Hvers vegna að gera erfðaskrá?

Lilja Margrét Olsen lögmaður segir að aðalástæðan fyrir því að fólk eigi að gera erfðaskrá, sé að tryggja að fólk í samsettum fjölskyldum geti setið í óskiptu búi, þó makinn falli frá. Lilja Margrét ætlar að bjóða eldra fólki að gera fyrir það erfðaskrá fyrir 30 þúsund krónur. Verðið er miðað við hefðbundna erfðaskrá, en hún ætlar líka að veita eldri borgurum 30% afslátt af annarri lögfræðiþjónustu. Sjá hér.

Lilja Margrét Olsen

Lilja Margrét Olsen

Eldri borgarar fá ekki gjafsókn

Lilja Margrét sem hefur velt réttindum eldra fólks mikið fyrir sér, segir að sér finnist skorta á að réttindi þeirra sem eldri eru, sé virt í samfélaginu. Hún nefnir sem dæmi, eldra fólk á ellifíeyri frá Tryggingastofnun eingöngu sem þurfti lögfræðiaðstoð vegna galla sem komu upp í húsnæði. Það þýddi málskostnað uppá um eina milljón króna. Þau sóttu um gjafsókn en fengu ekki, þar sem þau uppfylltu ekki skilyrðin. Hún segir að þetta þurfi að endurskoða þar sem þjóðin sé að eldast.

Allir eiga rétt á að bera mál undir dómstóla

Ýmsir hópar sem höllum fæti standa í samfélaginu eiga samkvæmt lögum rétt á gjafsókn og einstaklingur sem hefur undir 2 milljónum króna í árstekjur á einnig rétt á henni. Það þýðir að sá einstaklingur má ekki hafa hærri tekjur en 167 þúsund krónur á mánði. Þeir sem eru með 170 þúsund krónur eiga ekki rétt á gjafsókn og eru þar af leiðandi taldir geta staðið undir málskostnaði sjálfir. Þetta telur Lilja Margrét að standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. „Allir eiga rétt á að bera mál sín undir dómstóla“, segir hún „en það hafa bara ekki allir eldri borgarar þann rétt á Íslandi og málið er sérstaklega alvarlegt þegar fólk þarf að verjast í dómsmáli en uppfyllir ekki skilyrði fyrir gjafsókn af þeirri ástæðu að það á skuldlaust íbúðarhúsnæði sem dæmi. Gildir þá einu hvort tekjur viðkomandi séu undir öllum viðmiðunarmörkum“.

Stjúpbörn geta farið fram á að búi sé skipt              

Lilja Margrét segir að þeir sem vilja tryggja að maki þeirra geti setið í óskiptu búi eftir þeirra dag, eigi að gera erfðaskrá til að koma í veg fyrir að erfingjarnir fari fram á að búinu sé skipt. Þetta á við ef fólk er í síðara hjónabandi og stjúpbörn eru til staðar. Stjúpbörnin geta farið fram á að búi sé skipt ef foreldri þeirra fellur frá, jafnvel þó stjúpforeldrið sé á lífi. Með ákvæði í erfðaskrá er hægt að tryggja að eftirlifandi maki geti setið í óskiptu búi við þessar aðstæður, en þá hvílir á honum sú kvöð að rýra ekki eignir búsins umfram það sem eðlilegt getur talist.

Börnin fái allan arfinn

Önnur ástæða þess að að það getur verið ástæða fyrir fólk að gera erfðaskrá, er að hjónaskilnuðum fjölgar. Lilja Margrét segir að margir átti sig ekki á því að arfurinn sem rennur sjálfkrafa til barna þeirra, rennur til þeirra sem hjúskapareign. Arfurinn kemur þá til helmingaskipta við hjónaskilnað. Ef menn geri erfðaskrá geti þeir búið svo um hnútana að arfurinn verði séreign barnsins sem erfir.

Hægt að ráðstafa þriðjungi eigna annað

Þriðja ástæðan fyrir því að menn gera erfðaskrár, er sú að fólk hefur rétt á að ráðstafa þriðjungi eigna sinna til annarra en lögerfingja. Hafi menn áhuga á að arfleiða til dæmis Háskólann eða Rauða krossinn að eignum sínum, geta þeir gert það með erfðaskrá, en þó er aldrei hægt að ráðstafa meira en þriðjungi eignanna með þessum hætti. Lögerfingjar fá ævinlega tvo þriðju hluta.

 

Ritstjórn september 22, 2015 10:50