Ilmvötn eru ímynd hins æðsta munaðar og hafa verið það allt frá því menn fóru að fanga angan náttúrunnar í vökvaform. Forn-Egyptar notuðu ilmvötn og voru snillingar í að meðhöndla ilmefni og hið sama gilti um Indverja, Kínverja og fleiri Austurlandabúa. Hvort þekkingin barst til Evrópu eða var þróuð jafnhliða í þeirri heimsálfu er ekki gott að segja en í dag er blómlegur ilmvatnsiðnaður rekinn víða um lönd og jafnvel hér á Íslandi hafa menn leikið sér að því að setja saman ilmi. En er í lagi að nota sama ilmvatn alla ævi eða á maður að skipta reglulega? Er í lagi að blanda saman tveimur ilmvötnum og hversu oft og mikið á að spreia á sig af þessum dýrðlegu dropum?
Margir velja sér ilmvatn ungir að árum og það verður nokkurs konar einkennisilmur manneskjunnar og við komandi getur orðið alveg eyðilagður ef framleiðslu ilmsins er hætt. Aðrir skipta reglulega um ilmvatn eða eru með mörg í gangi í einu og velja eftir klæðnaði og tilefni hvað þeim þykir passa best. Og hér er ekkert einhlítt svar. Það fer einfaldlega eftir lífsstíl og smekk hvor leiðin hentar þér betur.
En flestir geta líklega verið sammála um að það jafnast fátt á við að anda að sér verulega góðu ilmvatni í fyrsta sinn. Það er eitthvað gersamlega heillandi við gott ilmvatn sem passar þér vel. Stundum er ilmurinn bara eitthvað svo mikið þú að þessi sama tilfinning hellist yfir í hvert sinn sem sprautað er úr flöskunni.
Ilmir eru hins vegar alls ekki einfaldir eða vandamálalausir. Sumir eru með ofnæmi fyrir ilmefnum, hnerra, skæla og hlaupa upp í rauðum flekkjum sé einhver nálægt þeim emð tiltekið ilmvatn á sér. Sumir ilmir eru líka svo höfugir að þeir valda höfuðverkjum hjá öðru fólki en þeim sem ber það. Þegar menn velja sér ilmvatn er gott að hafa það í huga að það eru takmörk fyrir hversu sterka lykt þú getur boðið öðrum upp á. Meðal ilmefna sem geta valdið óþoli eru, muskolía, amber, sandalviður og tea tree. Flest ilmvötn eru mynduð úr alkóhólgrunni og þau efni geta valdið ofnæmi. Hið sama gildir um ýmis gerviefni í ilmvötnum eins bensen, súlföt, formalín, paraben og ísómerar.
Hversu lengi endist ilmvatnið?
Mjög margir byrja á að sprauta á sig ilmvatni þegar þeir koma úr morgunsturtunni og telja það tryggt að þeir ilmi vel allan daginn. Svo er ekki í öllum tilfellum, sum ilmvötn gufa upp á um það bil sex klukkustundum meðan önnur endast í átta og upp í tólf tíma. Það fer eftir innihaldsefnunum. Sumar olíur í ilmvötnum síast inn í húðina og ilmurinn situr þess vegna lengur á manneskjunni. Sýrustig og gerð húðarinnar hefur einnig mikið um þetta að segja sem og hormónastarfsemi líkamans. Margar konur finna til að mynda fyrir því að þeim finnst lyktin af ilmvatninu þeirra breytast þegar þær fara á blæðingar. Ef húðin er mjög þurr getur það líka haft áhrif á hversu lengi ilmurinn endist á húðinni.
Ilmefni úr við, amber og mörgum austrænum olíum endast yfirleitt lengst en sítrus-, blóma- og ávaxtailmir gufa hratt upp. Ef um er að ræða eau de parfum sem er sterkari blanda endist ilmurinn lengur en eau de toilette er alltaf meira þynnt út og það endist því yfirleitt ekki lengur en þrjár klukkustundir. Í sumum tilfellum er þess vegna fullkomlega óhætt að vera með uppáhaldsilminn með sér í vinnuna og fríska upp á ilminn af og til. Ef fólk er statt á sólarströnd eða í miklum hita er líka óhætt að bæta á ilmvatnið reglulega því svitinn er fljótur að skola því burtu. Það er þó alltaf góð regla að fara varlega í að bæta við ilmvatnið sitt því í flestum tilfellum hættum við að skynja lyktina sjálf og þótt okkur kunni að finnast hún horfin er ekki víst að aðrir upplifi það þannig.
Hvernig veistu að nú er komið nóg eða frekar meira en nóg?
Það ætti aldrei að sprauta oftar en fjórum sinnum úr ilmvatnsflöskunni. Ein gusa úr úðaranum á hálsinn, ein á hvorn úlnlið og örlítið bak við eyru eða við naflann. Það er ekki skemmtilegt að lenda í því að aðrir kvarti undan yfirmáta sterkri lykt af þér og færist undan að setjast nálægt þér. Ef þér finnst of mikið hafa lent á húðinni getur þú lagt tissjú ofan á blettinn þar sem ilmvatnið lenti og tekið það svo af. Ef tissjúið liggur laust á húðinni ertu í góðum málum, ef það situr fast hefur þú sett alltof mikið. En svo er líka hægt að spyrja maka eða vin hvort þú ilmir eða af þér sé fnykur.
Er hægt að auka endingu ilmsins?
Það er hægt að auka endingu ilmsins á húðinni með því t.d. að bera gott rakakrem á húðina áður en þú setur á þig ilmvatn. Ilmurinn endist líka betur á ákveðnum stöðum en öðrum. Þess vegna setur fólk til að mynda ilmvatn á bak við eyrun, á hálsinn, innanverða úlnliði og rétt neðan við nafla. Á þessum stöðum er helst húðin yfirleitt jafnheit, óháð veðurfari og það varðveitir ilminn.
Þótt hér áður fyrr hafi tíðkast að hella ilmvatni á fingurna og bera það á er það ekki heppilegt. Það á aldrei að nudda ilmvatni inn í húðina. Ef fólk nuddar saman úlnliðunum eða nuddar með fingrum staðina þar sem ilmvatnið er sett dregur það úr krafti toppnótanna í ilminum og þær hverfa og þar með styttist endingartíminn. Með því að nudda blandast ilmefnin einnig olíunni í húðinni og það getur breytt lyktinni.
Er óhætt að blanda saman tveimur ilmvatnstegundum?
Já, það er óhætt að nota tvenns konar ilmvötn samtímis ef þau innihalda svipuð ilmefni. Til að mynda geta tveir blóma- og viðarilmir bætt hvorn annan, rósir og sedrusviður eiga til dæmis mjög vel saman og ná að lyfta hvor öðrum, skapa aukna dýpt.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.