Húsmóðir í fullu starfi

Hilmar Ingólfsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Garðabæ og skólastjóri Hofsstaðaskóla fór á eftirlaun fyrir tæpum átta árum. Síðan má segja að hann hafi bara gert það sem hann hefur áhuga á og hefur gaman að.

 

Skólastjóri Hofsstaðaskóla.

Skólastjóri Hofsstaðaskóla.

Hilmar segir að eftirlaunalífið sé ótrúlega gott. „Fyrstu tvo dagana eftir að ég hætti að vinna fannst mér ég vera að svíkjast um svo leið það hjá. Það eina sem mig vantar núna er tími til að koma öllu því í verk sem mig langar að gera.“ Hann segist vera á ágætum eftirlaunum og eiginkona hans Hugrún Jóhannesdóttir er enn á vinnumarkaði. „Það er búið að halda því að fólki að þegar það hættir að vinna setji það tærnar upp í loft og bíði eftir að deyja. En þannig er nú lífið ekki. Menn héldu að ég myndi fara að vinna eitthvað þegar ég var hættur, nokkur félagasamtök höfðu samband við mig og vildu ráða afdankaðan skólastjóra í hálft starf, auk þess sem mér buðust nokkur verkefni. Ég ákvað hins vegar að gera ekki neitt. Mér fannst að ég væri búin að vinna nóg um ævina. Hafði lengst af verið í tveimur og þremur störfum og ég held að það hafi verið hárrétt ákvörðun að hætta öllu,“ segir hann.

Stækkuðu við sig

„Mér fannst að ef ég ætlaði að fara á eftirlaun og verða húsmóðir og sinna heimilinu sem ég hafði ekki gert, fram að 64 ára aldri, þá yrði ég að skipta um gír,“ segir Hilmar. „Nú er ég húsmóðir það er mitt starf í dag. Ég veit ekki hvort að ég hef staðið mig nógu og vel í því hlutverki. Við fluttum úr Garðabæ í fyrra og í Hlíðarnar í Reykjavík. Konan keypti hæð og henni fylgdi kjallaraíbúð. Öfugt við marga aðra fjölguðum við fermetrunum en minnkuðum ekki við okkur. Við leigðum kjallarann ungri pólskri konu og hún borgar hluta af leigunni með því að skúra uppi hjá okkur. Ég hef nú tekið það sem sneið til mín. Ég held að konunni minni hafi ekki fundist ég skúra nógu og oft,“ segir Hilmar skelmingslega og bætir við „ég hef það hins vegar fyrir sið þegar ákveðnar konur koma í heimsókn að stífpússa klósettið og salernisskálina. Þegar ég hef lokið mér af glansar klósettið eins og í þýskri auglýsingu, svo þurrka ég úr gluggum á stöðum sem ég veit að konur kíkja á þegar þær koma í heimsókn. Svo ég geri mitt besta.“ Hilmar eldar á hverjum degi en segir að það sé erfitt að keppa við Hugrúnu í eldamennskunni hún sé verðlaunakokkur. Þau eldi stundum saman og þá sé það hans hlutverk að skera. „Svo set ég í uppþvottavélina. Ég var svo heppin að fá nýja uppþvottvél þegar ég komst á eftirlaun. Konan mín vill ekki hafa mig í uppvaskinu.“

Þarf ekki alltaf að vera í pontu

Hilmar var skólastjóri Hofsstaðaskóla í 26 ár. Hann sat í bæjarstjórn í Garðabæ í 28 ár, þar af var hann eitt kjörtímabil varamaður. „Ég tek ekki mikinn þátt í félagsstarfi í dag. Ég var í Alþýðubandalaginu í Garðabæ

Finnst að það þurfi að bæta kjör þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu.

Finnst að það þurfi að bæta kjör þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu.

sem varð svo Samfylkingin og ég mæti á flesta fundi hjá flokknum í bænum. En ég náði því þegar ég var sextugur að þurfa ekki alltaf að vera í pontunni. Ég lærði að hlusta. Sama var í skólanum, ég bara hætti. Ég hef einstaka sinnum komið í kaffi og heilsað upp á fyrrverandi samstarfsfólk. Eina félagið sem ég er aktívur í er Norræna félagið í Garðabæ en þar er ég formaður. Mér rann blóðið til skyldunnar að taka aftur við formannsembættinu þegar félagið var að lognast út af. Svo hef ég ánægju af því að fara á fundi og ráðstefnur. Landsvirkjun heldur til dæmis mjög góða fundi, sömu sögu er að segja af Landsneti. Það er gagnlegt að koma á fundi hjá þessum stofnunum og fá gögn sem er allt of erfitt er að verða sér úti um hér á landi. Það er gaman að fara og hitta fólk og fylgjast með. Svo förum við hjónin mikið á sýningar og tökum þátt í listalífinu eftir föngum.“

KGb í Garðabæ

Svo er það leyniklúbburinn sem Hilmar er virkur í. „Já, það er kommúnistaflokkur Garðabæjar, KGb. Það bregður mörgum í brún þegar ég kynni mig sem kommúnistann í Garðabæ. Við höldum fundi í hádeginu á miðvikudögum. Fyrstu árin eftir að klúbburinn var stofnaður hittumst við á Jómfrúnni en þegar ferðamönnum fjölgaði í miðbænum tvöfaldaðist verðið á staðanum og við ákváðum að flytja okkur á eina vínveitingahúsið í Garðabæ, Ikea. Þar fáum við góðan mat, hvítvín, rauðvín og bjór, allt saman hræbillegt. KGb er leynifélag, menn koma og fara. Við erum tveir sem gegnum formennsku í KGb, ég og Sigurður Björgvinsson en hann er alltaf að vinna og mætir því illa. Ásmundur Ásmundsson verkfræðingur er aðalmaðurinn núna. Pólitískur leiðtogi okkar. Við erum í því að segja skemmtisögur úr nútímanum og einstaka sinnum dettum við í ættfræðina á þessum fundum okkar.“

Í bæjarstjórn

Ekki alveg hættur að hugsa um pólitík.

Ekki alveg hættur að hugsa um pólitík.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur allar götur verið í meirihluta í Garðabæ. „Mesta flokkshollustan er í Sjálfstæðisflokknum. Það er alltaf verið að halda því fram að við séum svo trúaðir kommúnistarnir en við höfum einn galla hann er sá að ef í fimm manna nefnd er  einn sem er ósammála þá gengur hann út og stofnar nýjan flokk.“ En hvernig var að vera komminn í bænum. „Það var allt í lagi. Aðalatriðið er þegar menn eru í bæjarmálum  að vinna vel og gera gagn. Minnihluti, hver sem hann er, getur komið sínum málum í gegn í nefndum ef hann leggur í það vinnu og undirbýr málin vel. Ég var ekkert í því að vera á móti góðum málum bara til að vera á móti. Ef ég var sammála einhverju þá samþykkti ég. Þó að sjálfstæðismenn lægju oft vel við höggi var ég ekkert endilega að berja á þeim. Það var oftast mjög góð samvinna milli lýðræðisflokkanna, það er Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Garðabæjar. Við sem vorum í minnihluta lögðum fram tillögur sem sjálfstæðismenn felldu. Þeir komu svo með tillögurnar okkar í lítið breyttri mynd einum eða tveimur mánuðum síðar. Við slíkar kringumstæður þurfa menn að passa sig á því að vera ekki að rövla eða klifa á því að þetta sé tillagan sem þeir höfðu áður lagt fram. Menn eyðileggja fyrir sér með slíkri framkomu. Menn verða að vinna saman þegar það á við.“ Hilmar segir að sjálfstæðismenn viti ekki hvað lýðræði merki. Annars hafi verið góðir menn þar í flokki innan um og saman við. Hann nefnir Ingimund Sigurpálsson sem hann segir grandvaran mann og þá Benedikt Sveinsson, og Erling Ásgeirsson. „Ég sat með Benedikt og Erling í bæjarráði og ég held að það sé besta bæjarráð sem Garðabær hefur átt.“

Áttu ekki fyrir útborgun

Hilmar er fæddur og uppalinn Reykjavík en flutti til Garðabæjar þar sem var nægt framboð af einbýlishúsalóðum á áttunda áratug síðustu aldar. Hann segir ástæðuna þá hann og þáverandi eiginkona hans hafi ekki átt fyrir útborgun í íbúð og hafi hvergi getað fengið lán enda ekki með réttu flokkstengslin. „Kommúnistar áttu ekki aðgang að bankakerfinu. Þetta var líka á þeim árum sem var miklu einfaldara að byggja hús en kaupa íbúð. Fyrst keypti fólk lóð, lét teikna hús, svo var sökkullinn steyptur og næsta skref var að gera fokhelt. Þegar húsið var fokhelt fékk fólk fyrra lánið frá

Glaður á góðri stund.

Glaður á góðri stund.

Húsnæðismálastjórn. Svo héldu menn áfram með hjálp ættingja og vina og þegar húsið var tilbúið undir tréverk og málningu kom seinni helmingurinn af láninu frá Húsnæðismálastjórn. Svo flutti maður inn í hurðalaust húsið með rússneska lýsingu. Svona smápotaðist þetta.“ Hilmar segir að það hafi að mörgu leiti verið gott að búa í Garðabæ. Hins vegar líki honum umskiptin vel að vera komin til Reykjavíkur. Mannlífið í Hlíðunum sé gott. Það sé stutt að rölta upp í Kringlu og fá sér ís og maður sé ekki nema hálftíma að ganga niður í bæ. „Við förum stundum, konan mín og ég, gangandi í bæinn, fáum okkur sushi og hvítvín við Austurvöll, förum svo í Kolaportið, og kaupum lax, rækjur og kartöflur. Svo tökum við strætó heim. Þá er maður búinn að fara á veitingahús sem eru ekki til í Garðabæ, hitta fólk og gera skemmtilega hluti.“

Þeir sem standa höllum fæti

Þrátt fyrir að Hilmar kunni vel við eftirlaunaárin og segi þetta áhyggjulaust líf hefur hann samt áhyggjur af þeim sem hafa ekki nóg að bíta og brenna. „Sem betur fer er stór meirihluti aldraðra sem hefur það gott. Þeir sem standa höllum fæti eru einstæðar mæður, fatlaðir og lítill hópur aldraðra. Það er til fólk á Íslandi sem getur ekki farið á eftirlaun, getur ekki hætt að vinna vegna þess að það eftirlaunin nægja ekki til framfærslu. Þeir sem bjarga sér með því að vinna sitja uppi með það að það er allt tekið af þeim. Bæturnar lækka um leið og fólk fer að þéna einhverjar smáupphæðir. Það er mikilvægt að breyta þessu. Eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar var að láta alla lífeyrisþega fá bætur. Ég hef ekkert við þær að gera. Ég var skuldlaus þegar ég hætti að vinna og með góð eftirlaun. Ég lifi ágætu lífi án þessara 20 þúsund króna sem ég fæ frá ríkinu og hefði kosið að einhverjir aðrir nytu þeirra. Sú ríkisstjórn sem nú situr við völd hefur það sem stefnu að hygla þeim eiga peninga í stað þess að láta þá ganga til þeirra sem þurfa á þeim að halda.“

Ritstjórn september 4, 2015 12:06