Heimagerður ís í sólinni

Hvað er betra en að fá sér ís þegar sólin skín og hví ekki að gera ísinn sjálfur. Þessa uppskrift er að finna á vefnum krom.is og höfundur hennar er Inga Elsa Bergþórsdóttir. Hún segir að uppskriftin sé góð ein og sér en bætir við; “með stuttum könnunarleiðangri um búrskápana má ef til vill finna eitthvert góðgæti sem tilvalið er að blanda út í ísinn eða skreyta hann með. Það mætti til dæmis mylja kex eða sælgæti ýmiss konar út í ísinn, rífa súkkulaði eða bræða yfir hann, marínera rúsínur í rommi og bæta út í. Einnig er tilvalið að bæta við berjum, rista hnetur eða saxa niður þurrkaða ávexti. Þetta þarf að hræra út í ísblönduna áður en hún frýs. Möguleikarnir eru fjölmargir og kannski hittirðu á þína einu sönnu uppskrift með því að prófa þig áfram.”

Vanilluís grunnuppskrift
1 vanillustöng
250 ml matreiðslurjómi
5 stk. eggjarauður (5-6)
150 g sykur
250 ml rjómi

 

Aðferð:
Skerið vanillustöngina í tvennt eftir endilöngu og skafið fræin innan úr henni. Setjið bæði fræ og stöng í pott ásamt matreiðslurjómanum og hitið að suðu en látið þó ekki sjóða.
Þeytið á meðan eggjarauður og sykur saman í skál. Hellið svo vanillurjómanum rólega saman við eggjarauðurnar og hrærið stöðugt í á meðan. Hellið öllu í pottinn aftur. Hafið hitann mjög vægan og hrærið stöðugt. Takið pottinn af hitanum þegar blandan fer að þykkna aðeins, hellið henni gegnum sigti í skál og látið kólna vel.
Léttþeytið rjómann og hrærið hann gætilega saman við ísblönduna. Hellið síðan blöndunni í ísvél og frystið. Ef ekki er notuð ísvél er ísinn frystur í formi og síðan tekinn út eftir hálftíma og hrært vel í. Svo er hann settur aftur í frysti, tekinn út eftir í hálftíma og hrært í. Þetta þarf að endurtaka 3–4 sinnum.

Ritstjórn júní 14, 2019 11:46