Hryggurinn getur bilað

Það eru yfir 30 liðir í hryggnum.

Það eru yfir 30 liðir í hryggnum.

Halldóra Sigurðardóttir sjúkraþjálfari í Hveragerði stendur upp við töfluna í kapellunni þar og flytur fyrirlestur um hrygginn sem er okkur alveg lífsnauðsynlegur. Um 20 manns fylgjast með af athygli, sumir hafa vafið um sig teppi. „Hryggurinn er burðarás okkar mannanna og eitt stærsta hlutverk hans er að verja mænuna“, segir hún.

Brjósklos

En það er ýmislegt sem getur bilað í hryggnum og má þar nefna t.d. brjósklos og slitgigt.   Á milli hverra tveggja hryggjarliða er brjóskþófi sem veitir heilmikla fjöðrun og eykur hreyfanleika hryggjarins. Ef hann gefur sig, eins og við brjósklos, þá lekur mjúkur kjarni brjóskþófans út fyrir harðara yfirborð hans og það myndast gúll. Það veldur oftast miklum sársauka vegna þrýstings á taug, en þó ekkert sé að gert jafnar þetta sig oftast á 6-12 vikum með réttri meðferð til dæmis í  sjúkraþjálfun með áherslu á rétta líkamsbeitingu að sögn Halldóru.

Hægt að fara í aðgerð

Hún segir jafnframt að það sé hægt að fara í aðgerð til að lagfæra brjósklosið þar sem áðurnefndur gúll er þá fjarlægður, en því fylgi alltaf einhver áhætta. Þá minnkar verkurinn hins vegar fyrr og fólki líður oft strax miklu betur. En þá er hætta á að fólk fari að reyna of mikið á sig of snemma og það taki jafnvel lengri tíma fyrir það að jafna sig. En rétt meðferð og réttar æfingar eru lykilatriði til að ná árangri, að sögn Halldóru, hvort sem gerð er aðgerð eða ekki.

Slitgigt í hryggnum sársaukafull

Menn geta líka fengið slitgigt í hrygginn. Í honum eru margir litlir liðir, svokallaðir smáliðir, og þar getur brjósk á liðflötum byrjað að eyðast. Ef brjóskeyðingin verður mikil þá fara beinendarnir á liðflötunum að nuddast saman og veldur það yfirleitt sárum verk. Ef slitið heldur svo áfram að þróast fara beinendarnir gjarnan að festa sig saman „ Það veldur því að hreyfingin í hryggnum verður stirðari en verkirnir minnka“ segir Halldóra.

Vera meðvitaður um rétta líkamsbeitingu

 Hún segir að eðlileg og hæfileg hreyfing sé góð til að næra brjóskið og verja það gegn slitgigt. „Það er mikilvægt að hreyfa sig til að styrkja vöðvana sem styðja við hrygginn og halda blóðflæði og hreyfigetu eins eðlilegu og hægt er“, segir hún. Þeir sem búa við mikið líkamlegt álag eru í meiri hættu á að fá slitgigt. Því er mikilvægt að hafa góða líkamsvitund og vera meðvitaður um rétta líkamsbeitingu.   En Halldóra segir að jafnvel þó menn fari alveg eftir bókinni, hreyfi sig og borði hollt, geti þeir fengið slitgigt. En þá sé það ef til vill spurning um erfðir.

 

Ritstjórn mars 30, 2015 11:25