Þegar aldurinn tekur að færast yfir flytja margir utan af landi í borgina. Þessu er öfugt farið hvað varðar Sigrúnu Láru Shanko. Hún og maðurinn hennar, Finnbogi Rútur Þormóðsson, fluttu árið 2019 til Vopnafjarðar en þar átti Sigrún skyldmenni og hafði ætíð heillast af staðnum. Hún er enn jafn heilluð þótt veturnir geti verið langir og hún hafi orðið að takast á við erfið veikindi. Sigrún er myndlistarmaður og koma hennar í þorpið hefur skilað sér í margvíslegum menningarverkefnum en ekkert lát er á sköpunarkraftinum að hennar sögn.
Fyrst af öllu væri áhugavert að vita hvernig það kom til að þið yfirgáfuð borgina og fluttuð austur á Vopnafjörð.
„Ástæðan fyrir því að við fluttum hingað er að ég erfði hús frænda míns, Gunnars Albert Ólafsson,“ segir hún. „Húsið heitir Glæsibær og er eitt af elstu húsum hér í bænum. Hann dó blessaður vorið 2019 og ég er flutt hingað í september sama ár og svo kom maðurinn minn á eftir mér. Við áttum stóra íbúð í borginni og seldum hana ári seinna.“
Þið hafið þá verið sátt við að búa í þorpi út á landi. Var eitthvað sem þið söknuðuð úr borginni.
„Nei ekki mikið. Við byrjuðum að heimsækja frænda einu sinni á ári upp úr 2010 eins og við gátum. Við elskuðum að vera ekki með internet og ekki tengd neinu nema fegurðinni hérna. Hann var frá Leiðarhöfn og það var alltaf skundað þangað um leið og við komum og dvalið þar nær allan daginn. Við gistum svo hjá honum hér inni í þorpi. Við fundum strax þá hversu yndislegt er að vera hérna. Þetta er svo rólegt og ofboðslega fallegt hérna.“
Kaupmaður byggði fyrir ástkonu sína
Glæsibær á sér merka sögu og meðan Sigrún var að fara í gegnum gamla muni sem fylgdu húsinu kviknaði áhugi hennar á að kynna sér hana.
„Ég rakst á skrif frá Sigurbjörgu, mömmu Gunnars, þar sem hún talar um að húsið sé byggt á grunni húss sem afi hennar bjó í. Ég varði tveimur mánuðum í að skoða þetta og leitaði heimilda meðal annars á Héraðsskjalasafni Austurlands og í kirkjubókum og víðar. Og mikið rétt húsið er byggt af kaupmanni frá Eskifirði árið 1836. Hann barnaði unga vinnukonu en lét vikapilt sinn gangast við barninu. Það var hins vegar vitað að hann var faðirinn og hann lét reisa hús handa henni. Það var einlyft með torfþaki og kjallari undir og hét Fjón. Við fundum gaflinn á gamla húsinu þegar Finnbogi var að einangra hér uppi á efri hæðinni þá sást greinilega munurinn á timbrinu í gamla húsinu og því sem bætt var ofan á árið 1905. Það var eins og splunkunýtt.“
Í ljósi þessa er spurning hvort Glæsibær teljist ekki elsta hús Vopnafjarðarkaupstaðar. Kaupvangur var byggður árið 1882 en hreppurinn gerði það hús upp fyrir nokkrum árum og það þykir mikil bæjarprýði. Sigrúnu var einnig mjög umhugað um að varðveita allt sem hægt var í svo gömlu húsi. Margvísleg skjöl og einkabréf fylgdu húsinu og það var farið í gegnum það allt.
„Ef eitthvað hafði sögulegt gildi sendum við það upp í Burstarfell, á Héraðsskjalasafn Austurlands og til Minjastofnunar en mörgu var hent eins Gunnar frændi vildi. Einkabréf milli Sigurbjargar og ömmu geymdi ég vegna minningarinnar um ömmu. Við reyndum að halda í allt sem hægt var, erum til dæmis enn með gömlu eldhúsinnréttinguna þótt hún sé óskaplega lág.“
Er í öruggum höndum
En skömmu eftir að Sigrún flutti austur veiktist hún. Hefur það ekkert verið erfitt? „Nei, ég greindist aftur með krabbamein sumarið 2022 og við erum með frábæran lækni á sjúkrahúsinu á Akureyri. Maður skutlast það bara, tveir og hálfur tími aðra leiðina,“ segir hún hlær. „Þjónustan hér fyrir norðan og austan er fyrirtak. Við erum með alveg frábæran héraðslækni og milli þeirra tveggja og hjúkrunarliðsins er ég í mjög öruggum höndum. Ég hef þurft að fara með sjúkraflugi og var komin inn á sjúkrahús klukkutíma eftir að kallið kom frá héraðslækninum.“
En hvernig gengur meðferðin? „Nú greindist þetta ólæknandi og við erum bara að reyna að halda þessu í skefjum. En þetta er töff eins og allir vita sem hafa gengið í gegnum krabbamein. En á meðan reyni ég að gera eitthvað og það var nýbúið að kjósa mig í sveitarstjórn eða þremur vikum áður en ég greindist. Ég náði að sitja nokkra fundi áður en ég varð að biðjast lausnar vegna veikinda.“
Kynntist köttunum fyrst
Listin hefur hins vegar ekki veitt Sigrúnu neina lausn. Hún hefur unnið fjölmörg áhugaverð verkefni þrátt fyrir veikindin og lagað vinnu sína að þeim eftir bestu getu. Undanfarið hefur hún unnið að vatnslitamyndum og tvær þeirra voru á samsýningu í safnaðarheimili Vopnafjarðarkirkju meðan Vopnaskak stóð yfir frá 11.-14. júlí. Hefur sköpunarkrafturinn ekkert minnkað?
„Nei, ef eitthvað heldur fyrir mér vöku þá eru það hugmyndir,“ segir hún skellihlæjandi. „Ég byrjaði nú á því, vegna þess að ég þekkti hér engan nema gesti úr tveimur jarðarförum og það var mest sama fólkið, að kalla eftir myndum af köttum. Ég vann svo eftir þeim ljósmyndum lágmyndir í þæfða ull. Það var mjög gaman þótt ég þekkti kettina áður en ég kynntist fólkinu. Ég hélt svo sýningu á þeim myndum.
Næsta verkefni vildi ég að væri samvinnuverkefni og menningartengt. Ég fékk styrk til að gera það sem ég kallaði smáheima íslenskra þjóðsagna. Hugmyndin var að vinna níu sviðsmyndir í þrívídd, platan var 40×40, og síðan var tekin sviðsmynd úr þjóðsögu og smellt þar á. Til þess að skapa hana endurnýtti ég og endurskapaði úr margvíslegum endurvinnsluefnum sem annars hefði verið hent. Við gerðum tíu þjóðsögur, þar á meðal Búkollu, Gilitrutt, Gullna hliðið, Veiðidellu kölska og svo datt Ólafur Liljurós þarna inn þótt hann hafi aðeins varðveist í bundnu máli. Til að tengja mig við Austurland var líka þarna á meðal Huldumaðurinn í Sunnudal og Lagarfljótsormurinn. Ég reyndi að velja tröllasögu, álfasögu og trúartengt efni. Ég fékk örfáa Vopnfirðinga til að vera í þessu með mér en við enduðum tvær. Þetta komst á legg og hefur verið standandi sýning á myndunum úti í Kaupvangi frá því við lukum verkunum.
Ég spurðist síðan fyrir um hvort menn hefðu áhuga á að ég myndi vinna með krökkunum hérna að útilistaverki. Það fyrsta sem við gerðum voru vindfiskar, það eru vindhanar. Ég vann þetta með Baldri Hallgrímssyni smíðakennara Vopnafjarðarskóla en krakkarnir mótuðu fiska úr girðingavír og hænsnanet strengt yfir grindina. Að lokum var alls konar endurunnu dóti komið fyrir inni í netinu. Fiskarnir voru svo festir á staura sem voru reknir niður hérna úti á túni. Þetta gafst svo vel að árið eftir komu Hnettir. Þeir eru úr gulu plastnetakúlunum sem liggja hér víða. Fólk hefur verið að safna þeim saman og við tókum þá og fengum postulín hjá Hirðfíflunum. Þau eru sambærileg við Góða hirðinn en nafnið kom til vegna þess að talað var um að það væru algjör fífl sem færu að hirða eitthvað drasl. Við fengum leirtau hjá Steinunni sem sér alfarið Hirðfíflin. Þetta hafði ekki gengið út og hún legið með það árum saman. Krakkarnir fengu það og Kiwanisklúbburinn gaf þeim öryggisgleraugu og svo var byrjað að brjóta postulín og búa til mósaikmyndir á netakúlurnar. Þetta var mjög gaman og þau skemmtu sér mjög vel krakkarnir. En í ár var ekkert. Ég treysti mér ekki til þess.“
Hefur sýnt víða og á verk um allan heim
Sigrún er gríðarlega fjölhæfur listamaður og hefur fengist við margt. Öll hennar verkefni eiga það sameiginlegt að vera sprottin úr íslenskum menningararfi og henni tekst á frumlegan hátt að nýta ótal minni úr Íslendingasögum og þjóðasagnaarfinum. Hún málaði á silki og bjó til bæði veggmyndir og púða og þau verk hennar er víða að finna. Meðal hennar glæsilegustu og þekktustu verka eru teppi úr ull sem hún vann með aðferð sem kallast tuft á ensku en með því eru myndaðir gríðarlega endingargóðir og sterkir hnútar. Í þessi teppi fangaði Sigrún jökla, eldgos, hraunelfur og svarta sanda. En undanfarið hefur hún einbeitt sér að vatnslitamálun.
„Ég sýndi í Hjáleigunni á Burstarfelli í fyrra,“ segir hún. „Það var svona draumkennt landslag aðallega unnið í akrýl og olíukrít á blaðgyllingu. Sú sýning fór svo áfram til Skriðuklausturs. Það var mjög gaman að fá að sýna þar. Það er svo gríðarlega fallegt þar. Ég hef líka verið með námskeið hérna, bara svona lítil og létt fyrir fólkið sem hefur áhuga. Brim keypti eitt húsanna hér, Fiskhúsið, það er gamalt danskt fiskihús. Því hefur verið breytt og það stækkað og notað undir margvíslega starfsemi, verið bílaverkstæði og ég veit ekki hvað og hvað. Þar erum við núna, Steinunn með Hirðfíflin og ég með vinnustofuna mína. Þar er einnig almenningur þar sem ég get verið með borð og stóla og boðið fólki að koma og vera með vatnsliti eða akrýl. Það er beðið eftir næstu námskeiðum.“
Teppin sýndi Sigrún meðal annars í sendiráðum Íslands í London og Helsinki og á hönnunarviku í Flórens á Ítalíu. Þar vöktu þau gríðarlega athygli einkum vegna andstæðnanna sem í þeim birtust, það er annars vegar teppi sem sýndi hraunrennsli og hins vegar jökul. Hún sýndi einnig á einni stærstu hönnunarsýningu í Evrópu, 100% Design í London. Konunglega arkitektastofnun Bretlands eða the Royal Institute of British Architects hefur mælt með teppunum hennar og talað um hve heillandi hönnun hennar er. Sigrún lærði fyrst handverk af ömmu sinni, þá sex ára. Hún byrjaði að mála á silki þegar hún bjó í Bretlandi á níunda áratugnum. Verk hennar hafa farið víða og kaupendur frá Kanada, Kína, Bandaríkjunum og Bretlandi hafa keypt af henni. En er hún eitthvað á leið til Reykjavíkur aftur?
„Nei, nei, nei,“ segir hún ákveðin. „Við förum annað slagið suður. Ég held ég fari svona tvisvar á ári til Reykjavíkur. Það er langt að keyra og flugið rándýrt en þegar við komum suður bíður maður eftir að komast austur aftur. Við erum orðin þannig bæði hjónin. Maður er farinn að læra á þetta. Veturnir eru langir og ekki kemst alltaf ferskvara eins og mjólk og brauð hingað daglega. Maður birgir sig bara upp. En mér leiðist ekki þvert á móti er alltaf nóg að gera.“
Bar sjálf teppin sín í Kína
Áður við skiljum við Sigrúnu er gaman að rifja upp ævintýraferð hennar til Kína með teppin sín. Hún sagði frá þessu í viðtali við undirritaða fyrir nokkrum árum.
Í Kína kom margt á óvart. Sýningin var haldin í húsnæði í elsta hluta Peking og ekki nokkur leið að koma við nútímaökutækjum vegna þrengsla. Sigrún bar því, ásamt sendiráðsstarfsmanni, teppin nokkurn spöl að sýningarhúsnæðinu. Heimamenn horfðu á og voru einstaklega hrifnir af því að útlendingar skyldu kjósa að bera sínar byrðar sjálfir. Hitinn var einnig óbærilegur en Sigrún kom beint frá London og ekki alveg undir hann búin. „Já, ég kom beint af flugvellinum í burðinn, uppáklædd í betri fötin svo óhætt er að segja að vinnuklæðnaðurinn hafi líka vakið athygli,“ segir hún og hlær. „En fólkið var einstaklega vingjarnlegt og sýningin tókst frábærlega vel.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.