Raddir. Annir og efri ár er heiti bókar eftir Jón Hjartarson og Kristínu Aðalsteinsdóttur, sem kom út hjá Bókaforlaginu Skruddu. Þar segja 28 einstaklingar frá lífi sínu einkum á efri árum og viðhorfi sínu til dauðans. Yngsti einstaklingurinn sem segir frá er 69 ára en sá elsti 103 ára. Margrét Heinreksdóttir, fréttamaður, lögfræðingur, heimskona og háskólakennari á Akureyri skrifar fyrsta kaflann í bókinni og segir skemmtilega frá störfum sínum og viðfangsefnum. Margrét var við störf í Kosovo fyrir Sameinuðu þjóðirnar þegar hún var 67 ára og fór þá að kenna taugasjúkdóms sem átti eftir að ágerast. Hún flutti í lítið hús norður í Vaðlaheiði gegnt Akureyri, þegar henni bauðst kennsla í Háskólanum þar. Gefum henni orðið.
Síðan eru liðin fimmtán yndisleg ár, sem þó hefur á borið skugga taugasjúkdómsins í fótum og höndum, með tilheyrandi jafnvægisleysi, verkjum, svefnleysi og öðrum óþægindum, sem bundu enda á kennslustörfin fyrr en ég hefði viljað. Ég hafði komið norður á tveim hækjum, sem ég gerði ráð fyrir að losna við fljótlega, en úr því varð aldrei, við þær varð ég að hökta áfram og síðar með göngukerru þar til hjólastóllinn tók við. Mér þótti þetta leitt, einkum vegna þess að mér fannst ég bregðast vinum mínum sem höfðu gert sér vonir um að ég hefði lengri tíma til starfa. Var þó að, meira eða minna, til 75 ára aldurs en þá hófst hin eiginlega elli sem nú var sýnt að yrði öðruvísi en ráð hafði verið fyrir gert. Fyrirhugaðar gönguferðir í heiðinni voru úr sögunni, ekkert yrði af matjurtaræktun á lóðinni minni eins og til stóð og ferðalög takmörkuð, innan lands sem utan. Mér féllust að sjálfsögðu hendur í fyrstu en tókst þó fljótlega að sætta mig við þessar breyttu aðstæður, þær urðu mér nýtt viðfangsefni að takast á við. Ég hugsaði til þeirra sem árum og áratugum saman hafa verið og eru bundnir hjólastól, meira eða minna lamaðir og hjálparlausir. Í samanburði við þær hetjur var mér hreint engin vorkunn.
Framan af ætlaði ég að dunda við faglegar skriftir. Mér voru hugleikin ýmis viðfangsefni sem gaman væri að reyna að gera skil. En þá gerðist það að nákominn ættingi, sem var farinn að gerast svolítið skrítinn í háttum, greindist með Alzheimer og eftir að hafa fylgst með hratt hrakandi andlegu ástandi sjúklingsins greip mig ótti um að fara sömu leið, um að dómgreind minni mundi hraka án þess að ég gerði mér þess grein og ég færi að senda frá mér greinaskrif sem ekki stæðust fræðilegar kröfur. Hætti því við þá fyrirætlun og hellti mér þess í stað í bóklestur af ýmsu tagi, munað sem ég hafði aldrei haft nægan tíma fyrir í önnum meira en hálfrar aldar starfa utan og innan heimilis. Nú gafst líka nægur tími til að hlusta á sígilda tónlist sem ég ánetjaðist ung að aldri og hefur ætíð verið mér andleg nautn og sáluhjálp. Ég fjárfesti í góðum hljómtækjum til að geta hlustað aftur á mínar gömlu vinýlplötur og bætti smám saman við nýjum hljómdiskum. Til að lífga upp á sjónvarpið viðaði ég að mér mynddiskum, einkum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem byggðust á góðum bókum, allt frá klassík Shakespeares til krimma Stiegs Larssons og hef haft gaman af að bera saman listform orðs og myndar um sama viðfangsefni. Undi mér þannig vel við sjónvarpsgláp, gjarnan með garn á prjónum til að halda höndunum á hreyfingu. Gerðist einnig áskrifandi að svokölluðu Fjölvarpi með tugum sjónvarpsstöðva, þar á meðal fjölda fréttastöðva, sem hafa gert mér fært að sjá viðburði, bæði samtímans og sögunnar, í öðru og víðara ljósi en áður.
Margrét sem er komin yfir áttrætt lýsir því hvernig hugurinn leitar aftur í tímann þegar aldurinn færist yfir. Í ljósi minninganna lifi hún lúxuslífi sem blóm í eggi.
Það líður að leiðarlokum – en er á meðan er og um að gera að lifa lífinu lifandi þangað til, læra svo lengi sem lifir. Reyndar hef ég ætíð verið mér mjög svo meðvituð um dauðann og fallvaltleika lífsins, allt frá barnsaldri þegar ég missti móður mína. Hún lést eftir margra vikna dauðastríð, aðeins 26 ára að aldri, frá þrem börnum sem síðan var sundrað, ól síðasta barnið á Landspítalanum í janúarlok árið 1944 og smitaðist þar af skarlatssótt sem tók líf hennar. Biðin eftir úrslitunum er mér enn í fersku minni svo og sársaukinn sem því fylgdi að þurfa að sætta sig við það sem í hönd fór. Reynsla ótal barna á öllum aldri.
Síðan hef ég oftar en vildi fylgst með dauðastríði og setið við banabeð nákominna ættingja og vina fyrir utan að fylgjast með því hvernig fólk er strádrepið um allan heim. Mér er löngu ljóst að það er oftar en ekki tilviljunum háð hvenær, hvernig og á hvaða aldri endi er bundinn á vegferð okkar. Nema þegar mannfólkið sjálft slekkur líf, myrðir ástvini og aðra einstaklinga í sturlun ástríðna eða hefndarhugar – eða stráfellir, í blóðugum erjum um hagsmuni og völd, andstæðinga sína og óbreytta borgara með vígatólum sem engu eira. Ég hef enga trú á einhverjum æðri máttarvöldum, hverju nafni sem nefnast, sem útdeili einstaklingum lífi og dauða eftir hentugleikum, hvað þá að trúfesta eða guðsótti fái þar nokkru um ráðið. Raunsærri er trú á náttúruöflin, sem fara sínum hamförum í eldgosum, jarðskjálftum, flóðum eða fellibyljum sem valda manntjóni – og er þá líka tilviljanakennt hverjir fyrir verða.
Og nú lifi ég enn einn veturinn genginn í garð með öllum sínum undrum og umhleypingum. Jörð er nú auð og náttmyrkrið kolsvart en við mér blasa ljósin í bænum eins og gullinn lindi meðfram ströndinni, gimsteinum skreyttur. Framundan er endastöð okkar allra, þangað liggur leiðin og verður ekki af brugðið, aðeins spurning hversu hratt muni miða. Vona þó að lokaspretturinn verði sem léttastur, því hetja er ég engin og sársaukaþröskuldurinn ekki hár. Þegar ég lít yfir farinn veg er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að lifa svo lengi fjölbreyttu lífi og tilfinningaríku, að hafa aflað þónokkuð víðtækrar reynslu, að hafa getað fundið til á gleði – sem og sorgarstundum minnar samtíðar svo og hlýhugur í garð allra þeirra sem snertu líf mitt til góðs eða ills og áttu þannig sinn þátt í að móta myndverk ævi minnar.
Lifðu núna mun á næstunni birta stutta kafla úr lífssögu þeirra sem bókin fjallar um, en einkum þó um það hvernig fólk upplifir efri árin. Við þökkum höfundum og útgefanda fyrir að leyfa okkur að birta þetta merkilega efni, um það hvernig eldra fólk á Íslandi lítur á stöðu sína í dag. Það er ekki síst forvitnilegt í ljósi þess að langlífi eykst og eldra fólki í samfélaginu fjölgar gríðarlega. Bókin heitir Raddir. Annir og efri ár.