Í Vík hetjuskaparins

Nanna Rögnvaldardóttir rithöfundur skrifar 

 

Eins og Facebook-vinir mínir vita nú þegar, þá er ég í Angra do Heroismo þessi jólin. Hvar er það eiginlega? spyrjið þið kannski. Angra, sem fullu nafni mun heita Muito Nobre, Leal e Sempre Constante Cidade de Angra do Heroísmo – Hin afar göfuga, trygga og ætíð staðfasta borg Vík hetjuskaparins, er á eynni Terceira, sem er ein Azoreyja, eitthvað um þrjú þúsund kílómetra suður af Íslandi, örlítið vestar en í beina línu.

Mig hafði lengi langað að koma til Azoreyja en fannst eiginlega ekki taka því á meðan ég var að nota stutt jólafrí í ferðina. En nú hef ég nægan tíma og ætla að vera hér í tæpan mánuð – þó ekki nema í viku hér á Terceira, svo fer ég til annarra eyja. Ég næ samt ekki að heimsækja þær allar, þær eru níu og ég vil gefa mér rúman tíma á hverri eyju sem ég heimsæki.

Ef mér líkar vel (sem mér sýnist af fyrstu kynnum) kem ég bara aftur seinna til að heimsækja þær fjórar sem ég þarf að sleppa núna. Ef til vill á öðrum árstíma en það er fínt að vera hér um miðjan vetur. Loftslagið er milt, hitastigið núna í jólavikunni yfirleitt 14-17°C á daginn samkvæmt spám og mjög lítill hitamunur dags og nætur. Jú, það rignir töluvert hér – en minna en í Reykjavík núna í vikunni, samkvæmt spám. Og ég kom með bæði fóðraða regnkápu, regnslá og regnhlíf svo að ég er við öllu búin.

Miðbær Angra do Heroismo.

Ýmsir hafa spurt mig hvernig sé hægt að ferðast til Azoreyja. Ég keypti miða með portúgalska flugfélaginu Tap og flaug til Lissabon í gegnum Amsterdam (Tap er í samstarfi við Icelandair svo að flugið Keflavík-Amsterdam var með Flugleiðum, en gat tékkað töskuna inn alla leið). Ef ég hefði verið að fljúga til Ponta Delgada, sem nú er höfuðborg eyjaklasans, hefði ég kannski komist samdægurs á leiðarenda en það eru færri flugferðir hingað til Angra. Svo að ég gisti á Star Inn (100 m frá flugvellinum í Lissabon) og flaug með SATA/Azores Airlines hingað til Angra. Ferðir sem ég á eftir að fara á milli eyjanna eru líka með því flugfélagi.

Þetta er tilvalið hótel fyrir rithöfunda.

Annars er á veturna flogið til eyjanna frá Lissabon, Porto, Amsterdam, París, Boston, Toronto, Montreal og New York og á sumrin frá fleiri stöðum. Það eru flugvellir á öllum eyjunum en flestir eru bara notaðir til ferða innan eyjaklasans. Á veturna ganga ferjur eingöngu á milli Pico, Faial og Sao Jorge, þriggja eyja sem eru tiltölulega nálægt hver annarri.

Hér í Angra gisti ég á hóteli sem heitir Azores Book Hotel og er helgað bókum, ef svo má segja., sem er nú aldeilis eitthvað fyrir mig. Hér er bókastofa með þúsundum bóka og reyndar hægt að kaupa sumar þeirra. Þær eru að vísu flestar á portúgölsku og ég skil ekki bofs, en mér líður vel innan um bækur. Sérhvert herbergi er helgað einhverju skáldi eða rithöfundi. Ég var fyrst á herbergi tileinkuðu Miguel Cervantes og Don Quixote en þar var ekkert skrifborð og þar sem ég er hingað komin m.a. til að skrifa gekk það ekki, svo að ég var færð yfir í herbergi sem helgað er F. Scott Fitzgerald og The Great Gatsby. Það er reyndar betra herbergi, m.a. með stórum svölum með frábæru útsýni. Það er í nýrri viðbyggingu sem er reyndar auð að öðru leyti (jólin eru ekki mikill ferðamannatími hér en ég er þó ekki eini hótelgesturinn). Einhverjum þætti það kannski óþægilegt en mér finnst það bara fínt. Afar hljóðlátt og rólegt og ef ég vil félagsskap get ég bara sest í bókastofuna.

Ójú, það rignir stundum hérna. En rigningin er ekki köld og hún dettur beint niður á mann (hingað til að minnsta kosti).

Starfsfólkið hér er einstakt. Ég vissi fyrirfram að ekkert veitingahús er á hótelinu (en fínn morgunmatur) og líka að hér í bænum yrðu líklega öll veitingahús lokuð, nema þau sem eru á hótelum. En ég hafði ekki sérstakar áhyggjur af því, get alltaf reddað mér með samloku á bensínstöð ef annað bregst (reyndar hef ég ekki séð neina bensínstöð hér enn). Ég hef jú skrifað þrjár matreiðslubækur um jólamat en þarf ekkert endilega að borða einhvern sérstakan mat um jólin. Stundum hef ég borðað á fínasta veitingahúsinu í bænum þar sem ég er, stundum bara eitthvað hversdagslegt. Og einu sinni voru bornir fram 28 meze-smáréttir fyrir mig eina á aðfangadagskvöld, sem var þó bara venjulegt þriðjudagskvöld því að ég var í Famagusta á Norður-Kýpur og þar eru ekki haldin jól.

En hún Cristina, sem vinnur hér í afgreiðslunni, hafði samband við mig fyrir viku og bauðst að fyrra bragði til að hjálpa mér að finna stað til að borða á. Sendi mér matseðla frá þeim þremur hótelveitingahúsum sem hún vissi til að væru opin og þegar ég var búin að velja tvö þeirra pantaði hún fyrir mig og lagði meira að segja út greiðslu úr eigin vasa þegar annað þeirra vildi fyrirframgreiðslu. Þetta kallar maður nú þjónustu.

Það var svo ekki henni að kenna að maturinn á veitingahúsinu sem ég valdi fyrir aðfangadagskvöld (á einu fínasta hótelinu í bænum) var ekkert sérstakur. Hefðbundinn azoreyskur matur, grænmetissúpa, saltfiskur með harðsoðnum eggjum og kjúklingabaunum, nautasteik með sveppasósu og ostakaka. Getur allt verið mjög gott ef það er vel gert og mér leist vel á þetta en þetta var ekkert sérstakt, skammtarnir of stórir (fyrir mig allavega) og komu allt of hratt, jafnvel þegar ég bað um að láta dálitla stund líða á milli rétta. Og steikin var svo seig að ég gat ekki skorið hana, hvað þá tuggið (ég kvartaði auðvitað og fékk annan bita sem var bæði minni og meyrari).

Ég er yfirleitt ekkert sérlega hrifin af hlaðborðum á hótelum. En þetta var allavega mun betra en fimmréttaða máltíðin sem ég fékk á aðfangadagskvöld.

Jóladagsmaturinn (í hádeginu, á öðru hóteli hér handan við götuna) var mun betri, enda var hann hlaðborð og ég gat valið það sem ég vildi, hvað mikið ég vildi og borðað á þeim hraða sem mér sýndist. En ég hef borðað alls konar jólamat í ýmsum löndum og gæðin hafa verið með ýmsu móti. Ef ég hefði verið í íbúðargistingu hefði ég örugglega eldað mér eitthvað sjálf, gerði það í Marseille í fyrra.

Annars er ég bara að skrifa – gengur mjög vel eftir að ég fékk skrifborðið – og rölta um bæinn. Angra do Heroismo, Hetjuskaparvík, er mjög fallegur bær, snyrtilegur og í miðbænum er mikið af fallegum, gömlum húsum og mannvirkjum. Sum þeirra skemmdust reyndar mikið í jarðskjálfta 1980 en þau voru endurreist og löguð á tiltölulega skömmum tíma og 1983 var miðbærinn settur á Heimsminjaskrá UNESCO. Þó ekki eingöngu vegna húsanna, heldur ekki síður vegna þess hve Angra (sem var höfuðstaður Azoreyja framan af) var mikilvægur staður í sögu landafunda Portúgala á 15. og 16. öld. Þá var víkin oft full af skipum á leið til og frá Austurlöndum eða Vesturheimi og mjög snemma risu hér fleiri höfðingjasetur, kirkjur, klaustur og virki en ætla mætti í smábæ á lítilli eyju.

Þarna kemur reyndar inn smátenging við Ísland. Brotakenndar heimildir þykja benda til þess að tveir sæfarar, Álvaro Martins Homem og João Vaz Corte-Real, hafi verið með Diðrik Píning (þekktur á Íslandi fyrir svokallaðn Píningsdóm) og Hans Pothorst í landkönnunarleiðangri með viðkomu á Íslandi og síðan siglt til Nýfundnalands og Labrador upp úr 1470. Diðrik Píning var síðar skipaður hirðstjóri á Íslandi og Homem og Corte-Real landstjórar á Terceira (Corte-Real hafði aðsetur í Angra, Homem í Praia á norðurhluta eyjarinnar) og hefur því verið haldið fram að það hafi verið laun þeirra fyrir landafundina. En allt er þetta mjög óljóst og kenningin um þetta nýtur ekki mikillar hylli lengur.

Ég hef stundum séð eldgos af svölunum mínum í Fossvoginum. Hér sé ég eldfjallið Monte Brasil af svölunum á herberginu mínu.

Eitt helsta einkenni Angra er Monte Brasil, höfði eða 200 m hátt fjall rétt vestan við miðbæinn, raunar eldfjall sem gaus þó bara einu sinni, fyrir um 20.000 árum ef ég man rétt. Gosið varð neðansjávar og fjallið er Surtseyjartýpan, nú algróið fjöbreyttum gróðri og umhverfið þar fallegt og skemmtilegt, með göngustígum, leikvöllum og útivistarsvæðum, en einnig virki sem áður þótti mjög mikilvægt fyrir varnir eyjarinar, gömlu nunnuklaustri og fleira. Ég skildi ekkert í því að eftir því sem ég gekk ofar í fjallið (það er auðveld uppganga en líka hægt að keyra þangað) heyrði ég oftar og oftar hanagal – en svo fór ég að rekast á mjög litskrúðuga hana sem þrömmuðu þarna um eins og þeir ættu staðinn.

Ég mæli sterklega með heimsókn þangað ef einhverjir eiga leið til bæjarins, og ekki síður með Garði hertogans af Terceira, sem er í miðbænum, stór og fjölbreytilegur garður, sem er bæði grasagarður og skemmtigarður, einkar fallegur og notalegur.

Íbúar Angra eru um 35.000 (íbúar eyjarinnar allrar eru um 53.000). Eyjan var numin af Portúgölum á 15. öld; var eins og ég sagði áður höfuðstaður eyjanna framan af en er nú ein af þremur höfuðborgum sjálfsstjórnarsvæðisins Azoreyja. Raunar var Angra höfuðborg Portúgals frá 1827 í nokkur ár, þ.e. aðsetur útlagastjórnar Maríu drottningar (sem var 7 ára þegar hún tók við ríki), en föðurbróðir hennar, Miguel, rændi völdum og náði fyrst í stað undir sig öllu ríkinu – nema eynni Terceira. Hetjuskapar-nafninu (do Heroismo) var bætt við heiti bæjarins eftir að íbúarnir vörðust árás manna Miguels á eyjuna 1829.

Ég er svo á leiðinni í skoðunarferð um Terceira og segi frá því í næsta pistli. Ég verð hér í fimm daga í viðbót en þá liggur leiðin til Madalena á eynni Pico.

Greinar eftir höfund: Nanna Rögnvaldardóttir