Jarðvísindamaðurinn sem sneri sér að myndlist

Georg Douglas er með doktorspróf í jarðvísindum og hefur kennt jarðfræði í 36 ár. Þegar eftirlaunaaldurinn nálgaðist ákvað hann að venda kvæði sínu í kross og láta gamlan draum rætast: að helga sig málaralistinni. Hann hefur nú haldið á penslinum í 15 ár og málað margar myndir sem vakið hafa verðskuldaða athygli, bæði hér heima og erlendis. Einkum hefur myndum hans af írskum þjóðlagadansi verið gaumur gefinn og nú seinustu árin einnig blómamyndum hans.

Lifðu núna hitti Georg að máli á heimili hans í Mosfellsbæ þar sem hann er að reisa hús í garðinum undir vinnustofu.

Hætti að „vinna“ 62 ára

Georg er fæddur í Derry-sýslu á Norður-Írlandi árið sem síðari heims­styrjöld­inni lauk, 1945. Hann hefur verið búsettur á Íslandi með eiginkonu sinni, dr. Bergljótu Magnadóttur, í meira en fjóra áratugi, en þau eiga tvö uppkomin börn og fjögur barnabörn. Georg öðlaðist íslenskan ríkisborgarétt þrítugur og talar lýtalausa íslensku. Bergljótu kynntist hann í Queens-háskóla í Belfast þar sem hún var að læra dýrafræði. Georg lauk prófi í sinni grein árið 1973 og hefur verið kennari í 36 ár, lengst af í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hann fór á eftirlaun 2007, aðeins 62 ára, til þess að helga sig listsköpuninni. „Ég reyni að mála eitthvað daglega og hef gert það meira eða minna síðan ég hætti að vinna.“

Tengsl manns og náttúru

Varla er áhugi hans sjálfvakinn nú á efri árum? „Nei, áhuginn kviknaði snemma. Eins og margir krakkar var ég alltaf að teikna, ekki síst þegar ég var úti í náttúrunni. Ég fór síðan í lítinn afskekktan menntaskóla á Norður-Írlandi þar sem svo heppilega vildi til að myndlistarkennari starfaði. Það var mjög sjaldgæft á þeim tíma að hafa myndlistarkennara í framhaldsskólum. Hann kenndi mér margt sem ég hafði aldrei séð áður í dráttlist. Ég átti líka frænku sem málaði svolítið og lærði dálítið af henni. Ég hef allar götur síðan sýnt málaralistinni mikinn áhuga og haft ánægju af því að rýna í málverk.“

Georg hefur sótt nám í Myndlistarskóla Kópavogs og Myndlistarskóla Reykjavíkur síðan 2005. Hann lætur vel af námskeiðunum sem þar eru haldin. „Þetta er þannig að þeir sem hafa málað lengi og hafa mikla reynslu, þeir fá að mála eins og þeir vilja, með frjálsum hætti. Kennarar eru þá bara til leiðsagnar á hálfsmánaðarfresti. Þess á milli málar hver einstaklingur eins og hann vill og þróar sína aðferð. Oft er þetta sama fólkið sem sækir námskeiðin og þetta verður oft þéttur og samheldinn hópur.“

Tilraun til að víkka sjónsviðið

Georg málar aðallega óhlutbundnar myndir. Hann segir að verk sín séu tilraun til að víkka sjónsviðið. „Ég þræði línu á milli raunveruleika og abstrakts í myndunum. Ég mála það sem ég sé, þ.e. lögun og lit plantna, en ekki síður míkróskópísk fyrirbæri og sameindafyrirbæri og módel af prótínum, kollagenum og vefjum sem plöntur eru gerðar úr. Við sjáum ekki þessi fyrirbæri en þau eru þarna og ég vil hafa þau með, því það breikkar og dýpkar skynjun okkar á heimi blómanna.“

Innra ljós, 2014. Olía á striga (100 x 100 cm). Myndin hlaut verðlaun hjá International Artist-tímaritinu 2015.

Georg blandar einnig stærðarhlutföllum og þannig færast myndirnar meira í átt að abstraktformi. „Hugmynd mín er sú að þótt útkoman eigi greinilega rætur í gleðisöng blómanna, þá veki myndirnar meðvitund og heilabrot um nýjar víddir.“

Georg hefur notið leiðsagnar nokkurra þekktra listamanna hér á landi. Meðal þeirra eru Bjarni Sigurbjörnsson, J.B.K. Ransu, Sigtryggur Bjarni Baldvinsson, Þuríður Sigurðardóttir, Svanborg Matthíasdóttir. Þá hefur hann einnig notið leiðsagnar Þorra Hringssonar og Guðrúnar Veru Hjartardóttur í módelteikningu.

Dynur og ákafi í írskum dansi

Auk náttúrumynda málar Georg myndir sem eru innblásnar af írskum dansi. „Það var persónuleg áskorun fyrir mig að mála undir áhrifum af írska dansinum. Þegar ég var að alast upp var hann skyldufag í skólum og mér hugnaðist hann alls ekki. Síðar lagðist hann eiginlega alveg af og varð ekki vinsæll aftur fyrr en hann sló í gegn í Evróvisjón-keppninni 1994, svokallaður Riverdance. Írskur dans er í grunninn tæknilegur og stífur, en honum fylgir þó mikil spenna, dynur og ákafi, og hann getur verið villtur og kærulaus. Það er þetta andrúmsloft sem ég reyni að endurskapa og búa til á striganum frekar en nákvæmar danshreyfingar, og þetta er það sem ég vil að áhorfendur mínir finni fyrir þegar þeir líta á málverkin.“

Snúningur, 2012 (100 x 100 cm)

Óumdeild áhrif frá jarðfræðinni

Hefur ferill Georgs sem vísindamanns haft áhrif á handbragðið? „Ég get ekki neitað því að ég er einnig undir sterkum áhrifum af jarðfræði. Þetta var þó ekki þannig að ég væri sjálfur að reyna að láta þessi áhrif koma fram. Bjarni Sigurbjörnsson myndlistarmaður leiðbeindi mér í frjálsri málun. Þetta byrjaði með því að ég málaði gosmynd og ákvað að reyna að koma sameindum inn í verkið. Þetta var bara einhver hugdetta sem átti sér kannski eðlilegar skýringar. Bjarna fannst þetta sniðugt að sagði að þarna væri eitthvað að gerast. Ég fór svo að þróa þetta upp frá því, sérstaklega blómamyndirnar.“

Georg finnst blómamyndum eigi að síður ofaukið í listaheiminum. „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá hefur mér alltaf fundist of mikið af blómamyndum, listamenn mála of mikið af blómum og myndirnar eru allar eins. Ég vildi því prófa þessa aðferð sem ég er að nota.“

Óreiða, 2013 (80 x 80 cm)

Vekur athygli víða

Georg er meðlimur í Sambandi íslenskra myndlistamanna (SÍM) og hefur unnið til verðlauna og fengið viðurkenningar fyrir myndir sínar, m.a. hjá International Artist Magazine, Gallery 25N í New York, Art Competition Net og Circle Arts Foundation. Þá hefur verið fjallað um hann í ýmsum blöðum, þar á meðal International Artist Magazine og Pratique des Arts Hors í Frakklandi.

Nokkur verk eftir Georg má finna í opinberum stofnunum, t.d. Menntaskólanum við Hamrahlíð, gamla vinnustaðnum hans, Háskóla Íslands, Akranesbæ og sendiráði Íslands í Moskvu.

Hann hefur einnig haldið fjölda sýninga frá árinu 2010, bæði einkasýningar og samsýningar, síðast í galleríi Art67 á Laugavegi í fyrra. Flestar myndir hans eru til sölu.

Lenti í flugslysi 22 ára

Fyrir dyrum stendur að sigla til Danmerkur með Norrænu síðar á þessu ári þegar þau hjónin hyggjast taka sér leyfi frá „vinnusemi“ efri áranna. Þau hafa tamið sér að sigla yfir á meginland Evrópu í stað þess að fljúga og það á sér eðlilegar skýringar. Jarðvísindamanninum hefur staðið beygur af flugi síðan 1967 þegar hann lenti í flugslysi. Hann reynir að koma sér undan að ræða þessa raun, en blaðasnápur saumar að honum; hann telur sig í rétti sem gamall nemandi í MH.

„Ég hafði svarað auglýsingu um að taka þátt í sumarverkefni á vegum The Arctic Institute of North America, en þeir sóttust eftir evrópskum háskólanemum, bæði jarðfræðingum og landfræðingum, til að hjálpa til við vettvangsrannsókn á Devon-eyju í Núnavút í Norður-Kanada. Eyjan er mjög afskekkt og þarna voru bækistöðvar fyrir vísindamenn á þeim tíma sem aðeins var hægt að starfrækja yfir hásumarið. Þegar verkefninu lauk kom lítil flugvél sem átti að ferja okkur suður á bóginn. Við vorum átta um borð þegar vélin tók á loft, en ekki vildi betur til en svo að vélin hrapaði skammt frá bækistöðvunum. Til allrar hamingju lifðu allir og ekki voru alvarleg meiðsl á neinum, en við þurftum hins vegar að bíða í heila viku eftir hjálp vegna veðurs. Þetta var mikil lífsreynsla og hafði mikil áhrif á mig og hefur enn. Ég vil helst hafa báða fætur á jörðu.“

Ekki farið að gosstöðvunum enn

Georg hefur ekki séð gosstöðvarnar á Fagradalsfjalli og segist ekki bíða þess með neinni óþreyju. Hefur listamaðurinn jarðað jarðfræðinginn? „Ég hef verið heppinn að sjá nokkur eldgos um ævina, sérstaklega nefni ég gosið í Vestmannaeyjum 1973 þegar ég vann hjá Orkustofnun og fór tvisvar. Svo gat ég fylgst með tveimur Heklugosum og við hjónin heimsækjum Sikiley reglulega í fríum og þekkjum Etnu vel, eldfjall sem er alltaf meira eða minna virkt. Í listinni er ég að sinna hinum fínni blæbrigðum náttúrunnar, en það á betur við mig í seinni tíð.“

Georg hefur sett upp vefsíðu þar sem kynnast má verkum hans. „Mér finnst eðlilegt að sýna það sem ég er að gera, leyfa öðrum að fylgjast með. Það kom sér vel að ég var búinn að snerta aðeins á vefsíðugerð í kennarastarfinu og kunni þetta því að einhverju leyti.“ Slóðin að vefnum er artgeorg.com.

Georg er að reisa vinnustofu í garðinum hjá sér.

Ritstjórn júní 25, 2021 07:30