Hallur Hallsson sestur við skriftir á Akureyri

Hallur Hallsson, sagnfræðingur og fyrrverandi fréttamaður, varð sjötugur í vor og er nýfluttur til Akureyrar þar sem hann er að gera upp hæð í gömlu húsi ásamt eiginkonu sinni, Kolbrúnu Kjartansdóttur. Húsið er í innbænum á Akureyri og er 120 ára gamalt. „Við höfum tekið niður veggi og breytt skipulagi íbúðarinnar til fyrri tíðar, erum búin að leggja nýtt gólfefni og setja nýja eldhúsinnréttingu og nýja glugga. Pallur er í smíðum,“ segir Hallur þegar blaðamaður Lifðu núna slær á þráðinn til hans.

Hallur er Reykvíkingur að uppruna, fæddur í húsi ömmu sinnar á Vesturgötu 34. Hvað kom til að þau hjónin ákváðu að flytjast norður? „Okkur langaði að breyta til og hefja nýjan kafla í lífinu. Hér hyggst ég sitja við skriftir næstu árin og sinna rannsóknum með félögum mínum. Ég geri ráð fyrir því að eitthvað af þeirri vinnu komi fyrir almenningssjónir þegar á næsta ári.“

30 ár í fjölmiðlum

Hallur var um árabil fréttamaður á Sjónvarpinu og Stöð 2, en þar áður hafði hann verið blaðamaður á Dagblaðinu og Morgunblaðinu. „Ég hef verið afar lánsamur í lífinu og hef margt að þakka fyrir. Ég hef líka átt þess kost að fara víða sem fréttamaður.“

Segja má að Hallur hafi verið í fremstu víglínu frétta á Íslandi á miklum umrótatímum. „Ég var fréttamaður þegar Sovétið hrundi og við kvöddum gamla Ísland. Það var ótrúleg gæfa að fá að vera frétta- og blaðamaður á þessum tíma, að fá að fara til Austur-Berlínar, til Moskvu, vera með Jóni Baldvini Hannibalssyni í Eistlandi, Lettlandi og Litáen þegar hann fór í sína frægu ferð í janúar 1991. Ísland nötraði, Sambandið féll, Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði og Hafskipsmálið sligaði samfélagið. Ég var í hringiðu þessara frétta, þegar allt lék á reiðiskjálfi.“

Hallur bar hitann og þungann af komu háhyrningsins Keikós til Íslands árið 1998, en það var verkefni sem stóð í fimm ár og stendur mörgum enn í fersku minni.

Minnist Styrmis Gunnarssonar

Hallur starfaði undir ritstjórn Styrmis Gunnarssonar og Matthíasar Johannessens á Morgunblaðinu 1979–1985. „Styrmir, sem nú er nýfallinn frá, var afburðamaður, trúfastur Morgunblaðinu. Þeir Matthías héldu áfram starfi Valtýs Stefánssonar og gerðu Moggann að áhrifamesta fjölmiðli landsins á 20. öld þegar þjóðin braust til sjálfstæðis. Í kalda stríðinu höfnuðu þeir helsi og sósíalisma. Þeir áttuðu sig á óréttlæti kvótakerfisins og hófu baráttu gegn því fyrir aldarfjórðungi.“

Hallur segir að bæði Styrmir og Matthías hafi mótað sig sem blaðamann. „Þeir tveir og faðir minn, Hallur Símonarson, og einnig Jónas Kristjánsson ritstjóri, en ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að vera meðal stofnenda Dagblaðsins árið 1975.“

Hallur segist vera algerlega mótfallinn 70 ára reglunni. „Matthías hætti um aldamótin og Styrmir árið 2008. Það sýnir ágætlega hversu fráleit þessi 70 ára regla er. Ég fullyrði að Mogginn væri á öðrum stað ef þeir tveir hefðu leitt blaðið inn í nýja öld saman.“

Sneri sér að bókaskrifum

Hallur settist við skriftir þegar hann hætti í fréttamennsku og hefur sent frá sér nokkrar bækur. „Ég skrifaði sögu Olís, sem var BP, sögu reykvískra sjómanna og Ísals á 20. öld, þegar þjóðin tók upp á því að hefja álframleiðslu og virkja jökulfljót. Það var auðvitað upphafið að iðnvæðingunni og þeirri velsæld sem raforkan hefur fært okkur í gegnum vatnsföllin og heita vatnið.“

Árið 2012 skrifaði hann sögulega skáldsögu, Váfugl, sem vakti talsverða athygli og var þýdd á ensku og gefin út í Bretlandi. „Þessi skáldsaga er í raun andóf gegn Evrópusamrunanum, þ.e.a.s. búrókratíunni, þeirri tilhneigingu að færa alla stjórnsýslu og allar ákvarðanir Evrópu ofan í kjallara í Brussel í stað þess að þjóðir Evrópu haldi fullveldi og lýðræði og eigi bara viðskipti og samskipti á lýðræðislegum grundvelli. Það er tónninn í skáldsögunni.“

Glímir við afleiðingar axlaraðgerðar

Hallur glímir við afleiðingar af axlaraðgerð sem hann fór í fyrir fimm árum í Orkuhúsinu. „Yfirlæknir sagaði af viðbeini mínu að mér forspurðum. Það var galin gjörð. Ég hef ekki sofið heilan svefn í fimm ár né get ég legið á vinstri hlið með liðónýta öxl sem bókstaflega sprakk. Sin sem kallast supraspinatus tættist í sundur í kjölfar aðgerðarinnar, rifnaði frá festum og endilöng, svo þar er stór fullþykktar rifa, eins og það er kallað. Tvær rannsóknir staðfesta það en fram á þennan dag heldur læknirinn því fram að hann hafi lagað öxlina. Stjórn Orkuhússins bakkar hann upp í vitleysunni og Sjóvá kóar með. Mál þetta er komið á borð landlæknis.“

„Þrettán ára datt ég á hjóli á hitaveitustokki í Bústaðahverfi svo að brjóstbein brotnaði og ég kinnbeinsbrotnaði, La Fractura Forte 1 er það kallað. Yfirlækni Orkuhússins fannst ráð að saga af viðbeini mínu til að takast á við stöðuga verki. Líkami minn sagði nei takk. Þetta eru dæmigerðar oflækningar og fúsk sem viðgengst því miður alltof oft.“

Fréttamaðurinn gamalkunni segist nú setja traust sitt á lækni læknanna, Drottin, skapara himins og jarðar, enda fylgi hann Jesú Kristi. „Þeim sem það gerir samverkar allt til góðs, þannig að ég marséra áfram fullur bjartsýni og tilhlökkunar.“

Ritstjórn september 1, 2021 07:00