Hefja á loft þetta ljós að það lýsi öðrum

Við höfum áður birt hugleiðingar Karls Sigurbjörnssonar biskups um jóladagana hér á vef Lifðu núna, en í bók hans Dag í senn sem kom út fyrir nokkrum árum, er að finna trúarlegar hugleiðingar hans um daga ársins. Hér er hugleiðing hans fyrir jóladag, 25.desember.

Fæddi hún þar son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu… (Lúk.2.7)
Reifum vafið og lagt í jötu barnið litla, þetta unga, ósjálfbjarga líf, barnið sem ótal tungur um víða veröld lofa, syngja, tilbiðja á helgum jólum sem „lávarð heims, konung lífs vors og ljóss.“ Hvað merkir þetta?
Við elskum þessa sögu, þessa sálma, þennan söng, boðskapinn sem jólin bera, hughrif friðar, kærleika, og þráum ljósið og lífið sem þar er heitið.  En hvað merkir þetta, hvað segja jólin okkur um Guð og mann og heim?
Í varnaleysi barnsins í jötunni birtist það vald sem öllu valdi er æðra, já og hann mun sigra um síðir. Það sem þú sérð og skynjar í barninu í jötunni og boðskap helgra jóla birtir innsta eðli tilverunnar og markmið sögu mannsins á jörð. Það er gleðin og góðvildin, mildin og kærleikurinn, miskunnsemin, fyrirgefningin og friðurinn, svo varnalaust sem það nú er í heimi græðgi og taumleysis, svo lítilsmegandi í niðdimmu einsemdar og vonleysis, svo máttvana í myrkrum ofbeldis og grimmdar, varnalaust eins og lítið barn, hljóðlátt eins og bæn á barnsvörum, flöktandi eins og kertaljós á vetrarkvöldi.
Hefurðu heyrt? Hafa jólin, hefur nóttin helga náð til þín? Hlustaðu eftir rödd hennar í kyrrð hjarta þíns!
Eitt sinn voru það þau Jósef og María sem hlúðu að Guðs syni í óvinveittri veröld. En nú er Guð að kalla á þig til að vernda þetta barn, taka undir bænir þess, skýla með lófa þínum ljósi trúar, vonar og kærleika, þessu friðarljósi í arnsúgi vantrúar og haturs, og hefja á loft þetta ljós að það lýsi öðrum til lífsins; bera áfram óminn af söng englanna inn í kalt og þröngt hjarta særðrar sálar, að ómi inn í myrkan, dapran heim, ótta, ógnar, ófriðar: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun yfir mönnunum.“

Gleðileg jól.

Ritstjórn desember 25, 2022 11:00