Einföld ráð sem stuðla að bættum svefni

Margir glíma við svefntruflanir og það er algengara eftir því sem við eldumst. Algengast er að svefnþörf fullorðinna sé 7–8 klukkustundir, en stundum nær fólk ekki svo löngum svefni. Á Heilsuveru segir að helstu einkenni svefntruflana séu þessi:

 • Lengri tíma tekur að sofna.
 • Algengara er að vakna á nóttunni.
 • Erfiðara er að sofa fram eftir.
 • Þreyta og dagsyfja.

Fyrir marga er of stuttur svefn það sem veldur þreytu og vanlíðan yfir daginn. Þá þarf ef til vill að skoða svefnmynstrið og gefa sér tíma til að hvílast. Óreglulegur svefn er ekki eins endurnærandi eins og góður reglulegur nætursvefn. Á Heilsuveru segir að rétt sé að leita læknis ef svefntruflanir eru langvinnar eða leiða til verulegrar dagsyfju og þreytu. Síðan koma nokkur einföld ráð sem sögð eru geta komið að góðum notum við svefntruflanir.

 • Mikilvægast er að fara á fætur á sama tíma á hverjum morgni.
 • Forðastu að leggja þig á daginn og farðu í háttinn á sama tíma öll kvöld.
 • Ef þú getur ekki sofnað, farðu þá fram úr og gerðu eitthvað annað, t.d. að lesa í góðri bók, hlusta á rólega tónlist. Leggðu þig aftur þegar þig syfjar á ný.
 • Dagleg líkamleg áreynsla leiðir til dýpri svefns, en óreglulegar æfingar, einkum seint á kvöldin, hafa engin eða slæm áhrif á svefninn nóttina eftir.
 • Rólegheit að kveldi auðvelda þér að sofna. Forðastu mikla líkamlega áreynslu og hugaræsingu. Betra er að hafa daufa lýsingu í kringum sig á kvöldin.
 • Kaffi truflar svefn og rétt er að neyta þess í hófi og aldrei eftir kvöldmat. Sama máli gegnir um te og aðra drykki sem innihalda koffein.
 • Forðast ber neyslu áfengra drykkja. Alkóhól truflar svefn.
 • Létt máltíð fyrir svefninn hjálpar mörgum að sofna, t.d. flóuð mjólk og brauðsneið.
 • Birtan af tölvu- eða sjónvarpsskjá getur truflað undirbúning svefns. Því er best að nota ekki þessi tæki síðasta klukkutímann fyrir svefn.
 • Heitt bað stuttu fyrir háttinn getur auðveldað sumum að sofna.
 • Hafðu hitastig í svefnherberginu hæfilega svalt. Sofðu við opinn glugga og hafðu dimmt í herberginu meðan þú sefur. Gættu að því að rúmið þitt sé þægilegt. Forðastu að horfa á sjónvarpið úr rúminu. Reyndu að draga úr hávaða í kringum þig.

Svefnlyf í skamman tíma geta hjálpað, sérstaklega til að rjúfa vítahring svefnleysis. Taktu aldrei svefnlyf nema þau sem læknir hefur ávísað á þig. Langvarandi notkun er oftast gagnslaus og getur verið skaðleg. Ef menn taka svefnlyf ættu þeir samkvæmt Heilsuveru að gera eftirfarandi:

 • Að sofna helst innan hálftíma.
 • Sofa vel alla nóttina (6–8 klst.).
 • Vakna endurnærðir að morgni.

Við notkun svefnlyfja er rétt að hafa í huga áhrif þeirra að deginum. Sum svefnlyf geta valdið þreytu og syfju að deginum, haft áhrif á jafnvægi, minni og aksturshæfileika. Áhrif þessi geta verið mismunandi eftir tegund svefnlyfsins og rétt að ræða við lækni ef þessara aukaverkana verður vart.

Ritstjórn ágúst 24, 2021 07:00