Ryksuguvélmenni á 120 þúsund

Skúringa- og ryksuguróbótar kosta sitt og það þarf að halda tækjunum við. Auk þess þarf að tæma tækin og þrífa. Hjá fyrirtækinu Neato í Hafnarfirði fást tvenns konar ryksuguróbótar, sá ódýrari kostar 80 þúsund en sá dýrari tíu þúsund krónum meira eða 90 þúsund. Í Heimilistækjum á Suðurlandsbraut fást bæði skúringa- og ryksuguvélmenni. Þar fæst til að mynda róbót sem moppar, parket, dúka og flísar og kostar hann 55 þúsund krónur. Skúringaróbót hjá sama fyrirtæki kostar 120 þúsund krónur. Ryksuguvélmennin hjá Heimilistækjum kosta frá 95 þúsund krónum og upp í 120 þúsund krónur.

Fyrir nokkru var tilkynnt að Reykjavíkurborg ætlaði að hætta að veita tæplega 60 manns heimaþjónustu í Háleiti-og Laugardals- og Bústaðahverfi. Sigrún Ingvarsdóttir forstöðumaður þjónustumiðstöðvarinnar sagði í samtali við Mbl.is að tækni á borð við ryk­sugu- og skúr­ingaró­bóta gæti að  ein­hverju leyti komið í stað þjón­ust­unn­ar sem búið er að fella niður. Sú aðstoð sem eldra fólk fékk fólst í almennum heimilisþrifum, gólf voru ryksuguð og skúruð, baðherbergi þrifið og sumir fengu aðstoð við að skipta á rúmum.

Þó svo að skúringar- og ryksuguróbótar geti verið ágætir til síns búks hafa þeir ýmsa vankanta. Til dæmis þrífur skúringaróbótinn tæpa 30 fermetra á einni fyllingu og hleðslu. Þá þarf að bæta vatni og hreinsiefnum í hann og það tekur drjúga stund að hlaða hann aftur. Þar sem mikið er að húsgögnum, koma ryksuguróbótarnir að takmörkuðu gagni.

Ritstjórn október 14, 2015 11:21