Fyndin, djúp og fáguð

Fyndin, djúp og fáguð eru orðin sem fyrst koma upp í hugann um ljóðabókina Tæpasta vað. Hún er önnur ljóðabók Jóns Hjartarsonar en hann hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrri bók sína Troðninga. Hann hefur meitlaðan stíl, er fáorður en dregur upp magnaðar myndir. Hér er það hið smáa sem vekur athygli, ekki það skrautlegasta eða mest áberandi.

Fléttur á steinum verða Jóni til að mynda að yrkisefni en hann fer víða. Veltir fyrir sér heimsmálunum og mannlegri tilveru og þá ávallt frá nýstárlegu sjónarhorni. Hversdagsleikinn verður ævintýralegur og náttúran lifnar á óvæntan hátt. Hann er kíminn og kann að vinna sig að „the punchline“ eða fyndnu lokalínunni. Það er sérlega áberandi í ljóðinu Ólestur.

rangt

eða

það sem

sannara reynist

þar er efinn

á tímum textaóreiðunnar

er staðið hefur

frá söguöld

aldrei að vita

hver sagði

hver samdi

hver er höfundur

Njálu

Þarna eru líka einstaklega lipurlega fléttaðar tilvísanir í bókmenntir og fræðileg álitaefni. Jón hefur verið að skrifa lengi en mest hefur hann skrifað leikrit. Hann er líka leikari og leikstjóri og kemur þess vegna ekki á óvart víða má finna vísanir í leikbókmenntir. Jón er líka umhverfissinni og vekur lesandann til umhugsunar um ekki aðeins hvernig sköpunarkraftur náttúrunnar er að lamast og eyðast fyrir tilverknað mannanna heldur einnig þeirra sjálfra. Plastið flæðir ósýnilegt um skepnuna. Þetta er kraftmikil og flott ljóðabók, ein af þeim sem þarf að lesa aftur og aftur og skynja ávallt eitthvað nýtt í hverjum lestri.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 24, 2024 07:00