Fyrir jólin rak á fjörur fjölskyldu minnar bókin, Morðleikir: 100 auðveldar til ómögulegar gátur til að leysa með rökhugsun, leikni og ályktunarhæfni. Hér eru á ferð mismunandi flóknar gátur sem allar eru leysanlegar með því að beita aðferðum rökfræðinnar. Það er sérlega skemmtilegt að spreyta sig á þeim með stórfjölskyldunni. Við reyndum okkur við þetta og það kom á óvart að hin yngri voru mun snjallari við að finna út úr þessu en hinir elstu.
Sonardóttir mín er fjórtán ára og hún var enga stund að finna leiðina og leysti sjö gátur á örstuttum tíma meðan ég, 65 ára, glímdi lengi við hverja og eina. Hlutirnir fóru svo á flug þegar við lögðum öll saman höfuðið í bleyti í jólaboði. Þá var hver gátan af annarri leyst. Bókin er þannig uppbyggð að lesandinn slæst í för með Ályktara Rökvíss og rannsakar morð. Gefnar eru vísbendingar sem snúast um að finna hver var hvar hvenær og út frá því má finna þann sem framdi morðið og hvers vegna.
Með hverri gátu fylgir saga af því hvað gerðist, listi yfir grunaða og upplýsingar um þá og þann látna. Það er líka búið að setja upp töflur og þar má raða inn vísbendingunum og þegar það er rétt gert er niðurstaðan oftast nær ljós. Bókin er myndskreytt og þar er finna margt skemmtilegt bæði þekkingu, fyndna kafla og ansi sniðug heilabrot.
Þetta er ekki bara þrautabók heldur einnig þjálfun í rökhugsun, kenningasmíð og því að komast að skynsamlegri niðurstöðu út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir. Það er beinlínis verið að kenna aðferðir rökfræðinnar sem ekki er lengur kennslugrein í framhaldsskólum. Hér eru líka ýmsir snúningar og skemmtilegir orðaleikir. Það er líka mjög áhugavert hvernig tákn eru notuð hér m.a. tákn fyrir persónurnar og ýmislegt annað sem upp kemur í þrautunum.
Höfundurinn G. T. Karber ólst upp í smábæ í Arkansas í Bandaríkjunum og er sonur dómara og lögmanns. Hann lauk prófi í stærðfræði og enskum bókmenntum frá University of Arkansas og útskrifaðist síðan með MFA-gráðu frá University of Southern California. Sem aðalritari The Hollywood Mystery Society hefur hann skipulagt fjölda glæpaviðburða á Los Angeles-svæðinu. Í þessari bók er hann í essinu sínu og hér er komin ný og skemmtileg leið til að fá kynslóðirnar til að vinna saman og nýta styrkleika hvers og eins.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.