Hvar er erfðaskráin geymd?

Fólk sem býr í flókinni fjölskyldu og missir maka sinn, þarf að fá samþykki stjúpbarna til að sitja í óskiptu búi, ef fráfarandi maki mælti ekki fyrir um slíkan rétt í erfðaskrá sinni.  Ef stjúpbörn eru til að mynda þrjú, og eitt þeirra samþykkir ekki að viðkomandi sitji í óskiptu búi, geta hin börnin tvö gert það og þá getur sá sem var á móti hugsanlega fengið sinn arfshluta greiddan út. Þannig getur sá sem missti makann setið áfram í óskiptu búi með þeim.

Haukur Örn Birgisson

Ef par á ekki sömu skylduerfingja ætti það  að gera erfðaskrá

Haukur Örn Birgisson hæstaréttarlögmaður hjá Íslensku lögfræðiskrifstofunni segir að ef fólk eigi ekki sameiginleg börn, sé rétt að gera erfðaskrá. En hjá hjónum sem hafa verið gift allt sitt líf og eiga einungis börn saman sem eru uppkomin, þá séu erfðirnar nokkuð skýrar og ekki sama þörfin fyrir erfðaskrá. Hafi fólk hins vegar tekið saman síðar á ævinni og eigi sitt hvort „hollið“ af börnum sé ástæða til að gera erfðaskrá. Haukur Örn segir að í erfðaskránni sé lýst yfir raunverulegum vilja þeirra sem gerðu hana. „Oftar en ekki virði menn þann vilja“, segir hann og bætir við að með erðaskránni sé tilgangurinn að forðast deilur.

Þarf að geyma erfðaskrána á vísum stað

Hann segir flestar erfðaskrár staðlaðar og það eigi ekki að taka lögmann langan tíma að gera erfðaskrá, nema eignir séu þeim mun meiri.  Erfðaskrár eru hins vegar ekki vistaðar á einum stað eins og áður var þegar þær voru geymdar hjá sýslumanni. „ Núna þarf fólk að tryggja að erfðaskráin sé á ákveðnum stað og helst eiga afrit af henni svo það sé tryggt að hún finnist“, “segir hann og bætir við að lögmenn varðveiti einnig erfðaskrár fyrir fólk.  Aðalatriðið sé að vilji fólks varðandi það hverjir erfa það og hvernig, komi skýrt fram í erfðaskránni. Menn hafi frumritið á vísum stað og eigi afrit.

Má ekki gera skylduerfingja arflausa

Það er hins vegar einungis hægt að ráðstafa þriðjungi eigna sinna með erfðaskrá. „Það má ekki gera alla skylduerfingjana arflausa, það er ekki hægt. Það er líka hægt að ákveða með erfðaskrá að auka hlut eins erfingja þannig að hann fái þriðjung eignanna, og þá skiptast 2/3 eignanna sem eftir eru samkvæmt lögum. En þó fólk megi ekki gera skylduerfingjana arflausa, má það ráðstafa eignum sínum eins og það vill á meðan það lifir. „Fólk má kaupa lottómiða fyrir allar eigur sínar, það er voðalega lítið sem menn geta gert í því“, segir Haukur. Fólk getur gert ráðstafanir vegna eigna sinna alveg fram á síðustu stundu, það getur líka breytt erfðaskrám. „Stundum reyna erfingjarnir að rifta þessu á þeim forsendum að viðkomandi sé ekki andlega hæfur“, segir hann.

Ritstjórn janúar 8, 2020 10:40