Hin eilífa barátta við rykið

Í gamla daga var það talinn kostur að vera ávallt með tuskuna á lofti að þurrka ryk. Fæstir hafa tíma til þess nú á dögum en rykið er ótrúlega fljótt að safnast upp, ekki hvað síst þegar svifryksmengun er jafnalgeng og nú er raunin. Eldgos, mikil umferð og vindur af hálendinu er meðal þess sem eykur svifrykið og þar með það magn af þessu fíngerða efni sem safnast upp innandyra hjá okkur. Menn eru misjafnlega viðkvæmir fyrir ryki og mengun og þótt líklega verði aldrei hægt að vera laus við það er hægt að gera ýmislegt til að þurfa ekki að vera alltaf að þurrka af.

Opnir gluggar

Ferskt loft er nauðsynlegt og með því að lofta reglulega út er hægt að koma í veg fyrir að mygla myndist og raki. En þeir sem búa í þéttbýli vita að það er ekki bara loft sem berst inn um gluggana. Skítur og mengun frá götunni fylgja oftast nær. Þess vegna er gott að velja vel hvaða gluggar eru opnaðir, t.d. er betra að opna ævinlega á þeirri hlið sem er snýr undan vindi. Það er líka gott að opna fremur glugga fjær götu og bílaumferð en nær henni.

Forðist gerviefni

Öll gerviefni eru mjög rafmögnuð og draga í sig ryk og önnur óhreinindi. Ef húsgagnaáklæði, gluggatjöld, handklæði og rúmföt eru úr gerviefnum eru þau mun líklegri til að draga að sér ryk sem síðan svífur upp þegar fólk gengur um. Hægt er að hægja mjög á uppsöfnun óhreininda með því að velja eingöngu lífræn efni inn á heimilið.

Endurbætur valda óhreinindum

Ef þarf að endurnýja eitthvað inn á heimilinu eða gera við er mjög líklegt að það valdi raski á loftgæðum og miklu ryki. Gott ráð er að ryksuga alltaf í lok hvers vinnudags.

Teppi og mottur

Í teppum og mottum getur leynst ótrúlega mikið ryk þótt reglulega sé ryksugað. Það er þess vegna mjög gott að fara af og til með allt slíkt út á svalir eða í garðinn og dusta vel. Í gamla daga voru gólfteppi bönkuð með sérstökum bankara og það er mjög góð leið til að losa öll óhreinindi og ryk úr þeim.

Hreinsið háfinn

Í eldhúsháfum og öðrum loftræstikerfum geta leynst mikil óhreinindi. Það þarf að hreinsa slíkan búnað vel og skipta um síur reglulega.

Blautar eða þurrar tuskur

Það er ekki nóg að nota þurran klút eða fjaðrakúst til að þurrka af. Í raun er ekki verið að gera annað en þyrla upp rykinu eða færa það til. Best er að nota raka tusku til að strjúka af og pússa síðan yfir yfirborðið með örtrefjaklút. Þeir draga í sig allt ryk og agnir sem eftir eru og allt verður skínandi hreint.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 30, 2024 08:22