beta keypti öll merkin á sumardaginn fyrsta

Sumardagurinn fyrsti, einnig kallaður Yngismeyjardagur,  er fyrsti dagur Hörpu sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Hann ber alltaf uppá fimmtudag á tímabilinu 19.-25.apríl. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú boðar það gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman, það er að hiti fari niður fyrir frostmark, aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur eiga flestir minningar um hátíðarhöld á sumardaginn fyrsta og yfirleitt muna þeir líka að það var oftast kalt í veðri. Ragna Kristín Jónsdóttir  rifjaði upp minningar frá þessum degi á bloggi sem hún hélt úti um tíma. Við fengum leyfi til að vitna í hennar skrif og birtum hluta af þeim hér fyrir neðan. Merkjasala var fastur liður á sumardaginn fyrsta og við gefum Rögnu Kristínu orðið:

Ég átti nokkra fasta viðskiptavini í merkjasölunni, en þegar ég var búin að ramba um allt Kleppsholtið þá endaði ég alltaf á sömu gömlu konunni sem ég gat treyst á þegar ég var orðin svo krókloppin að ég gat ekki meira, en það var hún Beta sem átti heima neðar á Kambsveginum. Það brást nefnilega ekki að þegar ég kom til hennar þá bauð hún mér inn og hitaði handa mér kakó og keypti svo af mér öll merkin sem ég átti eftir og sagði mér endilega að koma aftur til sín á næsta sumardeginum fyrsta því þá myndi hún líka kaupa af mér merki. Í fyrsta skiptið sem þetta gerðist þá kom ég til hennar þegar ég átti ein átta merki eftir og bjóst bara við því að hún keypti kannski eitt, en hún vorkenndi krókloppnu stelpugreyinu og keypti allt sem eftir var.

Þegar ég sagði frá þessu heima þá var tekið af mér loforð um að fara ekki til hennar Betu með svona mörg merki því það væri svo dónalegt að fara að nota sér þetta og ætlast til þess að hún keypti allt saman. Helst þyrfti ég að vera búin að selja allt nema eitt, en ef ég gæti það ekki þá kannski þegar tvö eða þrjú væru eftir. Oftast voru nú tvö eða þrjú eftir þegar ég fór í kakóið og spjallið hjá henni Betu en ég vogaði mér ekki að fara með fleiri eftir ráðleggingarnar heima fyrir því ekki vildi ég nú vera dónaleg.

Hátíðarhöldin niðri í miðbæ eftir hádegið eru líka minnisstæð. Það fóru skrúðgöngur úr austur og vesturbæ og fyrir þeim fóru vagnar, Vetur konungur og hans hirð á öðrum en Sumar konungur á hinum. Þegar komið var á Lækjartorg þá mættust þannig vetur og sumar síðan var skemmtidagskrá á Lækjartorgi. Ég man eftir að Edda systir mín var send með litlu systur í þessar bæjarferðir á meðan sú litla mátti ekki fara ein í bæinn. Slíkum hátíðarhöldum man ég eftir í nokkuð mörg ár en síðan var þetta lagt af. Af hverju? Jú það var vegna þess að fólk hætti smám saman að mæta vegna þess hvað það var alltaf hræðilega kalt þennan dag. Það tíðkaðist á þessum tíma að allir voru í sparifötunum sínum eins og alltaf á hátíðisdögum og ekki hefur það nú dregið úr kuldanum að vera í kjól og kápu, sportsokkum og spariskóm. Það var ekki komið í tísku á þeim tíma að vera í góðum skjólfötum og klæða sig eftir veðrinu eins og nú er en það þekktist lítt í þá daga. Spariföt skyldu það vera á rauðu dögunum á dagatalinu. Mikið rosalega er maður nú orðinn gamall þegar maður rifjar upp þennan löngu liðna tíma.

 

 

Ritstjórn apríl 21, 2022 08:00