Nokkur ráð til að vera aðlaðandi í augum annarra

Það er sama á hvaða aldri við erum, við viljum flest  líta vel út og bjóða af okkur góðan þokka. Á vefnum aarp.org, amerískum systurvef Lifðu núna er að finna þessar ráðleggingar.

  • Ef þú brosir á fólk auðveldara með að hefja samræður við þig. Fólki líður betur í návist brosandi fólks en fýlupúka.
  • Hugsaðu um andlitshárin. Karlmenn ættu að raka sig reglulega, þeir sem eru skeggjaðir ættu að snyrta skeggið á nokkurra daga fresti. Konur ættu að snyrta augabrúnirnar og plokka burt stök hár sem eiga það til að vaxa hér og þar út úr andlitinu.
  • Haltu hárinu í topp standi. Hárið er helsta prýði þín. Hugsaðu vel um það. Ef hárið lítur vel út er það aðlaðandi í augum annarra. Farðu reglulega í klippingu og haltu hárinu hreinu og greiddu.
  • Vertu í fötum sem passa á þig. Fólki líkar vel við þá sem eru vel klæddir. Vandaðu klæðaburðinn og kauptu föt sem passa þér, ekki of stór eða of lítil.
  • Haltu augnsambandi. Þegar þú ert að tala við einhvern er augnsambandið mikilvægt. Haldir þú augnsambandi við viðmælendur þína finnst þeim þeir vera mikilvægir í þínum augum og eru ánægðir með þig.
  • Ákveðið göngulag heillar. Berðu höfuð hátt og gakktu ákveðnum skrefum. Ákveðið fólk virkar sjálfsöruggt og aðlaðandi.
  • Lyktaðu vel. Engum líkar við vonda lykt. Allar tilraunir þínar til að líta vel út, fjúka beint út um gluggann ef þú lyktar illa. Farðu daglega í bað og hrein föt og notaðu svitalyktareyði. Burstaðu tennur, notaðu munnskol og ef andremma er viðvarandi vandamál getur læknirinn sennilega hjálpað upp á sakirnar.
  • Slappaðu af. Ertu alltaf að hugsa um hvað þú heldur að öðru fólki finnst um þig? Ef svarið við því er já ættir þú að hætta því. Taugaóstyrkt fólk er ekki aðlaðandi.
  • Hlæðu og komdu öðrum til að hlægja. Fólki líður vel í kringum glaðlynt fólk.
  • Líkamstjáning þín er mikilvæg. Ef þú lítur út fyrir að vera önnum kafin þorir fólk ekki að trufla þig. En ef þú lítur út fyrir að vera afslappuð hikar fólk ekki við að nálgast þig.
  • Spyrðu spurninga. Ekki tala endalaust um sjálfan þig. Þegar þú spyrð fólk um það sjálft ertu að sýna því áhuga og flestu fólki finnst það ekkert slæmt að aðrir sýni því áhuga.
  • Vertu í sterkum litum. Vertu í litríkum fötum en taktu þó tillit til litarhafts og taktu líka mið af því hvert þú ert að fara. Sjálfsöruggt fólk gengur í sterkum litum.
Ritstjórn mars 6, 2015 13:25