Hnyttni og hlýja en depurð undir niðri

Eru foreldrar alltaf færir um að taka ákvarðanir sem eru börnunum þeirra fyrir bestu? Sú áleitna spurning situr eftir þegar lestri smásagnasafnsins Herörin og fleiri sögur eftir Ólaf Gunnarsson er lokið. Þetta eru tólf stuttar og hnitmiðaðar smásögur, einstaklega vel skrifaðar en sagan af húsgagnasmiðnum sem fer með dóttur sína í hvalaskoðun sú áhrifamest. Stíll bókarinnar er fremur lágstemmdur og einhver harmrænn tónn undir niðri. Það er ekki laust við að lesandinn skynji einhverja nostalgíu í sumum þessara sagna, þrá eftir einfaldari tíma þegar leikir barna gátu haft alvarlegar afleiðingar en voru samt lausir við illkvittni og hatur.

Ólafur er oft hnyttinn og skemmtilegur og textinn einkennist af mennsku og hlýju. En eftir lestur þessarar bókar situr meira eftir þessi eftirsjá, löngun manna til að gera vel í samskiptum, standa sig en ná einhvern veginn aldrei fyllilega þeirri tengingu sem þeir vonast eftir.

 

 

Ritstjórn desember 15, 2023 10:00