Það hefur verið fremur hljótt um Jónínu Benediktsdóttur íþróttafræðing undanfarnar vikur og mánuði. Jónína gerði garðinn fyrst frægan á Íslandi sem frumkvöðull í líkamsrækt fyrir áratugum síðan. Hún hefur í gegnum tíðina rekið fjölda margar líkamsræktarstöðvar og verið með heilsuþætti í útvarpi og sjónvarpi. Síðustu árin hefur hún verið hún verið fremst í flokki þeirra sem hafa aðstoðað fólk við að komast í detoxmeðferðir. „Ég vinn hálft árið í Póllandi þar sem ég er með fræðslu og einkaráðgjöf fyrir þá sem vilja ná betri heilsu. Ég starfa náið með læknum og sjúkraþjálfurum og öðru fagfólki sem er í sama geira og ég. Ég er nú búin að vera með annan fótinn í Póllandi í 13 ár,“ segir Jónína þegar Lifðu núna sló á þráðinn til hennar. „Ég er um það bil hálft árið þar og hinn helming ársins hér heima,“ segir hún.
Jónína og Gunnar Þorsteinsson maður hennar búa í húsi upp í sveit. „Þetta er alger paradís. Við búum innan þjóðgarðs í um 40 mínútna akstursfjarlægð frá Gdansk. Þetta er eitt alfallegasta svæðið í Póllandi.“ Þegar hún er spurð hvort hún sé orðin almælt á pólska tungu fer hún að hlæja. „Nei, ég er ekki búin að læra pólsku, ég tala hana illa. Þetta er erfitt tungumál. Í vinnunni held ég mína fyrirlestra jöfnum höndum á íslensku, skandinavísku, ensku og þýsku.“
Jónína var úti um hátíðirnar en segist vera á leið heim til fjögurra vikna dvalar um miðjan janúar. „Ég er flutt til Hveragerðis, flutti þangað í fyrir um það bil ári. Það er æðislegt að búa þar. Þetta er einn besti staður sem ég hef búið á. Sundlaugin í Hveragerði er mjög góð og svo eru yndislegar gönguleiðir í kringum bæinn. Þetta er réttur staður fyrir dreifbýlistúttu eins og mig,“ segir Jónína sem er fædd og uppalin á Húsavík. Hún segist sinna heilsuráðgjöf þegar hún er á landinu. „Draumurinn er að reka heilsuhótel á Íslandi. Ég er alltaf svo mikill Íslendingur í mér, svona eins og gömul framsóknarkerling. Vil bara íslenskan mat og kýs íslenska hönnun. Ísland er einfaldlega best og það er líka best að lifa í núinu. Ég mæli með því,“ segir hún að lokum.