Höfum það huggulegt í vetur

Kristín Linda Jónsdóttir

Kristín Linda Jónsdóttir hjá Huglind er sálfræðingur, fyrirlesari og aðstoðarfararstjóri hjá Skotgöngu. Hún tekur á móti einstaklingum í sálfræðimeðferð, handleiðslu og ráðgjöf bæði í Reykjavík og Selfossi og heldur námskeið og fyrirlestra hérlendis og erlendis.

 

Huggulegur lífsstíll snýst um að vera sjálfum sér góður, að hlúa að sér og að skapa notalega nærandi samveru fyrir sig og sína. Í bókinni, The little book of hygge, the Danish way to live well, eftir Meik Wiking framkvæmdarstjóra Hamingjurannsóknarstöðvarinnar í Kaupmannahöfn sem hefur árum saman rannsakað hamingjuna og danska lífsstíl, er fjallað um hygge, skoðum það aðeins nánar.  Greinin er líka byggð á bókinni, How to Hygge, the secrets of Nordic living og fjölda greina og síða á veraldarvefnum.  

Hygge snýst um einfaldleika, friðsæld, notalegheit og góðvild. Kertljós, mat, drykk, fatnað, heimili og húsbúnað. Að gefa sér tíma til að njóta þess sem er og gera það notalegt og nærandi, upphefja það meðvitað fyrir grámann og hversdagsleikann og gefa því gildi.

Kertaljós

Danir, sem fremsti fara í huggulegheitum, nota meira af kertum en nokkrir aðrir Evrópubúar eða um sex kíló á mann á ári. Það er um það bil helmingi meira en næsta þjóð sem eru Austurríkismenn. Kerti eru því sannarlega hluti af danskri menningu enda kveikir um þriðjungur dana á kertum daglega og 70% kveikja á þremur kertum eða fleirum í einu. Það sem er áhugavert við kertanotkunina í þessu hamingjusamasta landi heims er að athöfnin sjálf, að kveikja á kertum heima hjá sér, er vitnisburður um þá ákvörðun að skapa sér, eða sér og sínum, notalegt andrúmsloft, að gefa stundinni ljós, að virða sig og heimili sitt svo mikils að kveikt er á fallegum kertum. Það er gert, ekki bara stöku sinnum heldur flesta daga. Að merkja stundina sem huggulega og mikilvæga gæðastund með lifandi ljósum á fallegum kertum er því eitt af lykilatriðum þess að stunda huggulegan lífsstíl.

Einvera og samvera

Það er dásamlegt að hafa það huggulegt með sjálfum sér. Njóta þess sem er, kyrrðar, tónlistar, fegurðar, útsýnis, rósemdar, bókmennta, matar, drykkjar, handavinnu eða hvers sem þú kýst til að skapa þér notalega stund ein, heima eða að heima. Höfum það hugfast að í erilsömum heimi er einvera dýrmæt en líka að sækja sér félagsskap, það er jafnvægið sem gildir.

Hugguleg samvera snýst um að vera saman í notalegheitum og rósemd. Ekki geggjað stuð, dúndrandi tónlist, eða uppskrúfuð boð þar sem allir reyna að vera flottastir, fyndnastir eða merkilegastir.  Að hygge saman snýst um að njóta nærveru á afslappaðan hátt í öruggu notalegu umhverfi. Enginn reynir að taka sviðið, einoka umræðuna eða knýja fram einhverja skoðun eða niðurstöðu. Danir kjósa oft að hafa það huggulegt með fáum því að 80% af dönsku hygge snýst um samveru fjögurra eða færri einstaklinga. Höfum það huggulegt, með sjálfum okkur, einum vini, maka eða ættingja, tveimur eða þremur, það þarf ekki meira.

Að njóta matar og drykkjar

Hluti af hygge er að leyfa sér og njóta þess að gæða sér á einhverju góðu. Danir elska gott kjöt og hika ekki við að fá sér við og við smá sætindi. Það er bæði huggulegt að baka köku og borða köku ef það er gert í rólegheitunum af gleði.  Það sama má segja með að baka brauð eða búa til súpu. Ef þú og þínir eruð að hittast til að vinna saman verkefni endilega gefið ykkur tíma til að njóta saman einhverskonar máltíðar líka, það er jú svo huggulegt og nærandi. Við erum spendýr og það er í eðli okkar að hafa þörf fyrir umbun, eitthvað gott í munni þegar við á, það er bókstaflega nauðsyn fyrir góða líðan, heilsu og hamingju.

Heitir drykkir eru stór þáttur í hinu danska hygge, um 90% dana telja þá tilheyra huggulegum stundum. Kaffi í fallegum bolla, heitt súkkulaði í litríkri krús, ilmandi te eða einhverskonar glögg, hlýja, ilmur og gott bragð, sannarlega ávísun á góða stund.

Klæðnaður

Hluti af hygge lífsstílnum er klæðnaður. Að eiga og nota sína hyggesokka, peysu, sjal, trefil og buxur.  Danir segja að hlýtt, fallegt, mjúkt, sjal eða trefill til að vefja sig inn í sé nauðsyn á huggulegum stundum. Stórar mjúkar peysur helst persónulegar handprjónaðar eða einmitt sú sem þér finnst vera; Þín peysa. Sokkar og huggulega hlýjar heimabuxur eða kjóll er málið. Athugið að rannsóknir sýna að það dregur úr streitu að klæða sig úr vinnufötum, eða eins og sagt er í norðlenskri sveit, af bæjar fötunum, þegar heim kemur. Svo endilega, komið ykkur upp eða finnið til ykkar huggulegheita föt sem eru bæði þægileg, hlý, mjúk og falleg. Ekki nota bara gamla blettóttabolinn og margþvældu slitnu jogingbuxurnar. Njóttu þess að koma þér upp fallegum notalegheita fötum.

Heima og úti

Danir upplifa 71% af sínum huggulegu stundum heima svo heimilið er því aðalsviðið þegar kemur að huggulegheitum. Þá skiptir leikmyndin auðvitað máli. Í fyrsta lagi skiptir lýsing máli, að lýsa heimili sitt með mörgum fallegum ljósu, lömpum að ýmsum gerðum fremur en einu loftljósi. Það snýst ekki eingöngu um að mörg minni ljós skapa huggulegri lýsingu heldur líka um athöfina, að koma heim og ganga um híbýli sín og kveikja á lömpunum til að skapa notalegt umhverfi og taka eftir því, það er að hygge. Gleymum ekki heldur að nýta okkur tónlist til að skapa huggulegheit og stemming. Fyrir margar er lestur hluti af huggulegum lífsstíl, list og handverk er nærandi bæði til að njóta og við að skapa. Við erum öll börn náttúrunnar og útivera í ómanngerðu umhverfi, náttúrunni, geri okkur gott. Huggulegi lífsstíllinn úti við snýst um að njóta notalegar streitulausra stunda úti árið um kring. Að fara í rólegar gönguferðir í núvitund, taka eftir því sem er, landslaginu á himni og á jörð, gróðri hver sem árstíðin er, landi og hafi. Njóta stefnulausrar útivistar fremur en að komast á ákveðin fjallatopp eða klára ákveðin hring.

Góðar stundir, hugglegheit eru mikilvægar fyrir heilsu okkar, líðan og lífsgæði. Hikum ekki við að setja þær á dagskrá og venjum okkur á að breyta venjulegum gráum hversdagsstundum í huggulega upplifun. Setja jákvæðan merkimiða huggulegheita á stundina, þakka fyrir hana, njóta hennar og tala um hana og minnast hennar af virðingu og gleði. Einmitt síðasta mánudagskvöld þegar þú hafði það svo huggulegt heima, útbjóst þér sítrónute og drakkst það úr fallega tebollanum sem þú fékkst frá ömmu, undir teppinu sem þú keyptir af gömlu konunni á markaðnum á dvalarheimilinu í sokkunum sem þú sjálf prjónaðir í fyrra og um leið hlustaðir þú á franska kaffihúsatónlist og dundaðir við að hekla röndótta borðtusku.

Kristín Linda Jónsdóttir nóvember 1, 2024 07:00