Í endurnýjun lífdaga

Inga Dagný Eydal

Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur skrifar

Margir hafa velt fyrir sér þýðingu þeirra siða og venja sem tengjast páskum. Það er í raun ekkert undarlegt að fólk skuli eiga erfitt með að tengja páskaegg úr súkkulaði með málsháttum innaní, við pínu og upprisu Krists. Páskarnir eru líkt og jólin heiðin hátíð löngu fyrir daga kristni og hún er líka hátíð gyðingdóms. Hin forna gyðja Eastre var gyðja vorsins, morgunsins, endurfæðingarinnar og barna. Eastre breytti uppáhalds gælufuglinum sínum í kanínu að því er sögur herma. Kanínan gladdi síðan börn með því að færa þeim marglit egg, tákn upphafsins og lífsins, að gjöf frá vorgyðjunni. Gott og vel, þar er komin páskakanínan eina og sanna sem enn færir börnum páskaegg (í sumum löndum) þó ekki hafi þau verið úr súkkulaði fyrr en löngu síðar. Og líka skýring á því af hverju kanína kemur með egg, en það skýrir svo sem ekki af hverju vorgyðjan kaus að breyta fugli í kanínu. Líklega verður það ekki rökstutt en kanínur eru jú frjósamar með afbrigðum og gætu verið annað tákn um líf og vor.

Gyðingar halda sína páska til að minnast þess er Guð leiddi þjóð sína úr ánauð Egypta og þeim er til dæmis ekki leyfilegt að nota kornvörur eða borða sýrt brauð á páskum. Eðlilega ekki! Páskar gyðinga eiga þó fátt skylt við okkar kristnu hátíð enda er verið að minnast gjörólíkra atburða, aðeins nafnið er hið sama og tímasetningin.

Ég mun ekki skoða páska gyðinga neitt meira, nóg er nú ruglingurinn samt þótt páskarnir komist ekki með tærnar þar sem jólin hafa hælana. Við minnumst fórnardauða og upprisu Krists að því er ég best veit, en páskasiðirnir virðast að mestu leyti tengdir heiðni. Kanínur og egg virðast vera tákn endurnýjunar lífs og eiga þannig bæði við vorið og upprisuna. Svo hafa siðirnir tekið breytingum og eru mismunandi á milli þjóða og landa. Við borðum páskaegg, förum á skíði og skreytum með gulu, Tékkar flengja konur með páskavendi til að gera þær fegurri og á Filippseyjum eru menn krossfestir í fúlustu alvöru!

Fyrir mér sem ekki er sérstaklega áköf í barnatrúnni lengur er þessi tenging við vorið og frjósemina ákaflega viðeigandi. Vetri er að linna, fræið sem svaf í frosti er ekki dáið heldur lifnar við í eilífri og ótrúlegri hringrás náttúrunnar. Ekkert gefur meira tilefni til að fagna heldur en einmitt það. Við eigum nokkra frábæra og vel þegna frídaga eftir langan vetur og það er kannski það allra besta við þessa hátíð.

Við, eins og allt annað líf, þurfum nefnilega á hvíld að halda, við þurfum að endurheimta orkuna okkar því hún er auðvitað ekki óþrjótandi uppspretta. Við það að hvíla okkur, þá myndum við t.d hormón sem yngir okkur og eflir og svefninn er auðvitað forsenda góðrar heilsu, andlegrar og líkamlegrar. En við erum nú svo mögnuð með það að misskilja, lítillega eða bara heilmikið, þetta með frídagana og hvíldina. Spurningin „hvað á svo að gera um páskana?”, er eiginlega jafn algeng og spurningin „ertu búin að öllu fyrir jólin?”. Og hún þýðir auðvitað að samfélagið gerir ráð fyrir því að frídagarnir séu nýttir í að „gera” eitthvað. Dytta að bústaðnum, fara á skíði, ferðast, halda veislur og hvaðeina sem okkur kemur í hug. Sem er jú allt ákaflega skemmtilegt og áreiðanlega gott og blessað nema að því leyti að við erum þá kannski bara ekkert að hvíla okkur. Einhverjir halda ennþá í það að lesa bækur, sofa út og láta sig dreyma með súkkulaðitaum í munnvikinu en það eru áreiðanlega of fáir. Allavega miðað við þá sem þurfa á því að halda að hvíla sig. Hvíla sálina, heilann og líkamann. Draga úr áreitinu, símanum og fréttunum, ganga hægar, hlaupa minna, fara lítið og gera enn minna. Þá og aðeins þá náum við að framleiða hvíldarhormónin og endurnýja okkur fyrir sumarið sem í hönd fer.

Það er endurnýjun lífs sem er boðskapur páskahátíðarinnar, bæði þeirrar kristnu og gömlu heiðnu vorhátíðarinnar og það er vel við hæfi að halda upp á hana með því að endurnýja okkur sjálf – með því að hvíla okkur!

Gleðilega páska!

Inga Dagný Eydal apríl 4, 2022 06:53