Hildur Finnsdóttir skrifar
Ég var nýbyrjuð á pistli sem átti að fjalla um bjartsýnina og gleðina sem Grái herinn hafði blásið mér í brjóst á Austurvelli; hvað það var gott að vera umlukin fjöldanum sem lét rigninguna ekkert á sig fá – fannst hún bara góð – og hvernig maður hristir af sér drungann eftir að maðurinn með ljáinn hefur á örfáum vikum gerst stórtækur nálægt manni. En þá hringdi síminn og veröldin snerist gjörsamlega á hvolf. Mér var nóg boðið.
Fyrst var það hann tengdapabbi á tíræðisaldri sem lifði svo gjörsamlega í núinu að læknirinn gat ómögulega sagt til um hvort hann hefði dottið og dáið eða dáið og dottið; það hefði alla vega gerst á einu augabragði. Þannig myndi ég vilja fara og þannig veit ég að hann vildi fara – bara ekki strax.
Svo var það Sigga frænka. Hún var föðursystir mín á níræðisaldri. Það skemmtilegasta sem hún gerði undir lokin var að láta stóra sterka tengdasoninn sinn hjóla með sig um allar trissur á „heldrimannahjólinu“ og drífa sig svo inn, með roða í vöngum, og syngja með honum íslensk ættjarðarljóð í löngum bunum. Hún bjó í útlandinu næstum alla sína ævi og var auðvitað búin að gleyma ýmsu en þegar kom að ljóðum og gömlum lögum var allt á hreinu og gleðin við völd. Þannig gæti ég líka hugsað mér að kveðja.
Í jarðarför tengdapabba komu, meðal annarra sem gott var að hafa nálægt sér á þeirri stundu, frændi minn og hans góða kona sem voru á leið til útlanda til að vera sem næst fársjúkum syni sínum. Ég man að ég óskaði þess innilega í hljóði að það yrði langt þangað til við hittumst næst. Mér varð því miður ekki að þeirri ósk því að við kvöddum drenginn þeirra, kornungan manninn, fyrir fáeinum dögum.
Já, svona er þetta en áfram höldum við hin; söknum, syrgjum og yljum okkur við góðar minningar, hugsaði ég og vissi ekki hvort ég átti að þakka almættinu fyrir að leyfa þeim öldruðu að fara eða áfellast það fyrir að fella unga manneskju í blóma lífsins. Og þá hringdi síminn.
Í mars síðastliðnum skrifaði ég pistil hér og var heitt í hamsi. Þar skammaðist ég ekki beinlínis út í óréttlæti almættisins heldur kerfisins sem er okkar mannanna verk og getur stundum gert líf okkar minnstu bræðra og þeirra nánustu svo miklu erfiðara en það þyrfti að vera. Aðallega var ég þó að dásama æskuvinkonu mína og fatlaða soninn hennar sem þrátt fyrir allt og allt voru staðráðin í að upplifa saman vorið í Brighton. Og það tókst þeim svo sannarlega! Sjá hér.
Hún hringdi áðan til að segja mér að hann væri farinn, eins og hendi væri veifað. Það finnst mér alveg ólýsanlega óréttlátt en áfram höldum við hin…….