Tengdar greinar

Heiðra bæði náttúruna og látna ástvini

Að skiljast við ástvin er jafnan tilfinningaríkt ferli og allir vilja að kveðjustundin verði eins falleg og ljúf og unnt er. Í öllum menningarsamfélögum hafa skapast hefðir í kringum dauðann og hvernig manneskja er lögð til hinstu hvílu. Þær eru misjafnlega umhverfisvænar en Aska Bio Urns er nýtt fyrirtæki sem einmitt hefur náttúruvernd að leiðarljósi. Að baki þess standa þær Dögg Guðmundsdóttir iðnhönnuður, Heiðdís Einarsdóttir menningarmiðlari og Þórhildur Einarsdóttir viðskiptafræðingur.

Allar eiga þær að baki farsælan starfsferil hver á sínu sviði. Dögg á heiðurinn af útliti duftkersins sem er innblástið af íslenskri náttúru. Heiðdís sér um kynningar og markaðssetningu og Þórhildur um um fjármálin. En byrjum á byrjuninni, hvenær var Aska Bio-urns stofnað og hver var tilgangurinn?

„Við Þórhildur kynntumst í nýsköpunarhraðlinum AWE sem er á vegum HÍ og Bandaríska sendiráðsins og vorum þar báðar með hugmyndir sem tengjast dauðanum,“ segir Heiðdís. „Á einhverjum tímapunkti barst umræðan svo að því hvernig hægt er  að endurskilgreina hvernig við nálgumst hin viðkvæmu gatnamót lífs og dauða í tengslum við umhverfisábyrgð. Innblásturinn að baki ákvörðuninni um að nota endurunninn pappír til að búa til duftkerin okkar hjá Aska Bio Urns stafaði af áhuga okkar og ástríðu um sjálfbærni og löngun til að bjóða upp á vistvænan valkost við útfarir. Við leituðum svo til Daggar Guðmundsdóttur iðnhönnuðar sem kom til liðs við okkur en hún hafði á þeim tímapunkti verið í sömu vangaveltum að huga að vistvænum valkostum við lífslok. Eftir miklar vangaveltur þá varð ofan á að vísa í íslenska náttúru við hönnun kersins og kom Dögg með þessa hugmynd að stuðlabergsútlitinu mjög fljótlega. Við stofnuðum svo Aska Bio Urns haustið 2022 og frumsýndum duftkerin á HönnunarMars 2023.“

„Duftkerin okkar eru niðurbrjótanleg, framleidd úr endurunnum pappír, sem dregur úr úrgangi, minnkar kolefnislosun og varðveitir náttúruauðlindir. Við viljum stuðla að grænni framtíð og hjálpa til við að vernda og hlúa að umhverfinu fyrir komandi kynslóðir,“ bætir Þórhildur við. „Við notum pappír sem inniheldur beðma (cellulose) og er af þeim sökum náttúrulegt endurvinnanlegt hráefni. Úr því er gerður massi sem er laus við lím og önnur efni sem menga náttúruna og eftir að þau hafa verið steypt eru duftkerin látin þorna með náttúrulegum aðferðum.“

Hlaðvarp um dauðann

Nú eru duftkerin ykkar komin á markað. Hvert getur fólk snúið sér til að panta þau?

„Hægt er að óska eftir þeim hjá flestum útfararstofum og svo er hægt að snúa sér beint til okkar og panta í gegnum vefsíðuna okkar www.askabiourns.com,“ segir Dögg.

Þið hafið einnig haldið úti hlaðvarpi þar sem dauðinn er ræddur frá ýmsum sjónarhornum. Hver var kveikjan að því?

„Ástæðurnar voru nokkrar en fyrst og fremst fannst okkur þörf á því að opna umræðuna um dauðann sem er óumflýjanlegur hluti þessa jarðlífs,“ segir Heiðdís. „Þá vildum við náttúrulega líka kynna okkur til sögunnar bæði sem fyrirtæki og persónurnar á bak við fyrirtækið Aska Bio Urns þó svo við séum minnst að tala um okkur. Við sáum að það er hægt að taka umræðu um dauðann út frá ýmsum sjónarhornum og vorum svo lánsamar að fá til okkar áhugavert fólk sem var tilbúið að fræða og deila sínum reynslusögum með okkur og hlustendum okkar.“

Auk þess fannst okkur miðaldra konunum ekki síður áhugavert að spreyta okkur á því að útbúa hlaðvarp sem kom okkur á óvart hvað var einfalt. Hægt er að hlusta á þættina okkar á Podbean.com eða á iTunes og heita þeir „Nær dauða en lífi“. Við höfum ekki sett lokið á þættina okkar enn þá, það eru nokkrir vinklar sem við værum til í að taka til umræðu, m.a. erfðamál sem við höfum ekki tekið fyrir enn þá,“ segir Þórhildur.

Fundu fjölskyldufyrirtæki á Spáni

Hvar framleiði þið vöruna ykkar?

„Við hefðum gjarnan viljað finna framleiðanda hérna heima á Íslandi en þegar við fórum að kafa ofan í það þá var enginn sem gat gert það sem við viljum,“ segir Dögg. „Þetta sendi okkur út fyrir landsteinana en ég hafði hugmyndir um framleiðendur sem sérhæfa sig í vinnslu úr pappamassa. Ég hafði heyrt af  framleiðanda á Spáni sem er dásamlegt hundrað og þrjátíu ára gamalt fjölskyldufyrirtæki sem í dag er rekið af fjórðu kynslóð fjölskyldunnar en þau hafa sérhæft sig í nýtingu pappírs við sína framleiðslu allt frá upphafi. Þau tóku afar vel á móti okkur af áhuga og fagmennsku.“

Hver er ykkar framtíðarsýn fyrir fyrirtækið?

„Við erum allar á sömu blaðsíðu með að víkka markaðssvæðið okkar og bjóða kerin okkar í fleiri löndum og erum við helst að horfa til Norðurlandanna til að byrja með en síðan einnig Bandaríkjanna og annarra landa í Evrópu. Við stefnum á að kynna okkur í Danmörku fyrst en þar eru hæg heimatökin því Dögg hefur átt þar heima í rúm tuttugu og fimm ár,“ segir Þórhildur. „Við erum einnig strax farnar að huga að því að auka við vöruframboð hjá okkur og næstu skref eru niðurbrjótanlegir blómapottar fyrir gróðursetningar í grafreitum og gæludýraduftker. Einnig er á teikniborðinu líkkistur og jafnvel legsteinar.“

Innblásin af einstöku formi stuðlabergsins

Að sögn þeirra stallsystra hafa þau duftker sem hafa verið í boði hingað til hafa flest verið frekar einsleit og þær telja að með aukningu bálfara opnist möguleikar á að auka úrvalið og um leið vera í takt við endurvinnsluhagkerfið og þá staðreynd að mikið magn af pappír fellur til. Þetta skapar rými fyrir duftker sem talar til vaxanda krafa um endurunnar vörur sem hafa vistvæn áhrif á umhverfið.

„Duftkerin okkar eru nýr vistvænn valmöguleiki, hönnuð með bæði virðingu fyrir og vísun í náttúruna þar sem form þeirra er innblásið af einstöku og náttúrulegu formi stuðlabergsins sem finnst víða í íslensku landslagi. Hið sexhyrnda form stuðlabergsins myndast þegar náttúran leitast við að búa til hringlaga form og við ákveðnar aðstæður þegar hraun hefur runnið og byrjar að storkna, leitast það við að þorna í hring og er sexstrengurinn, stuðlabergið, það form sem kemst næst hringmyndun. Önnur sexhyrnd form er að finna víðar í náttúrunni, svo sem í býflugnabúum og snjókornum. Sexhyrningurinn hefur auk þess ýmsar táknrænar merkingar í trú og heimspeki. Þannig getur hann táknað sátt, jafnvægi, visku, ást og sanngirni,“ segir Heiðdís að lokum og hvetur alla til að heiðra ástvini sína þegar þeir leggja þá til hinstu hvíldar og taka jafnframt þátt í að vernda Jörðina.

Ritstjórn desember 1, 2023 07:00