Hrífandi saga af snilligáfu og stórum harmi

Tónlist hljómar og seiðir lesandann gegnum bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Kvöldsónatan.  Í þessari sögu er harmrænn blær, þótt ekki sé ljóst til að byrja með hvers vegna aðalsöguhetjan sé þjökuð af sorg. Ólafur Jóhann skrifar alltaf einstaklega fallegan texta og persónur í þessari bók eru margræðar og athyglisverðar.

Kvöldsónatan segir sögu Stefáns Hinrikssonar, valdamikils og eftirsótts tónlistarkennara eða kannski er réttara að kalla það ráðgjafa sem starfar aðeins með þeim allra færustu í heiminum. Hann er kallaður heim til Íslands vegna þess að kona hans liggur fyrir dauðanum en fjölskyldan hefur verið sundruð um árabil. Stefán og Pétur, sonur hans, talast ekki við en sonardóttirin Birta tekur á móti afa sínum á flugvellinum og reynir að vera honum innan handar.

Stefán er aðeins sjö ára þegar vendipunktur verður í lífi hans. Hann liggur í mislingum og fylgist með herflutningabíl á vegum föður hans flytja flygil inn í húsið handan götunnar. Stefán dregst ómótstæðilega að hljóðfærinu og ekki síður að konunni sem spilar á það. Hún er erlend, Ester Daudistel gömul vinkona foreldra hans en þau hjónin eru komin til Íslands eftir miklar raunir í seinni heimstyrjöldinni. Ester fer að kenna Stefáni á píanó og hann kemst síðan inn í virtustu tónlistarskóla heims og er á leið á hæstu tinda í sínu fagi þegar allt breytist.

Sagan flakkar fram og aftur í tíma og við kynnumst jafnhliða barninu Stefáni sem er heillaður af tónlistinni og kennara sínum, unglingnum með framtíðina fyrir sér, unga manninum, fjölskylduföður með mikinn metnað og gamla einangraða manninum sem heldur sér virkum með járnaga. Ólafur Jóhann er afburðahöfundur og honum tekst einstaklega vel í þessari sögu því hann skapar með lesandanum djúpa samúð með persónum bókarinnar, líka aðalpersónunni þótt margt í hennar fari sé ekki til þess fallið að vekja samlíðan.

Ólafur Jóhann fæddist í Reykjavík þann 26. september 1962. Hann lærði eðlisfræði í Brandeis-háskóla í Massachusettes en þar vakti hann athygli forstjóra Sony sem réð hann til fyrirtækis síns strax að loknu námi árið 1985. Áratug síðar settist hann í sæti aðstoðarforstjóra Sony í Bandaríkjunum og var gerður að forstjóra margmiðlunardeildar fyrirtækisins. Hann átti meðal annars þátt í því að þróa geisladiskinn og undir forystu hans hleypti fyrirtækið af stokkunum PlayStation leikjatölvunni. Ólafur Jóhann hélt áfram að skrifa meðfram störfum sínum í viðskiptaheiminum. Árið 1996 tók hann að sér að veita forstöðu fjárfestingafyrirtækinu Advanta en sagan Lávarður heims var gefin út það sama ár. Síðar varð hann annar tveggja æðstu yfirmanna TimeWarner Digital Media og vann að samruna þess fyrirtækis og America Online. Þar myndaðist fyrirtæki sem var það stærsta sinnar tegundar í heiminum á þeim tíma. Þrátt fyrir annir sem þessu fylgdu gaf hann sér tíma til að skrifa.

Afrek hans á bókmenntasviðinu eru ekki síðri og þess má geta að hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2006 fyrir smásagnasafnið, Aldingarðinn, O‘Henry-verðlaunin árið 2007 en þau eru kennd við bandarískan smásagnahöfund. Þetta var fyrsta sinn sem Íslendingur hlýtur þessi verðlaun en meðal fyrri verðlaunahafa eru Ernst Hemingway, William Faulkner, JD Salinger og fleiri snillingar. Ólafur hlaut verðlaunin fyrir smásöguna Apríl úr smásagnasafninu Aldingarðinum. Undanfarin ár hefur Ólafur Jóhann að mestu helgað sig ritstörfum. Honum er einkar lagið að segja sögur og hefur sagt í viðtölum að hugmyndir að söguefnum komi víða að og persónur stundum byggðar á bræðingi af því fólki sem hann hefur hitt á lífsleiðinni. Ólafur Jóhann er kvæntur Önnu Ólafsdóttur og þau eiga þrjú börn.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.