Hverjar eru skyldur okkar að annast aldraða foreldra?  

Um 44 milljónir fullorðinna Bandaríkjamanna annast aldraða foreldra sína. Fólk lifir lengur sem gerir það að verkum að við erum sjálf að eldast, þegar foreldrar okkar fara að þurfa á okkur að halda. Margir sem eru komnir yfir sextugt upplifa að þeir eru aðal umönnunaraðilar foreldra sinna.  Þegar fólk eldist fer það oft að glíma við alls kyns heilbrigðisvandamál, á sama tíma og það þarf að sinna öldruðum foreldrum. Það er krefjandi hlutverk, bæði líkamlega og tilfinningalega.

Þannig hjóðar upphafið að grein eftir Alisa Sabin sem birtist á vefnum sixty and me og fer hér á eftir í lauslegri þýðingu og endursögn.

Setja öndunargrímuna fyrst á sig

„Um hvað snýst umönnunin?“ spyr greinarhöfundur. „Hverjar eru skyldur okkar við foreldrana og við okkur sjálf? Við þessu er ekkert eitt svar, en það er full ástæða til að velta fyrir sér, hvernig hægt er að gera þetta tímabil í lífi okkar og foreldra okkar sem þægilegast og ánægjulegast.“ Höfundurinn heldur áfram og segir að foreldrar okkar geti ekki krafist meira af okkur en við erum fær um að gefa og rifjar upp að í flugvélum sé fólki ráðlagt að setja öndunargrímuna á sig fyrst, en síðan þann sem þeir eru að aðstoða. Þannig þurfi fólk einnig að hugsa í umönnuninni fyrst um sig og síðan um aldraða foreldrið. Þess vegna sé nauðsynlegt að halda heilsu, bæði til að vera upplagður og til að geta verið til staðar fyrir foreldrið eins lengi og mögulegt er. Þá þarf eins og svo oft áður að borða hollan mat og hreyfa sig. Gera líka eitthvað skemmtilegt, þannig að menn séu glaðir og klárir í hvað sem er þegar þeir mæta hjá foreldrunum.

Að útvega aðstoð

Greinarhöfundur segir að það sé hægara sagt en gert að útvega aðstoð við umönnunina. En það þarf að nota alla sem tiltækir eru og oftast er það nánasta fjölskylda. Það séu dæmi um systkini sem hafi skipst á að annast foreldra sína, en það séu einnig dæmi þar sem hlutirnir hafi farið úrskeiðis og ósætti komið upp milli systkina um aðferðir og leiðir við umönnunina. Margir aldraðir foreldrar þurfi umönnun allan sólarhringinn. Það eru þrískiptar vaktir uppá hvern einasta dag. Það þyrfti fjóra starfsmenn til að sinna slíku og fólk ætti ekki að stefna lífi og limum í hættu til að veita foreldrum sínum aðstoð, sem líklega væri hvort eð er ekki fullnægjandi.

Erfitt fyrir foreldrana að aðrir fari að ráða yfir þeim

Það er erfitt að vera uppkomið barn í umönnunarhlutverki, en það er líka erfitt fyrir foreldrið sem á í hlut, segir í greininni. Það er erfitt fyrir foreldrana að sætta sig við að börnin séu allt í einu farin að ráða yfir þeim. Faðir þinn eða móðir, sem voru vön að ala önn fyrir þér, eru allt í einu orðin háð því að þú sjáir um þau. Þeim líður oft illa í þessum aðstæðum, eru kvíðin og finnst auðmýkjandi að vera uppá aðra komin. Við verðum að leggja okkur í líma við að skilja hvernig þeim líður og hvernig tilfinningar þetta eru.

Peningar

Svo eru það peningamálin, ef það þarf að kaupa aðstoð kostar það peninga. Aðstæður hér á Íslandi eru aðrar en í Bandaríkjunum, en það breytir ekki því að það getur reynst nauðsynlegt að kaupa þjónustu af einkaaðilum. En hér bjóða til dæmis sveitarfélögin margvíslega þjónustu fyrir eldra fólk, það er hægt að fá akstur sem kostar ekki mikið, fá fólk til að þrífa og það er hægt að panta sér mat ef menn geta ekki eldað sjálfir. Þá er boðið uppá dagdvalir á ýmsum stöðum, en þangað kemur fólk yfir daginn, borðar og hittir jafnaldra. Hvíldarinnlagnir eru til, en það er ekki hægt að panta sér hjúkrunarheimili þegar þar að kemur, heldur þarf að sækja um það hjá Færni- og heilsumatsnefnd á hverju landsvæði.

Elliglöp

Heilabilun kemur fram á mismunandi hátt hjá öldruðu fólki, sem elliglöp, Alzheimer eða Parkinson, svo dæmi séu tekin. Öll valda þau skerðingu hjá fólki og jafnvel persónuleikabreytingum sem erfitt er að eiga við. Það tekur á, þegar ástvinir breyta um karakter og fara að taka reiðiköst og lesa yfir aðstandendum, sem eiga sér einskis ills von. Segja hluti sem særa og sýna þeim jafnvel hreinan dónaskap. Greinarhöfundurinn ráðleggur fólki að hugsa til baka, hvernig voru mamma eða pabbi áður en þau veiktust? Hvað hefðu þau sagt hefðu þau vitað hvað var framundan? Þau hefðu áreiðanlega ráðlagt þér að taka það ekki inná þig, þó þau væru ekki lengur fær um að umgangast þig af hlýju og ástúð. Það er ekki við slíku að búast af fólki með heilabilun.

Álag á önnur samskipti

Það fylgir því álag að annast aldraðra foreldra, en það kallar líka fram álag í öðrum samböndum, til að mynda milli systkina. Það getur einnig valdið erfiðleikum í hjónabandi þegar mestallur frítími annars makans fer í að annast foreldrið eða foreldrana. Kannski voru hjónin búin að ætla sér að fara að ferðast og hafa tíma fyrir sig þegar efri árin færu að nálgast. Það er tómt mál að tala um við þessar aðstæður. Það er mikilvægt að hugsa það hvernig hægt er að samræma öll þessi hlutverk og leita jafnvel ráða hjá sérfræðingum við að finna út hvernig hægt er að gera það.

Kostirnir

En það er ekki bara erfitt að hugsa um aldraða foreldra þegar við erum sjálf að eldast. Það eykur að vísu álag, bæði líkamlegt og andlegt, en veitir á móti mikla ánægju og vellíðan. Það er ekki margt sem fyllir hugann jafn miklu þakklæti og það að annast og gefa af sér í samskiptum við ástvini. Það getur verið stórkostlegt að fylgja einhverjum síðasta spölinn á þessari jörð.

Um hvað snýst þetta allt saman? Hver er tilgangur lífsins? Fólki finnst stundum að það fái svör við þessum spurningum þegar það aðstoðar móður sína eða föður í gegnum þessa vegferð, úr lífinu í dauðann. Menn líta til baka, horfa yfir líf sitt og velta fyrir sér hvaða þýingu það hafi haft fyrir foreldrana og það sjálft. Jafnvel þótt foreldrar okkar séu ekki lengur færir um að muna, gerum við það þegar við sitjum við banabeð þeirra. Það er yndislegt að umkringja þann sem er að fara með fallegum munum og myndum af gleðistundum í lífi hans eða hennar.

Að gleðjast og gleðja öldruðu foreldrana

Hvort sem þú hefur tekið að þér að annast aldrað foreldri þitt af kærleika, skyldu eða samkvæmt hefðum í samfélaginu eða fjölskyldunni, þá er ýmislegt sem við skuldum foreldrum okkar og sjálfum okkur, segir í greininin og bætt er við að í báðum tilvikum sé það það sama. Kærleikur, hamingja og gleði. En ekki gera endilega ráð fyrir þakklæti frá foreldrunum á þessu stigi, sérstaklega ekki ef þau hafa fengið heilabilun af einhverjum toga og eiga erfitt með að tjá tilfinningar.

Greinarhöfundur bendir fólki á að gera allt sem það getur til að gleðja sjálft sig og foreldrana. Hvað er það sem veitir þér gleði og hvað er það sem gleður foreldrana eða foreldrið? Það er gott að hugleiða það og taka sér síðan tíma til að gera eitthvað skemmtilegt með þeim og njóta þess.

„Foreldrar þínir gáfu þér líf og þér var ætlað að lifa því. Þú heldur kannski að hamingja og skemmtun sé það sama. En það er tvennt ólíkt. Hamingjan er friðsæl og hún getur varað lengi. Skemmtun snýst um gleði og fjör. Ef það er mögulegt, þá reyndu að hafa það skemmtilegt með aldraða foreldrinu,“ segir greinarhöfundurinn.

„Við erum öll að eldast og fetum okkur áfram í gegnum lífið í leit að lífshamingjunni. Sambönd milli foreldra og uppkominna barna þeirra eru afar mismunandi og breytast stöðugt. Það er um að gera að finna út hvað virkar best í ykkar tilviki og njóta daganna.“

Ritstjórn júlí 1, 2021 08:50