Ástríður Svava, alltaf kölluð Svava, er komin yfir miðjan aldur og hefur varið kröftum sínum á starfsævinni við að liðsinna fólki með heilsuna. Hún er menntaður heilsunuddari, nam nálastungufræði og rak nuddstofuna Umhyggju í tæp 40 ár, fyrst við Suðurbæjarlaug, síðan á Vesturgötu og siðast á Suðurlandsbraut. Hún bauð upp á heildrænar meðferðir en hefur nú svo til hætt þeirri starfsemi. Hún heldur þó áfram að sinna sínum nánustu á nuddbekk heima þegar þörf krefur. ,,Mér þykir ómetanlegt þegar barnabörnin koma til mín af því þeim er illt hér og þar, kannski af vaxtarverkjum eða stundum illt inni í sér en þá er komið til ömmu og hún getur stundum gefið ráð,“ segir Svava en hún og eiginmaður hennar, Ingvar Ágústsson lífefnafræðingur, eiga þrjú börn sem eiga þrjú börn hvert svo afkomendur eru allnokkur hópur.
Hefur sungið með frá byrjun
Svava segir að það besta sem hún hafi gert um ævina, fyrir utan að eignast börnin, hafi verið að svara kalli vinkonu sinnar um að koma í kór. Svava ólst upp á Patreksfirði og minnist þess að söngur hafi komið mikið við sögu, hvort sem var heima eða úti í náttúrunni. Nú er þessi kór, sem Svava hefur sungið með frá stofnun, að verða 30 ára en hann hlaut nafnið Léttsveitin. Í tilefni afmælisins verður ýmislegt gert og augljóst er að tilhlökkun Svövu er mikil. Auðvitað verður blásið til tónleika sem verða haldnir í Háskólabíói þann 11 maí með glæsilegri hljómsveit og í framhaldi fer kórinn upp í flugvél og flýgur norður í land þar sem verða tónleikar á Akureyri og Raufarhöfn. ,,Síðan verður siglt út í Flatey á Skjálfanda þar sem lagið verður tekið í fjörunni við brakandi varðeld,“ segir Svava og brosir við tilhugsunina.

Konurnar sem standa í fremstu röð eru allar búnar að vera frá stofnun kórsins fyrir 30 árum. Þær heita frá vinstri: Særún Ármannsd, Elín Ástráðsd, Sigrún Halldórsd, Katrin Edda Svansdóttir, Margrét Jónsdóttir, Anna Axelsdóttir, Guðný Helgadottir, Á. Svava Magnúsdóttir, Anna Inga Grímsdóttir, Friðgerður Benediktsdóttir, Þóra Sæunn Úlfsdóttir og Þórkatla Aðalsteinsdóttir. Ljósmyndari Silla ljósmyndari.
Ráku upp ramakvein

Jóhanna V. Þórhallsdóttir tónlistar- og nú myndlistarmaður en hún stofnaði Léttsveitina fyrir 30 árum en hefur nú snúið sér að málaralistinni ásamt söngnum.
Jóhanna Þórhallsdóttir var fyrsti stjórnandi Léttsveitarinnar en nafn kórsins kom til af því að ákveðið var að hann skyldi fyrst og fremst syngja létt lög eða samtíða dægulög frá ýmsum löndum sem fólk hefði gaman af að syngja með. ,,Jóhanna gerði alltaf kröfur um að við lærðum lögin utan að og styddumst ekki við blöð á tónleikum, hvorki texta eða nótur,“ segir Svava. ,,Okkur þótti þetta erfitt til að byrja með en nú sjáum við að í því felst mikil þjálfun og heilaleikfimi, sér í lagi þegar við eldumst. Og Gísli gerir sömu kröfur.“
Þegar Jóhanna ákvað að snúa sér alfarið að listmálun fyrir tólf árum og hætta að stjórna kórnum segir Svava að kórkonurnar hafi rekið upp ,,hljómfallegt ramakvein“. ,,Við vorum búnar að upplifa svo margt skemmtilegt með Jóhönnu að okkur datt ekki í hug að nokkur gæti farið í hennar kórstjóraföt. En viti menn, við tók annar snillingur, Gísli Magna Sigríðarson, sem heldur áfram að láta okkur líða eins og við séum alveg einstakar,“ segir Svava og skellihlær.
,,Aðalheiður Þorsteinsdóttir var undirleikari og útsetti mikið af lögunum meðan Jóhanna Þórhallsdóttir stýrði kórnum. Eftir að Gísli Magna tók við hefur hann sjálfur útsett mörg laganna sem við syngjum og eru þau öll útsett fyrir 4 raddir og sem fleiri. Metnaður kórstjóranna okkar fyrir hönd kórsins hefur verið gífurlegur og það er svo skemmtilegt og smitandi að finna,“ segir Svava.
Vorum allar í afróbúningum og málaðar í stíl
Sem dæmi um ómetanlega uppákomu sem Svava hefur upplifað með kórnum eru sýningar á afrótónlist og -dansi sem sýndar voru í Loftkastalanum á sínum tíma. ,,Þá vorum við allar í afróbúningum og málaðar í stíl og sungum og dönsuðum af öllum lífsins kröftum. Alveg ótrúlega skemmtilegt,“ segir Svava og brosir við tilhugsunina. ,,Hvað er betra til að hrista upp í manni en að fara út fyrir þægindarammann reglulega sem er einmitt það sem við gerum í kórastarfi eins og okkar.“
Félagsskapurinn ómetanleg viðbót við lífið
,,Ég held því fram að söngurinn haldi manni ungum,“ segir Svava. ,,Fyrir utan hvað það er skemmtilegt að syngja þá er félagsskapurinn ómetanlegur,“ bætir hún við. ,,Félagslífið er svo ríkt eins og til

Tryggvi Ófeigsson átti þetta hús á sínum tíma og talið er að Ásta málara hafi verið fengin til að mála listaverk á veggi forstofunnar. Það listaverk kom í ljós þegar upp kom leki og málningin flagnaði af. Svava og Ingvar ætla að láta næstu eigendur um það hvort þeir vilji halda áfram að vinna myndina til baka.
dæmis stofnaði hluti kórsins gönguhóp sem gengur saman á sumrin þegar æfingarnar hætta. Samfélag Léttsveitarinnar er einstakt held ég, gleðin, umhyggjan og samhyggðin er ótrúleg,“ segir Svava en þegar einhver kórmeðlimur fari í gegnum erfiðleika af einhverju tagi geti félagar treyst því að þær eiga allan kórinn sem bakhjarl og það er ekki lítils virði.
Kórinn hefur farið í útilegur einu sinni á sumri og fyrir nokkrum árum var stofnaður golfhópur því svo margar eru farnar að spila golf. Svo höfum við farið í söngferðir, maðal annars til Kúbu, Spánar, Danmerkur og tvisvar til Írlands. Við tókum þátt í kóramóti á Írlandi og þar vorum við kosnar skemmtilegasti kórinn,“ segir Svava og hlær. ,,Svo var búin til kvikmynd um okkur í síðustu ferð Jóhönnu með okkur til Ítalíu fyrir 12 árum. Myndin heitir Kórinn var sýnd í Bíó Paradís um daginn í tilefni 30 ára afmælis kórsins.“
En hvað ætlar þú þá að gera í staðinn?
Svava segir að þegar vinkona hennar, sem fékk hana með sér í kórinn, hafi látist, og fleiri vinkonur hætt, hafi hún hugsað um það hvort hún ætti kannski bara sjálf að hætta. Frænka hennar, Auður Haralds, var á þeim tíma mikið veik en hún bjó í námunda við æfingastöð Léttsveitarinnar. Svava kom þá gjarnan við hjá frænku sinni eftir æfingar og einn daginn, skömmu eftir að vinkona hennar lést, trúði hún Auði fyrir því að hún væri bara að hugsa um að hætta í kórnum og láta þetta gott heita. ,,Þá sagði Auður með spurn í svipnum: ,,Já, þú segir nokkuð. En hvað ætlarðu þá að gera í staðinn,“ því hún vissi að söngurinn skipti mig miklu máli. Þessi spurning klingdi í eyrunum mínum í nokkra daga og svo steinhætti ég við að hætta í kórnum og sé ekki eftir því,“ segir Svava og brosir. ,,Jafnvel þótt helstu vinkonur mínar væru hættar þá gerði ég mér grein fyrir því að í kórnum væru hundrað aðrar konur sem væru líka vinkonur mínar svo það var engin ástæða til að hætta.“
Minnkuðu við sig

Hér má sjá hvernig skorsteinninn kom undan múr sem var tekinn utan af honum þegar risíbúðin var gerð upp.
Svava og eiginmaður hennar búa í gömlu húsi í Vesturbænum sem kallað var kafteinshúsið þegar þau keyptu það. Nokkrir skipstjórar höfðu búið í húsinu áður en afi Ingvars, sem einnig var skiptstjór eignaðist það 1941. Þau keyptu húsið svo af honum og hafa búið í því í fjörutíu ár. Þegar þeim þótti vera kominn tími til að minnka við sig húsnæði fyrir nokkru tóku þá það ráð að gera upp risíbúðina íhúsinu og flytja í hana en hún er töluvert minni en aðalíbúðin sem er á tveimur hæðum. Svava var áður með fyrirtæki sitt Umhyggju þar uppi.
Nú er tekið við nýtt tímabil í lífi Svövu og hún lætur sér ekki detta í hug að hætta að syngja heldur ætlar hún að njóta þess að þvælast hvert á land eða lönd sem er með kórfélögum og frábærum kórstjórnanda.

Gísli Magna, núverandi kórstjóri Léttsveitarinnar.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar