Verkefni á miðjum aldri sem eru sjaldan rædd

Mamma ímyndaði sér að það yrði frábært að fara á eftirlaun. Hún taldi niður dagana og sá fram á að vera á Flórída á veturna og ferðast til spennandi staða á óskalistanum sínum þess á milli. En það varð ekki þannig.

Í stað þess að dveljast á Flórída löngum stundum er hún föst í snjónum heima hjá sér í New York-fylki. Hún spókar sig ekki á lystisnekkjum eða ferðast um heiminn. Þess í stað heimsækir hún 89 ára gamla móður sína á hverjum degi á hjúkrunarheimili, en hún glímir við heilabilun. Hún sem ætlaði að lifa frjáls eins og fuglinn fljúgandi er undirlögð af álagi. Mamma er rétt rúmlega sextug.

„Ég sá efri árin ekki fyrir mér svona,“ segir hún og er ekki ein um það.

Þannig hefst grein eftir bandaríska sálfræðinginn Frank J. Infurna, sem birtist á vefnum conversation.com. Hann greinir frá rannsókn sem hann hefur ásamt öðrum gert meðal fólks á miðjum aldri, eða 40 til 65 ára. Hún stóð yfir í tvö ár og fylgst var með lífi þeirra, heilsufari og líðan. Við stikluðum á stóru í þessari áhugaverðu grein.

„Fólk á miðjum aldri stendur í auknum mæli frammi fyrir því erfiða vali að ákveða hvernig það skiptir tíma sínum og peningum, milli sín, foreldra sinna og barnanna sinna,“ segir í greininni. „Niðurstaða okkar var að þetta aldursskeið er orðið að erfiðleikatímabili í lífi fólks. Ekki í þeim skilningi sem menn hafa stundum lagt í það, sem er að fólk fari að bæta sér upp liðinn tíma þegar það eldist og reyni að endurlifa ungdómsárin þegar börnin eru farin að heiman.

Það er ekki mikill tími fyrir þá sem eru miðaldra og þar yfir til að ferðast um heiminn, eða eyða helling af peningum í að kaupa rauðan sportbíl. Fólk getur gleymt því.“

Foreldrahlutverk gagnvart eldri foreldrum og uppkomnum börnum

Fram kemur í greininni að margir sem eru komnir um og yfir miðjan aldur finnst þeim beri skylda til að annast bæði foreldra sína sem eru að eldast og börnin sín. Bent er á að í Bandaríkjunum sé almennt ekki gert ráð fyrir því að fólk annist eldri foreldra. Það sama gildir að mestu hér á landi líka. Það sem fólk hefur gert til að mæta þessu, samkvæmt rannsókninni sem hér segir frá, er að minnka starfshlutfall, eða fara í starf sem er minna krefjandi til að geta annast foreldra sína. Kannanir sýna að það taki sinn toll, bæði andlega og líkamlega að reyna að sinna hvorutveggja, starfi og eldri foreldrum.

Fólk á miðjum aldri stendur auk þess frammi fyrir því að uppkomnu börnin þurfa lengur á þeim að halda, miðað við það sem áður var. Aðallega vegna þess hversu lengi þau eru í námi. Þar við bætist að þau eiga erfiðara en áður með að fá vinnu. Þetta veldur foreldrunum áhyggjum.

Lengra líf en færri tækifæri

En hvað er það sem gerir það að verkum að lífið er að breytast hjá miðaldra fólki? Í fyrsta lagi lifa foreldrar þeirra sem nú eru miðaldra lengur en nokkru sinni áður. Á síðustu hundrað árum hafa lífslíkur fólks aukist verulega. Hér á landi geta konur vænst þess að verða 84 ára, en karlar 81 árs. Kostirnir sem eru í stöðunni eru að foreldrar miðaldra fólks búi út af fyrir sig, fái heimilisþjónustu, eða búi í þjónustuíbúð og fari síðan á hjúkrunarheimili. Kostnaður við þetta er mismunandi en hefur farið hækkandi, segir í þessari bandarísku grein. Við þetta bætist svo að uppkomnu börnin slá því á frest að stofna heimili, vegna þess að þau fá ekki öruggt starf.

Fjárhagsleg áhætta vex

Fólk er oft á hátindi ferils síns þegar það kemst á miðjan aldur og þar yfir. Þrátt fyrir það á þetta fólk erfiðara með það en í fljótu bragði virðist að mæta þeim verkefnum sem bíða þess á þessu aldursskeiði. Foreldrar sem hafa skrifað uppá námslán fyrir börnin sín hafa til dæmis aukið fjárhagslega áhættu sína.

Laun hafa staðið í stað og erfiðleikar á vinnumarkaði hafa stuðlað að óvissu í atvinnumálum. Auk þess hafa þeir sem eru miðaldra oft áhyggjur af heilsu sinni. Kostnaður sem tengist heilsufari hækkar með aldrinum og margir eiga erfiðara með að ná endum saman. Þetta minnkar ráðstöfunartekjur þeirra. Fólki á miðjum aldri sem verður gjaldþrota í Bandaríkjunum fjölgar.

Hvað er hægt að gera?

Þó að staða þeirra sem eru miðaldra og þar yfir sé ekki góð, þá bindur greinarhöfundur vonir við að aðstæður á vinnumarkaði og stefnubreyting hjá stjórnvöldum geti breytt stöðunni og létt þeim lífið sem annast aldraða foreldra sína.

Rannsóknir sýni að þjálfun eða námskeið fyrir fólk sem er í þessum aðstæðum geti létt því lífið. Þau geri fólki kleift að skilja betur heilsufarsvanda foreldranna og kenni því að huga betur að sjálfu sér, svo að það brenni ekki út.

Vinnustaðir geti komið inní myndina með því að bjóða sveigjanlegan vinnutíma, en það hjálpi vinnandi fólki sem sjái um foreldra sína.

Nokkur fylki í Bandaríkjunum bjóða uppá leyfi á launum í 12 vikur til umönnunar eldri foreldra. Bent er á í greininni að Bandaríkin ættu að taka Evrópuríkin sér til fyrirmyndar, þegar kemur að því að veita fólki launað leyfi til umönnunar, til að mynda eldri foreldra. Frumvörp um þetta mál hafa verið lögð fyrir Bandaríkjaþing.

Það er ekki mikill skilningur á stöðu miðaldra fólks í dag, að mati greinarhöfundar. En þetta fólk gegni mikilvægu hlutverki á vinnustöðum, í fjölskyldum og í samfélaginu. Ef félagslegur stuðningur við þennan hóp breytist ekki og stefnan í málefnum hans ekki heldur, þá er hætta á að vandamálin sem eldri Bandaríkjamenn standi frammi fyrir muni bara aukast á næstu árum.

Ritstjórn mars 11, 2021 07:28