Heill og hamingja

Inga Dagný Eydal

Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur skrifar

Framan af ævinni lagði ég mikla áherslu á að koma hlutum þannig fyrir að ekkert yrði útundan og að það sem væri á mína ábyrgð væri gert eins vel og mögulegt væri. Það var auðvitað ég sjálf sem setti mörkin og þau voru há. „Til hvers að gera eitthvað ef maður gerir það ekki vel?“ var eitthvað sem ég sagði gjarnan og ekki þarf að taka það fram að ef mér fannst aðrir ekki uppfylla kröfurnar mínar þá var ég meira en reiðubúin til að taka verkið yfir. Það var öruggara og féll vel að sjálfsmyndinni um að ég gerði hlutina vel -(lesist betur en aðrir).

Mikið óskaplega varð ég svo hissa þegar ég komst að því að enginn,- já nákvæmlega enginn, var að ætlast til þess að ég væri fullkomin og það var mitt eigið lága sjálfsmat sem lagði mér til lífsregluna um að ég ætti að vera það. Það sem ég hafði trúað svo einlæglega að væri kostur og styrkleiki var það kannski alls ekki.  Já fátt er flóknara en að vera manneskja og hvern einasta dag lærum við nýja hluti í þeirri list,- ef við viljum!

Fræðikonan og fyrirlesarinn Brené Brown orðar það þannig að „ef fullkomnunaráráttan er undir stýri þá er óttinn líklega í farþegasætinu og skömmin afturí“ Óttinn, er líklega óttinn við að aðrir komist að göllum okkar og skömmin sú sem af því leiðir.

Nú er ég komin undir sextugt og hái baráttu á hverjum degi við fullkomnunaráráttuna sem er sannarlega einn af mínum stærstu veikleikum. Fullkomnunaráráttuna sem segir að ég eigi að vera alltaf dugleg, aldrei þreytt, aldrei döpur eða fúl, hjá mér eigi alltaf að vera hreint og fínt, bíllinn hreinn og garðurinn sleginn, hundurinn kemdur og maturinn góður. Bara svona smotterískröfur.

Ég er búin að springa einu sinni á limminu og verða veik af streitu og örmögnun og ef ég leyfi fullkomnunaráráttunni að sitja of lengi í bílstjórasætinu á ég sannarlega á hættu að lenda á þeim stað aftur. Í staðinn þarf ég að gangast við því að ég er gigtveik og stundum lasin, oft lúin, eða löt og bara kemst ekki yfir nema brotabrot af því sem mér finnst að ég ætti að gera. Og það er vissulega erfitt.

Staðreyndin er sú að fullkomnunarsinnar reynast afkasta minna og upplifa meiri streitu en þeir sem setja sér heilbrigð og raunhæf markmið. Þeir upplifa oftar kvíða, depurð og einkenni s.s. svefntruflanir eða átraskanir. Þeir eru dómharðir á sjálfan sig og jafnvel aðra og í huga þeirra er „allt eða ekkert“ ráðandi afl með tilheyrandi niðurrifi ef markmiðin nást ekki. En þeir sömu bregðast svo jafnvel mjög illa við gagnrýni frá öðrum því það er jú ekki gott að blettir falli á ímyndina um fullkomnun.

Og hvað er hægt að gera? Hvernig gengur mér sjálfri þessi daglega barátta við að falla ekki í sama farið og hver eru verkfærin eða vopnin í þann slag.

Jú eftirfarandi hefur reynst mér vel:

  • Að gangast við mér eins og ég er og skoða af fullum heiðarleika hvaða hugsanir og tilfinningar hafa áhrif á hegðun mína.
  • Að muna að tilfinningar segja mér ekki alltaf satt og óttinn við dóm annarra er sjaldnaast á rökum reistur.
  • Að muna hvernig dómur annarra um mig er þeirra mál en ekki minn vandi.
  • Eiga góð og heiðarleg samskipti við fólk sem mér þykir vænt um og mér líður vel með en eltast ekki við aðra.
  • Að stunda núvitund og þannig tileinka mér sveigjanleika, seiglu og sátt í tilveruna.
  • Að muna hversu fullkomlega ófullkomin og dásamleg ég er, rétt eins og allir aðrir.

Þetta er oft erfitt því að ég er búin að eyða einum of mörgum áratugum í vitleysuna sem er fullkomnunarárátta. Enn er þó von um að ég verði ekki gamla konan sem situr og þurrkar stöðugt ósýnilegt ryk af borðum og bekkjum heldur finni mér eitthvað miklu skemmtilegra að gera. Krossa fingur og reyni að vanda mig…..-minna!

Inga Dagný Eydal ágúst 1, 2022 07:00