Hef alltaf litið á leirinn sem tækifæri

Í Hafnarborg er glæsileg yfirlitssýning á verkum Jónínu Guðnadóttur myndlistarmanns en sýningin spannar 30 ár af ferli hennar og inniheldur margbreytileg listaverk, auk þess sem má finna nytjalist Jónínu í einu rýminu. Samhliða sýningunni var gefin út bók um feril og list Jónínu en sýningin stendur til 29. apríl. Jónína hefur ávallt verið ötull listamaður og haldið margar sýningar í gegnum árin. Hún segist fara daglega á vinnustofuna, setjast við bekkinn af og til og renna.

Jónína ólst upp á Akranesi, tók gangfræðipróf þar en fór árið 1960 til Reykjavíkur í Myndlista- og handíðaskólann. Þaðan fór hún í Myndlistarskóla Reykjavíkur og samhliða því vann hún í Glit við skreytingar. „Ég fór alltaf í sveit á sumrin að Borgarfelli í Skaftártungu, var í níu sumur í sveit, frá fjögurra ára aldri. Ég varði fallegasta tíma ársins í Skaftártungunni, var frá maí, júní og fór heim eftir réttir. Maður vildi vera fram yfir réttir þegar maður fór að hafa vit. Þetta var yndislegt og þegar maður fer að vinna úr minningum sínum þá kemur þetta upp, bæði leikurinn á Akranesi í fjörunni og í sveitinni. Manni var treyst svo vel í Skaftártungu þannig að þetta mótaði mig svo sannarlega. Þegar ég var komin á þessa framhaldsbraut þá fann ég hvaða leið ég vildi fara. Ég hafði alltaf verið góð í teikningu og skapandi vinnu og ég gerði mér grein fyrir að þetta væri líklega leiðin og það átti eftir að sanna sig,“ segir Jónína.

Gilt suðupunktur fyrir unga myndlistarmenn

Ragnar Kjartansson sem stofnaði Glit var skólastjóri Myndlistarskóla Reykjavíkur og Jónína segir að hann hafi valið nemendur sem honum leist á og boðið þeim vinnu í Glit.

„Glit var nokkurs konar suðupunktur fyrir unga myndlistarmenn. það var óskaplega gaman að vinna þar. Allir komu þar við, sérstaklega á föstudögum og fólk spáði í hvað ætti að gera um helgina og svo höfðu margir listamann unnið þar, t.d. Dieter Roth, Jón Gunnar, Magnús Pálsson, Hringur Jóhannesson, Þorbjörg Höskuldsdóttir, Ragnheiður Jónsdóttir, Steinunn Marteinsdóttir og fleiri. Þetta var eiginlega eini staðurinn þar sem maður gat fengið vinnu sem tengdist myndlist. Glit var langstærsta gjafavörufyrirtækið á þessum tíma en þá var ekki flutt eins mikið inn og er í dag. Steinunn var hætt í Glit þegar ég kom þangað og einnig Dieter og Magnús Pálsson en þau mörkuðu sín spor í listalífið og Dieter Roth markaði djúp spor í þróun íslenskrar myndlistar að mínum dómi.“

Jónína segist lítið hafa unnið með leirinn í Glit, hún vann við að skreyta muni, en þótti leirinn heillandi. „Mér þótti þetta svo yndislegt efni og sá það eiginlega í hyllingum. Ég reyndar fékk að renna í Glit og var sagt að ég yrði að læra að renna til að geta búið til bolla og einhverja hluti en það var ekki endilega það sem vakti fyrir mér. Mér fannst bara efnið svo yndislegt. Þegar ég var smákrakki gengum við pabbi á Langasandi og hann var að sýna mér bakkann og þar var leirlag. „Þetta er leir og úr honum er hægt að móta“ sagði hann. Ég man að mér þótti þetta svo ævintýralegt og fór þarna oft til að ná mér í smá leir. Þarna kviknað eitthvað,“ segir hún.

Jónína var í þrjú ár í Glit en um tvítugt fór hún í nám í Svíþjóð og útskrifaðist frá Kostfack í 1967 eftir fjögurra ára nám með afburðaárangri. Á námstímanum fékk hún styrki og var verðlaunuð við útskrift fyrir leikskúlptur fyrir börn úr trefjaplastseiningum sem hægt var að raða saman á marga vegu. „Verðlaunin voru að fá að stunda sjálfstæða vinnu með aðgangi að efni, vinnustofu o.fl. auk þess að stökkva inn í kennslu ef kennari forfallaðist.

„Ég ákvað svo að setja upp mitt eigið verkstæði þegar ég kæmi heim, það var í raun enginn annar útgangur úr náminu. Maður þyrfti að kaupa allan leir á haustin fyrir frost svo efnið yrði ekki ónýtt. Það var ekki hægt að fá smáhráefni sem maður þurfti á að halda, það var þá helst að fara i einhverja efnaverksmiðju eins og Málningu. Mitt fyrsta verkstæði var á Skólavörðustíg í kjallara en ég var ekki með ofn. Ég kannaðist við menn í Sindra og fékk að brenna þar, það var mikið fyrir þessu haft.“

Á þessum tíma hafi Jónína kynnst eiginmanni sínum Kristjáni Linnet lyfjafræðingi. Hún fékk betra húsnæði og styrk úr Iðnlánasjóði og smíðaður var ofn í Rafha en hann byggður í vinnuaðstöðu hennar í Gnoðarvogi þar sem hún var í tvö til þrjú ár. Þá var Kristján var kominn út til Danmerkur í framhaldsnám og hún fór ári seinna út með dæturnar tvær, Helgu Kristínu og Svönu Huld og var þar í tvö ár, en seinna bættust svo Áshildur og Úlfar við. Í Danmörku vann Jónína á mismunandi verkstæðum og segir það hafa verið mikilvægt. „Mér fannst svo fróðlegt að sjá eitthvað nýtt og læra hvernig maður ætti að reka verkstæði. Þetta var bara mjög mikilvægur tími fyrir mig,“ segir hún.

Tengsl í listalífið mikilvæg

Aðspurð segir Jónína að listaheimurinn hér hafi verið mjög ólíkur því sem hann er núna þegar hún kom úr námi. „Hann var náttúrlega allt öðruvísi. Í mínu tilfelli var ég að komast inn í hlutina þegar ég fór aftur út, maður missti svolítið tengslin og þurfti að byggja þau upp aftur. En fljótlega eftir að ég kom heim var stofnuð keramíkdeild í Myndlista- og handíðaskólanum og þá náði maður að halda utan um gömlu kunningjana en listaheimurinn var nú mjög vinavæddur. Maður þurfti helst að þekkja einhverja góða til að komast eitthvað áfram. Öll aðstaða fyrir myndlistarmenn var milku verri en hún er í dag og svo breytir þessi netvæðing svo miklu. Maður þurfti að láta prenta boðskort, skrifa á þau og fara með í póst. Það voru miklu færri sem vissu af sýningunum en aftur á móti voru mörg dagblöð og ef maður var með sýningu þá komu blaðamenn frá öllum dagblöðum sem er ekki í dag, þannig að þetta fréttist. Það var kannski hátíðlegra að fá boðskort og fólk skilaði sér vel sem fékk slíkt. Aðstæðurnar eru svo breyttar, það er eiginlega ekki hægt að líkja þessu saman. Ég tók þátt í að stofna Gallerí Grjót sem var neðst á Skólavörðustíg í kringum 1982 ásamt öðrum listamönnum. Við ákváðum að hafa blöndu en þarna voru gullsmiður, fatahönnuður, listmálari,  t.d. Magnús Tómasson, Örn Þorsteinsson, Hjördís Gissurar, Ragnheiður Jónsdóttir, Malín Örlygs o.fl. Ég hélt nokkrar sýningar þarna og öll tengsl efldust. Ég fór svo að vinna í félagsmálum í FÍM og gekk í Myndhöggvarafélagið, en með því að kynnast fólki í faginu koma tengslin og svo seldi ég nytjalist í Íslenskum heimilisiðnaði. Konurnar þar voru með muni frá mér í gluggaútstillingum og gerðu mjög vel við mig,“ segir Jónína.

Allt hægt að gera í leir 

Þú hefur verið mjög ötul í gegnum árin, verið í nytjalist og haldið margar sýningar og gert verk fyrir stofnanir, hvaðan færðu innblástur? „Ég hef aldrei verið með einkasýningar á nytjalist en fór fyrst út í lágmyndir, notaði leir og einhver önnur efni og gerði myndir á flöt í tvívídd. Svo uppgötvaði ég að ég gat gert hvað sem var. Hæfnin í efninu var orðin það mikil, en ég hef aldrei litið á leirinn sem vandamál, bara tækifæri. Ef mér dettur eitthvað í hug þá get ég gert það í leir ef mig langar, maður leysir þá bara þessi tæknilegu atriði ef þau koma upp. Nytjalistin var lífsviðurværið en ég ber mikla virðingu fyrir henni og mér finnst yndislegt að renna og fyrir mér er það líka eins og hver önnur þerapía. Skapandi list getur verið mjög krefjandi eins og gefur að skilja en þetta hentaði mér miklu betur heldur en að kenna eða vinna eitthvað annað fyrir salti í grautinn. Þannig gat ég þróað þekkingu mína á efninu, án þess að vera að beint að vinna þannig með eitthvað ákveðið en samt að vinna í efninu og hafði mikil tækifæri til að þróa mig áfram. Ég hef enn þá gaman af að setjast við bekk og renna, mér finnst það ofboðslega gaman og fer á verkstæðið daglega,“ segir Jónína sem fagnaði áttræðisafmæli í haust.

Kermikskúlptúrar á sýningu Jónínu Guðnadóttur í Hafnarborg.

Er enn að

Geturðu líst myndlist þinni, um hvað hefur hún snúist? „Hún snýst náttúrlega um minningar úr bernsku og utanaðkomandi áhrif, land og menningu. Áhrifin koma þaðan og frá því sem gerist. Ég hef unnið mjög mikið með minningar mínar úr sveitinni og fjörunni á Akranesi og líka menningararfinn t.d. hannyrðir kvenna, hvað þær hafa þurft að leggja á sig og hvað þær hafa varðveitt af íslenskri menningu. Maður finnur sér eitthvað sem mann langar að gera og svo þróast hugmyndin þar til hún er orðin að verki. Svo er það þetta yndislega land sem við eigum sem bæði gefur og tekur, það gefur mér mikinn innblástur. Þetta er ekki eitthvað sem maður úthugsar, þetta bara gerist.“

Það er fleira í umhverfinu sem hefur veitt Jónínu innblástur. Á vegg í Hafnarborg er verk sem er samþjappað rusl. „Þetta verk er frá 1998, ég var löngu áður farin að hugsa um þessa hluti, var með stórt heimili, vinnustöð og allt þetta rusl og umbúðir fór í taugarnar á mér. Ég ákvað að horfa á þetta öðrum augum, sem efnivið langt áður en farið var að gera þetta að raunverulegum efnivið og gerði þetta verk sem heitir Heimilissorpritið. Það er sett upp eins og bækur en Hafnarborg á verkið.“

Jónína segir að listaheimurinn hafi breyst mikið. „Það er miklu auðveldara að koma sér á framfæri en það eru líka miklu fleiri um hituna. Þetta snýst um seiglu, ég hef líka verið heppin. Hafnarborg hefur verið mér innan handar og þegar við stofnuðum Grjótið sköpuðust tengingar víða. Þangað kom fólk, talaði við mann, það hafði möguleika á ákveðnum stöðum o.s.frv. Maður þarf tengingar og sambönd, kynna sig, afstöðu sína og verk, öðruvísi gengur þetta ekki. Það er ekki allt fengið með netinu, það getur verið erfitt að fanga athyglina þannig að hún gefi nógu góða mynd af þér. Maður flettir, sér eitthvað sniðugt, flettir áfram og sér eitthvað annað sniðugt. Það er bara manneskjan sem blívur,“ segir Jónína og hlær en hún er enn að. „Ég vinn þegar mig langar til, fer á vinnustofuna á hverjum degi, finnst það yndislegt og mun gera það meðan ég treysti mér til.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn mars 10, 2024 07:00