Hlutlaus gluggatjöld og rýmið sýnist stærra

Þær Dóra Hansen og Þóra Birna Björnsdóttir sem eru hluti af Innanhússarkitektar eitt A svöruðu spurningum um ýmislegt sem gott er að hafa í huga þegar fólk flytur búferlum á efri árum og hér eru ráð þeirra varðandi gluggatjöldin.

Dóra Hansen

Dóra Hansen

Þóra Birna Björnsdóttir

Þóra Birna Björnsdóttir

Úrvalið af gluggatjöldum er gríðarlegt og miklar tískusveiflur í því eins og öðru.  Hægt að vera með taugardínur, rimlagardínur, rúllugardínur, flekagardínur og margt fleira.

Val á gardínum fer eftir því í hvaða rými á að nota þær. Svefnherbergi þarf að vera hægt að myrkva vegna ljósra sumarnátta hér á landi. Sjónvarpsrými þarf líka að vera hægt að myrkva af sömu ástæðu. Hvers konar gardínur annars eru valdar fer eftir stærð rýmis og  hvers konar húsgögn eru í rýminu.  Ef rýmið er lítið þá virkar það stærra  ef notuð eru hlutlaus gluggatjöld sem verða eins og hluti af veggjum/rýminu.  Þetta verður til þess að húsgögn og aðrir hlutir  njóta sín betur.

 Lítt áberandi gluggatjöld

Þær benda á að í litlu rými sé hyggilegt að hafa gluggatjöld lítt áberandi þannig að aðrir hlutir, svo sem myndir og húsgögn, fái meiri athygli. Rými virðist stærra ef lítið fer fyrir gluggatjöldunum.  Svo kallaðar voal gardínur eru dæmi um slíkt. Voal gluggatjöld henti til dæmis oft vel fyrir glugga í íbúðum í blokkum þar sem stutt er á milli húsa vegna þess að þau draga úr innsýn í íbúðina nágranninn sér ekki inn nema ljós sé kveikt.

Tjöld sem loka sólina úti

Sólin getur upplitað áklæði húsgagna og liti mynda. Til eru margar leiðir til þess að byrgja sólina úti aðrar en þykk og mikil gluggatjöld. Rúllugardínur sem kallast skrín eru gluggatjöld sem sér í gegnum og henta vel þegar þörf er á að verjast sólinni. Einnig þjóna ,, plíseruð ´´ gluggatjöld sama tilgangi og um báðar þessar gerðir gildir að það fer lítið fyrir þeim.

 

Ritstjórn nóvember 6, 2014 14:00