Tengdar greinar

Hvað má eða má ekki þegar þú situr í óskiptu búi?

Dögg Pálsdóttir lögmaður

“Þú mátt í rauninni gera allt, þú mátt eyða peningum en ekki sóa”, segir Dögg Pálsdóttir lögmaður, aðspurð hvað fólk megi eða megi ekki gera þegar það situr í óskiptu búi. “Þú mátt selja eignir, þú mátt taka lán, þú mátt gefa gjafir innan hóflegra marka, þú mátt minnka við þig húsnæði, fá peninga á milli og lifa á þeim”. Í erfðalögum segi að maki, sem situr í óskiptu búi, hafi  eignarráð á fjármunum búsins og beri ábyrgð á skuldum hins látna eins og um hans eigin skuldir væri að ræða. Þá má langlífari maki í óskiptu búi gera erfðaskrá en einungis um sinn helming óskipta búsins.

Dögg segir að þetta sé aðeins flóknara þegar fólk hefur tekið saman seinna á ævinni og eigi börn úr fyrri samböndum. “Ef langlífari maki sem situr í óskiptu búi samkvæmt erfðaskrá, fer að hygla sínum börnum eða öðrum á kostnað barna makans sem er fallinn frá, gegnir öðru máli”, segir Dögg og bendir á að um óskipt bú sé fjallað í sérstökum kafla í erfðalögum. Þar komi m.a. fram að hafi maki gefið gjöf úr óskiptu búi sem sé óhæfilega há miðað við efni búsins þá geti erfingi fengið gjöfinni hrundið með dómi ef viðtakandi gjafarinnar sá eða átti að sjá að gefandi sat í óskiptu búi og að gjöfin var úr hófi fram.Í þessum tilvikum séu hins vegar málshöfðunarfrestir því mál þurfi að höfða áður en ár sé liðið frá því að erfingi eða lögráðamaður hans fékk vitneskju um gjöfina og aldrei síðar en innan þriggja ára frá afhendingu hennar.

En hvað er eyðsla og hvað sóun, þegar fólk situr í óskiptu búi.  Það sem er eyðsla í einu búi, getur verið sóun í öðru, segir Dögg. “Eftir því sem eignirnar eru meiri í óskipta búinu getur langlífari makinn látið meira eftir sér. Ef óskipta búið er eignalítið getur sá langlífari veitt sér minna. Þú gætir tæpast farið í margar dýrar ferðir til útlanda á hverju ári, en það gætir þú mögulega gert ef búið er eignamikið. Þú mátt ganga á eignir búsins ef það er þér nauðsynlegt til að geta framfleytt þér”, segir Dögg og bætir við að það hafi reynst mjög erfitt fyrir erfingja sem eiga arf í óskiptu búi, að fá hnekkt setu langlífari makans í óskiptu búi með vísan til þess að hann sé að sóa eignum búsins. Sönnunarbyrðin hvílir á erfingjunum og sönnunarkröfurnar eru ríkar varðandi það að langlífari makinn sé að sóa fjármunum. Erfðalögin tilgreini að erfingi geti krafist skipta ef makinn vanræki framfærsluskyldu sína gagnvart viðkomandi erfinga eða rýri efni búsins með óhæfilegri fjárstjórn eða veiti tilefni til að óttast megi slíka rýrnun.

Dögg segir líka að það geti verið full ástæða til að staldra við ef langlífari makinn er hættur að búa í eigin húsnæði og fluttur í framtíðarbúsetu á hjúkrunarheimili. „Það er engin skynsemi í því að halda áfram að reka gamla heimili langlífari makans með þeim kostnaði sem því fylgir. Til viðbótar kemur að tekjur langlífari makans standa ekki alltaf undir þessum útgjöldum því hann þarf að greiða að hluta fyrir búsetu sína á hjúkrunarheimilinu“ segir Dögg. Hún telur skynsamlegast í þessari stöðu að selja fasteignina, skipta dánarbúi skammlífari makans og mögulega greiða að einhverju marki út fyrirframgreiddan arf erftir langlífari makann, sé hann og erfingjar sammála um það.

Dögg bendir hins vegar á að hafi langlífari makinn verið sviptur fjárræði þá sé talið að það beri að skipta dánarbúi skammlífari makans og erfingjar geti í því tilviki krafist opinberra skipta til að tryggja það. „Lögin geri eingöngu ráð fyrir að erfingjar skammlífari makans sitji í óskiptu búi með langlífari makanum. Ef langlífari makinn er ófær um að annast lengur fjárstjórn óskipta búsins er ekki talið eðlilegt að þeir sitji í óskiptu búi með fjárhaldsmanni langlífari makans“, segir Dögg að lokum.

 

 

Ritstjórn júlí 27, 2023 07:00