Krossinn tákn fyrirgefningar huggunar og vonar

Séra Karl Sigurbjörnsson fyrrverandi biskup er höfundur bókarinnar Dag í senn, sem hefur að geyma hugleiðingar fyrir hvern dag ársins, sem byggjast á boðskap úr Biblíunnar. Í tilkynningu frá Skálholtsútgáfunni sem gaf bókina út, sagði að hugleiðingarnar væru bornar uppi af reynslu, kærleika og visku höfundarins sem hefði helgað líf sitt kirkjunni og samfélaginu öllu. Lifðu núna birtir hér texta Karls fyrir föstudagsins langa.

 

„…ég gleymi þér ekki. Ég feykti burt afbrotum þínum eins og skýi, og syndum þínum líkt og þoku, hverf aftur til mín því að ég hef endurleyst þig.“ (Jes. 43.22)

Þetta segir krossinn. Þetta einstæða og öfluga tákn fyrirgefningar, huggunar og vonar.

Maður nokkur sagði frá því að hann var á ferð í járnbrautarlest. Við hlið hans sat ungur maður sem var augljóslega kvíðinn og þjakaður af þungri byrði. Loks játaði hann fyrir sessunaut sínum að hann væri á heimleið úr fangelsi eftir að hafa afplánað þungan dóm. Hann hafði valdið foreldrum sínum mikilli sorg og smán og þau virtust hafa snúið við honum baki, að minnsta kosti höfðu þau ekki svarað bréfum hans og bæn um fyrirgefningu. Hann harmaði brot sitt og  þráði fyrirgefningu þeirra. Áður en hann var látinn laus skrifaði hann þeim og bað þau að setja upp merki fyrir hann þegar lest hans færi framhjá tilteknum bóndabæ í útjaðri bæjarins. Ef þau gætu fyrirgefið honum þá skyldu þau hengja hvítan borða í stóra eplatréð við járnbrautina. Ef þau gætu ekki fyrirgefið honum þá áttu þau ekkert að gera og hann  myndi halda ferð sinni áfram og eitthvað langt í burtu.

Þegar lestin nálgaðist bæinn gat ungi maðurinn ekki fengið af sér að líta út um gluggann. Sessunautur hans bauðst þá til að skipta við hann um sæti. Allt í einu blasti við honum stórkostleg sjón. Hann greip í unga manninn og dró hann yfir að glugganum: „Sjáðu, það er allt í lagi. Tréð er þakið ótal hvítum borðum!“

Og um leið varð ummyndun, kraftaverk. Ungi maðurinn varð sem annar maður. Kvíðinn, hræðslan, umkomuleysið vék fyrir feginleika, eftirvæntingu, von.

Fyrirgefningin gerir kraftaverk. Hún endurnýjar, endurreisir. Krossinn er tréð við veginn þinn sem segir þér: Syndir þínar eru fyrirgefnar. Jesús tók á sig synd þína, brot og sár, sjálfan dauðann: „…ég gleymi þér ekki. Ég feykti burt afbrotum þínum eins og skýi, og syndum þínum líkt og þoku, hverf aftur til mín því að ég hef endurleyst þig.“

Þín bíður gleði, fögnuður, friður heima, í hlýjum faðmi kærleikans.

Ritstjórn apríl 7, 2023 09:00