Séreignasparnaður hófst hér á landi með lagasetningu árið 1997og búist er við að á næstu áratugum verði þessi sparnaður helsta eign þeirra sem fara á eftirlaun. En hvenær er best að taka séreignasparnaðinn út? Er betra að gera það fyrir starfslok eða eftir?
Séreignasparnaðurinn er ólíkur greiðslum úr lífeyrissjóði að því leyti að hann erfist að fullu og það leggst ekki á hann erfðafjárskattur. Hann er líka undanþeginn fjármagnstekjuskatti. En séreignasparnaðurinn var ekki skattlagður þegar hann var greiddur inn í sjóðinn og þess vegna leggst á hann tekjuskattur þegar hann er tekinn út. Ef hann er tekinn út allur í einu, bætist hann við þær tekjur sem menn hafa fyrir, sem getur þýtt að hann fer allur í hæsta skattþrep, sem er 46,2%. Ef menn kjósa hins vegar að taka hann út á löngum tíma, eru meiri líkur á að skattur af honum verði minni, en það fer eftir því hvaða tekjur aðrar fólk er með. Margir kjósa að nota séreignasparnaðinn til þess að auka ráðstöfunartekjur eftir starfslok og bæta sér þannig upp minni tekjur.
Að mati Björns Berg Gunnarssonar deildarstjóra hjá VÍB er slæmt að bæta séreignasparnaðinum þannig við, án þess að breyta neyslunni. Þá eru menn í sömu sporum og áður þegar séreignasparnaðurinn er uppurinn, þar sem útgjöld hafa ekki lækkað, en tekjurnar hafa gert það. Hann segir hagkvæmara að ganga fyrst á almennan sparnað sem ekki þarf að greiða tekjuskatt af, en byrja síðan á séreignasparnaðinum. Rétt er að taka fram að úttekt sparnaðar úr séreignasjóði hefur almennt ekki áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, hjá þeim sem hafa sín eftirlaun frá stofnuninni. En hún getur skert uppbætur ef menn hafa þær. Úttekt séreignasparnaðar hafði á sínum tíma áhrif á greiðslur frá TR, en því fyrirkomulagi var breytt.