Ekki ganga út frá því að það sé aldurinn

Jón Snædal

„Það er eitt sem hægt er að ráðleggja  þeim sem eru að eldast og vilja hugsa vel um heilsuna, en það er að skoða hvort það eru gegnumgangandi sjúkdómar í fjölskyldunni. Þá er rétt að athuga hvort það geti átt líka átt við um þig. Ef þú færð svimakast og pabbi þinn fékk gagnráð sextugur og föðurstsystir þín líka, væri rétt að tékka á því hvort hjartsláttartruflanir finnast einnig hjá þér“, þetta sagði Jón Snædal öldrunarlæknir í viðtali við blaðamann Lifðu núna, sem lék forvitni á að vita hvort eldra fólk ætti að fara reglulega í læknisskoðun. Á næstu vikum munum við birta fleiri viðtöl við Jón um heilsufar eldra fólks.

Leit að leghálskrabbameini hefur skilað bestum árangri

Jón er ekki sérlega trúaður á almennt heilsutékk fyrir alla sem eru komnir á ákveðinn aldur, segir að það borgi sig ekki samfélagslega. Það kosti töluverða vinnu og hún kosti sitt. „Tilvikin þar sem eitthvað áður óþekkt finnst og eitthvað er hægt að gera við því eru svo fá miðað við tilkostnaðinn“, segir hann og bætir við að menn hafi horfið frá því að vera með almennt heilsutékk, en frekar beint sjónum á ákveðna hópa og sjúkdóma. Það sem hafi skilað mestum árangri sé leit að leghálskrabbameini. Það sé sjálfsagt fyrir konur að fara áfram í slíka leit þó aldurinn færist yfir og boðið er upp á þjónustuna.

Einmanaleiki fer vaxandi meðal eldra fólks

Hann segir að það virðist líka borga sig að fylgja eftir fólki á aldrinum 75-80 ára sem  hefur verið útskrifað af spítala. Ef farið er heim til þeirra eftir nokkrar vikur frá útskrift  komi í ljós að í sumum tilvikum hafi útskriftin ekki verið nægilega vönduð. Það hafi ekki verið farið nægilega vel yfir það sem þarf að gera þegar heim er komið, eða að sjúklingurinn hafi ekki veitt ráðleggingunum næga athygli. „Annar hópur sem verið er að horfa á er fólk 75 ára og eldra sem býr eitt. Einmanaleiki fer vaxandi hér meðal eldra fólks. Hann hefur verið minni hér en annars staðar, fjölskylduböndin hafa verið sterkari, en það er að breytast og við að verða líkari öðrum þjóðum“, segir Jón.

Skoðaðu sjúkdóma sem liggja í ættinni

„Ef þú færð óþægindi, ekki gagna út frá því að það sé aldurinn. Láttu athuga það“, segir Jón. Stundum geri menn það ekki vegna þess að þeir telji að þetta séu bara aldurstengdir kvillar. „Það er sjálfsagður réttur manna að leita til læknis og leita svara við sínum spurningum“, segir Jón og ítrekar að það sé mikilvægt  fyrir menn að skoða hvort sjúkdómar liggi í ættinni og hvort þeir eigi sjálfir á hættu að fá þá. Það sé ástæða til að horfa til þessa og margt sem hægt sé að gera til að grípa inní.

 

Ritstjórn september 25, 2019 08:02