Judi Dench hefur verið lengi að, enda orðin 91 árs. Hún hefur leikið í fjölda Shakespeare-verka, bæði á sviði og í kvikmyndum og er þekkt fyrir að kunna sinn Shakespeare og ekki langt síðan flutningur hennar á einni af sonnettum stórskáldsins í þætti Graham Norton fór eins og eldur í sinu um netið. Hún er hins vegar farin að missa sjón og ætlar þess vegna að draga úr vinnu.
Judi hefur átta sinnum verið tilnefnd til Óskarsverðlauna en aðeins einu sinni unnið. Það var fyrir aukahlutverk í Shakespeare in Love. Hún hefur hins vegar æði oft hlotið bæði Tony-verðlaun og BAFTA-verðlaunin. Bretadrottning sæmdi hana titilinum Dame árið 1999 fyrir framlag sitt til leiklistar í Bretlandi. einstök kímnigáfa hennar gerir hana enn meira heillandi.
Judi lék árið 2001 í myndinni Iris á móti Jim Broadbent. Myndin fjallaði um samband rithöfundarins Iris Murdoch og eiginmanns hennar, John Bayley. Síðustu árin þjáðist Iris af alzheimer og John lagði allt í sölurnar til að hugsa um hana heima. Leikur Judi í þessari mynd er einstaklega áhrifamikill enda gat hún að sumu leyti samsamað sig efni myndarinnar því í janúar sama ár og myndin kom út missti hún eiginmann sinn til tæpra þrjátíu ára, Michael Williams, úr lungnakrabbameini. Hún þekkti þess vegna vel meðan á tökunum stóð hvernig það var að vera í umönnunarhlutverki gagnvart ástvini sem smátt og smátt varð veikari og veikari.

Judi með dóttur sinni sem gengur alltaf undir nafninu Flinty Williams en hún fetaði í fótspor foreldranna og er leikkona.
Innileg og djúp ást
Ást þeirra Judi og Michaels var nánast þjóðsaga í breska leikhúsheiminum því þau voru alltaf jafnástfangin og þegar þau sáust fyrst. Þau voru óvenjulega náin og virtust geta lesið hugsanir hvort annars. Judi getur enn ekki talað um mann sinn án þess að tárast en hún segir að hann hafi verið sér allt. „Michael var vanur að segja að ég hentist af stað í átt að ljósinu meðan hann skriði inn í skuggann. Ég er nefnilega bogmaður en hann var krabbi. Hann var ótrúlega sterkur persónuleiki og óskaplega góður maður,“ sagði hún í viðtali.
Judi fæddist í Heworth í York-sýslu árið 1934. Móðir hennar var írsk og mótmælendatrúar en faðir hennar enskur kvekari. Þau kynntust í Dublin meðan Reginald Dench var þar við læknanám. Þau fluttu síðar til York og Reginald gerðist trúnaðarlæknir við leikhúsið í borginni og móðir hennar, Eleanora Olive, vann við búningahönnun. Judi kynntist því snemma leikhúsinu og starfinu þar. Alls konar leikhúsfólk var oft gestir inni á heimilinu og Judi tók þátt í uppfærslum í leikhúsinu þegar þeir þurftu á henni að halda.

Judi Dench í einu af sínum fyrstu hlutverkum eftir að námi lauk.
Hún hugði upphaflega á nám í leikmyndahönnun en skipti yfir í leiklist eftir að Jim, bróðir hennar, hóf nám í því fagin við Central School of Speech and Drama. Hún komst inn í sama skóla og og útskrifaðist með hæstu einkunn og fjögur leiklistaverðlaun. Þar á meðal voru gullverðlaun fyrir að vera fyrirtaksnámsmaður. Hennar fyrsta hlutverk sem atvinnuleikkona var í sýningu á vegum Old Vic-leikhússins í Konunglega leikhúsinu í Liverpool þar sem hún lék Ofelíu í Hamlet. Hún lék svo síðar sama hlutverk í Old Vic- leikhúsinu í London.
Fín rómantík
Hún var fastráðin við Old Vic í fjögur ár en gekk þá til liðs við The Royal Shakespeare Company. Hún lék í sinni fyrstu kvikmynd árið 1963 og eftir það var ekki aftur snúið. Hún lék jöfnum höndum á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum. Á árunum 1981-1984 léku hún og Michael saman í þáttunum, A Fine Romance. Þetta voru gamanþættir um par sem nær saman þrátt fyrir að vera mjög ólík. Þættirnir voru sýndi í íslenska sjónvarpinu og margir íslenskir áhorfendur eiga góðar minningar um þau tvö. Titill þáttanna er dregin af samnefndu lagi úr kvikmyndinni Swing Time frá árinu 1936. Þar söng Ginger Rogers það en Judi sjálf söng lagið sem varð þemalag og inngangstónlist þáttanna. Vinsældir A Fine Romance sköpuðu bæði henni og Michael tækifæri í Bandaríkjunum og opnuðu ekki hvað síst henni leið inn í Hollywood.

Judi og Michael í þáttunum, A Fine Romance.
Judi og Michael giftust árið 1971 og ári síðar fæddist dóttir þeirra, Tara Cressida Frances Williams. Judi fór beint í tökur á myndinni The Shipping News í Nova Scotia í Kanada eftir lát hans og fjölskyldunni fannst fara of geyst og ekki gefa sér tíma til þess að syrgja. Judi sagði seinna að sorgin hefði gefið henni mikla orku og hún vildi nota hana. Þetta hafi verið hennar leið til þess að takast á við andlátið.
Hún var velþekkt og virt leikkona en heimsfrægð öðlaðist hún þegar hún var fengin til að leika M, yfirmann James Bond árið 1995. Judi var fyrsta konan til að leika M en talið er að persóna hennar var byggð á Stellu Rimington sem raunverulega var yfirmaður MI5 á árunum 1992-1996. Í kjölfarið fylgdu margar stórmyndir þar sem Judi lék aðalhlutverið meðal annars Mrs. Brown árið 1997. Myndin var byggð á sjónvarpsleikriti um samband Viktoríu Bretadrottningar við einkaþjón sinn John Brown. Judi lék Viktoríu og var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir túlkun sína, í fyrsta sinn fyrir leik í aðalhlutverki, en fékk ekki, hins vegar hlaut hún BAFTA-verðlaun.

Judi og Michael með dóttur sína Flinty.
Þrenn verðlaun á einu ári
Árið 1999 vann hún bæði Óskar og BAFTA-verðlaun sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir hlutverk sitt í Shakespeare in Love og sama ár hampaði húnTony-verðlaunum fyrir hlutverk sitt í Broadway leikritinu Amy’s View. Hún hefur oft talað um að þó merkilegt sé hafi vinsældir hennar sem leikkonu og tækifærum fjölgað með árunum. Nokkuð sem yfirleitt er öfugt hjá konum. Og þótt hún hafi haft nóg að gera við að leika í kvikmyndum hefur hún aldrei alveg getað slitið sig frá leikhúsinu. Lengi reyndi hún skipta tíma sínum milli þessara tveggja listforma og til mynda steig hún á svið í West End og lék Madame De Sade eftir að tökum á Quantum of Solace lauk.
Árið 2012 lék hún M í sjöunda og sitt síðasta sinn í myndinni Skyfall og skömmu síðar Philomenu í samnefndri kvikmynd. Myndin var gerð eftir bók blaðamannsins Martins Sixsmiths en hann hóf að aðstoða írska konu, Philomenu, að leita að syni sínum sem hún var neydd til að gefa frá sér þegar hún var ung. Hún var ein þeirra kvenna er leitaði í Magdalenu-þvottahús til að fá aðstoð en mætti grimmd og skilningsleysi.
Þetta mál var það fyrsta er varð opinbert hvað varðaði glæpaverk kirkjunnar í tengslum við Magdalenu-klaustrin. Ungum írskum konum er urðu ófrískar utan hjónabands var komið fyrir í þessum stofnunum, ýmist viljugum eða tilneyddum. Fjölskyldur þeirra afneituðu þeim og þær voru neyddar til að vinna þrælavinnu í þvottahúsum sem klaustrin ráku og börnin þeirra voru tekin af þeim og gefin til ættleiðingar án þeirra vilja. Sum voru seld til Bandaríkjanna og Ástralíu. Ungbarnadauði var sérlega mikill innan klaustranna sem og margar ungar konur dóu einnig. Síðustu ár hafa verið grafnar upp fjöldagrafir við sum þessara klaustra og segja þær ljóta sögu. Judi var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í Philomenu og var það í sjöunda skipti sem hún fékk tilnefningu.
Sinnir góðgerðarmálum
Líkt og Meryl Streep er hún þekkt fyrir að vera nánast alltaf tilnefnd til verðlauna þegar hún tekur að sér hlutverk þótt hún hampi þeim ekki alltaf. Engin bresk leikkona hefur fengið jafnmörg verðlaun á ferlinum og Judi. Hún hefur hlotið þónokkur Tony-verðlaun, BAFTA-verðlaun og Laurence Olivier- leiklistarverðlaunin nokkrum sinnum. Judi fékk svo sjöundu Óskarsverðlunatilnefninguna fyrir kvikmyndina Notes on Scandal. Nýjasta myndin sem hún lék í heitir Spirited og kom út árið 2022.
Judi hefur unnið með góðgerðarsamtökunum Survival International sem reynir að hjálpa frumbyggjum heimsins en þó aðallega San-frumbyggjunum í Botswana og Arhuaco-frumbyggjunum í Kólombíu. Þess utan er hún einnig velunnari Shakeaspeare Schools Festival sem eru góðgerðarsamtök í Bretlandi sem gera krökkum kleift að setja upp og leika í Shakespeare-verkum í leikhúsum landsins. Auk þess er styður hún nokkur góðgerðarsamtaka er vinna að málefnum fatlaðra.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.